05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

11. mál, launamál

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Mér er mikið í mun að þetta frv. verði afgreitt á þessum fundi til 3. umr. Því mun ég ekki verða langorður. Það væri reyndar best að frv. yrði fellt, en sjálfsagt er ekki áhugi fyrir því hjá stjórnarandstöðunni. En verkalýðshreyfingin þarf á því að halda að geta tekið upp samningaviðræður við vinnuveitendur hið allra fyrsta til að geta haft áhrif á gang mála.

En ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er söguskoðun hv. 4. þm. Austurl., hvar hann rekur það hverjar orsakir eru fyrir verðbólgunni, og fannst mér sú söguskoðun afskaplega undarleg.

Það kemur fram hjá honum að kjarasamningar séu höfuðorsökin að því hvernig málum er komið og finnur hann ekkert annað en gerð kjarasamninga sem ástæðu fyrir verðbólgu. Ég mótmæli þessari skoðun mjög harðlega, tel hana alveg úr samhengi við raunveruleikann.

Það kom fram að 1974 hefðu verið gerðir kjarasamningar og eftir það hefði verðbólgan vaxið og 1977 hefðu verið gerðir kjarasamningar og verðbólgan vaxið þá. Ég minni á að í báðum þessum tilvikum var Framsfl. í ríkisstjórn og í báðum tilvikum var það fullyrt af forustumönnum þess flokks við verkalýðshreyfinguna að þeir kjarasamningar sem þá voru gerðir væru innan þess ramma sem efnahagskerfið þyldi. Í seinna tilvikinu var meira að segja svo komið, að einn ráðh. hvatti verkalýðshreyfinguna til að gera kjarasamninga á ekki lægri nótum en hún var sjálf að hugsa um.

Verðbólga er vissulega af því illa, við getum verið sammála um það. Allir stjórnmálaflokkar töluðu gegn verðbólgu fyrir síðustu kosningar og hafa gert það um margra ára skeið. Ég hef einnig heyrt hv. 4. þm. Austurl. tala mikið gegn verðbólgu. Þar hefur hann verið harður og gaman á hann að hlýða. En annaðhvort er það að samflokksmenn hans hafa ekkert mark á honum tekið eða þá að hann hefur ekkert meint með því sem hann sagði, því að í þeim ríkisstjórnum sem hann hefur stutt hefur verðbólgan farið áfram með þvílíkum hraða að aldrei hefur annað eins skeð í Íslandssögunni.

Það kom fram áðan, að hv. þm. var að velta því fyrir sér hvað væri lýðræði. Ég verð að játa að mér fannst niðurstaðan vera afskaplega hæpin. Við stöndum frammi fyrir því að ríkisstj. hefur sett lög á verkalýðshreyfinguna, öll samtök launamanna, og bannað kjarasamninga. Slíkt hefur ekki skeð áður á Íslandi í þeim mæli sem nú er gert. Menn huga nú að ákveðnum grundvallaratriðum þegar þeir eru að setja lög. Það hefur ekki verið gert í þessu tilviki. Það eina sem komst að hjá þeim sem styðja ríkisstj. var að ná sér niðri á launþegahreyfingunni, klípa af henni svo sem unnt væri, og auðvitað kom þetta verst við þá sem áður voru verst settir. Nú er svo komið að þeir sem lægst eru launaðir geta varla dregið fram lífið. Gaman verður að hlusta á það hvernig fyrrv. ráðh. svara því nú á eftir hvernig fólk með 10–12 þús. kr. á mánuði getur farið að því að framfleyta fjölskyldu á þeim tekjum.

Við Alþfl.-menn boðuðum í síðustu kosningum að það væri ástæða til að færa fórnir fyrir betri framtíð og við gagnrýndum vísitölukerfið harðlega. Ég hef sagt innan verkalýðshreyfingarinnar að það hafi verið mistök af verkalýðshreyfingunni að hafa ekki frumkvæði að því að breyta vísitölunni í þann farveg sem viðunandi hefði verið. Því miður var það ekki gert og því er það að þeir ofstækismenn sem nú fara með stjórn landsmála hafa getað tekið vísitöluna úr sambandi og hyggjast sjálfsagt gera það áfram svo lengi sem þeim verður vært í stólunum.

Ég tel að vísitalan hafi eins og komið var á margan hátt verið ranglát og ekki séð fyrir því að vernda hag þeirra sem voru verst settir, eins og hún hefði þurft að gera. En ég tel að það eitt að banna vísitölu jafnframt því að hækka verðlag upp úr öllu valdi leysi engan vanda. Það frestar vandanum, en það leysir engan vanda. Menn munu sjá að ef einhverjar hreyfingar verða á kaupgjaldi á næstunni fer allt í sama farið, vegna þess að það er ekkert gert annað en að lækka launin.

Á sama tíma og Framsfl. hefur verið í ríkisstj. hefur hann lagst gegn því að taka á gerspilltu landbúnaðarkerfi og hann hefur haft forustu um að auka við fiskiskipaflotann, sem menn voru þó flestir sammála um að væri rangt og hefði ekkert nema illt í för með sér undir þeim kringumstæðum sem við búum við í sjávarútvegsmálum. Nú sjá menn afleiðingarnar af þessu, og birtist það í því að nú verður að leggja skipunum enn oftar og enn lengur en gert hefur verið til þessa, því miður.

Maður heyrir það oft, og það kom fram hjá hæstv. forsrh. fyrir skömmu, að framtíðin björt og hrein væri fram undan ef það tækist að koma verðbólgunni niður fyrir helst ekki neitt. En við sjáum þó fyrir okkur að svo verður ekki. Og atvinnuleysi hefur ekki verið forðað. Atvinnuleysi er að koma upp í fjölda byggða hér á Íslandi í dag. Ég minni á að suður á Suðurnesjum eru um 200 manns að verða atvinnulaus, á Akranesi er atvinnuleysi, á Eyrarbakka og Akureyri. Þetta er að ríða yfir alla þjóðina, þannig að þrátt fyrir aðgerðir ríkisstj. í launamálum og þrátt fyrir þá hörku sem þær aðgerðir hafa haft í för með sér er atvinnuleysi að koma yfir þjóðina. Ég spyr hv. 4. þm. Austurl. hvað ríkisstj. hyggist gera í þeim efnum. Við getum væntanlega verið sammála um að atvinnuleysi er enn verra en verðbólga. Atvinnuleysi er það versta sem fyrir hvern launamann kemur.

Við Alþfl.-menn teljum forkastanlegt að banna kjarasamninga og við teljum að þrátt fyrir það undanhald sem ríkisstj. hefur nú hafið vegna innbyrðis sundurlyndis og afstöðu almennings í landinu, undanhald sem hefur birst í því að afnema bann við kjarasamningum, hafi hún samhliða ráðist á kjarasamninga þá er fyrir voru og bannað að þeir kæmu til framkvæmda. Það er mjög slæm aðgerð líka og í prinsippinu verri aðgerð en margt annað.

Ég vona að hv. þm. muni styðja brtt. okkar til að reyna að lagfæra þá aðför, það frv. sem ríkisstj. hefur sett hér fram, og hjálpa því fólki sem hvað sárast hefur það nú þessa dagana vegna aðgerða þeirrar ríkisstj. sem nú er á fullu að klekkja á launþegahreyfingunni, klekkja á verkafólki í landinu.