19.10.1983
Efri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta ef um misskilning var að ræða, þ.e. upphæðina í erlendum skuldum. Hún er 1 milljarður 1200 millj. dollara, 1.2 milljarðar. Það var mitt framískot og er áreiðanlega áhyggjuefni þjóðarinnar allrar, ekki bara þm.

Ég vil svara hv. 8. þm. Reykv. nokkrum orðum. Það var mikið um það rætt í stjórnarmyndunarviðræðunum hvaða mörk ætti að setja og eftir mikla útreikninga bæði Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka og sérfræðinga sem Alþingi og ríkisstj. hafa til umráða skulum við segja eða geta nýtt sér, varð niðurstaðan að þessi aðferð var talin heppilegust og koma best út fyrir fólkið. Það var bæði talað um það, hvort kostnaðurinn væri meiri við börnin ung eða á skólaaldri. Þetta var allt vegið og metið og þetta var niðurstaðan. Ég er ekki með þau skriflegu plögg sem við fengum um mismundandi nöfn á þessu svo að ég get ekki svarað því nú öðru en því að þetta var allt tekið til greina. Ég gæti kannske grafið upp það plagg til þess að við a.m.k. gætum skýrt málin okkar á milli.

En í sambandi við húshitunina, þá er þessi upphæð ætluð til þess að einangra hús og ná árangri á því sviði, en ekki bara til þess að greiða peninga og borga hitunarkostnað. Hún er líka til að koma í veg fyrir eyðslu á orku, þannig að það er í grg. með þessum 150 millj. og núna þessum 230 sem verða á fjárlögum. Ég vona að þetta svari þeim spurningum sem hv. þm. beindi til mín.