05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

11. mál, launamál

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið mikið rætt um það frv. til l. um launamál sem hér er til umr. og það er ekki óeðlilegt. Í þessum umr. hafa orð verið látin falla á víxl og þá einkum um liðna tíð; hver kennir öðrum um þá hluti sem orðið hafa. Ég skal sýna ykkur fulla sanngirni. Ég er nýr hér á þingi og tek á sjálfan mig fulla ábyrgð af orðum mínum: Þetta ástand, sem nú ríkir, er meira og minna að kenna öllum þeim flokkum sem haldið hafa um stjórnvölinn hér síðustu árin. Við skulum vera sanngjörn þar. En það skiptist misjafnlega.

Þess vegna þykir mér skrýtinn málflutningur hv. þm. Þórðar Skúlasonar þegar hann kemur upp hér áðan sem málsvari Alþb. í þessum efnum. Ég skildi hann þannig að mér fannst að það væri bókstaflega ekkert að í þessu þjóðfélagi. Sé haft rétt eftir hér — ég skrifaði upp eftir honum — er þetta þannig að ýmsar ytri aðstæður hafi farið mjög batnandi, við erum farnir að veiða síld, við erum farnir að veiða hörpudisk og við erum farnir að veiða loðnu svo að þetta er allt saman á batavegi. Við veiddum síld, Þórður Skúlason, í fyrra. Við veiddum hörpudisk í fyrra. Loðnan er að koma inn núna sem betur fer; það má segja að hún sé aukabúgrein í ár. En á sama tíma er verið að skera niður þorskinn fyrir okkur. Um hvað mikið? Við skulum nefna verðmæti upp á 2.5 milljarða í útflutningsverðmæti; það má ekki gleyma þessu í leiðinni. (Gripið fram í: Það sagðir þú ekki í vor Valdimar þegar lögin voru gefin út.) Nei, ég sé það núna og ég bæti við það sem hann segir hér áðan: Þetta eru einhverjar nýjar búgreinar sem hann er að finna þarna upp. Það er alltaf allt í sama fari hjá Alþb. — ég verð að fara í gamla tímann líka — sem búið er að sitja hér í ríkisstj. í 5 ár og þannig er viðskilnaðurinn — aðrir hér í hv. d. geta svarað því kannske — en ætli það hafi ekki verið einhver mesti dragbíturinn á það í síðustu ríkisstj. að ekki var tekist á við þessi mál. Það er ekki von að hægt sé að viðurkenna það í dag. En því miður er þetta svona, svo að það er ekki skemmtilegt að sitja undir ræðum þar sem þetta er allt kennt þessum vondu ofstækismönnum í ríkisstj. eins og Karl Steinar þm. sagði áðan, sem vilja koma þessum málum fram. En við erum öll sammála um að ekki varð haldið lengur svona áfram. Það varð að takast á við þetta í vor og það var of seint. En það var gert samt og þeir flokkar, sem tókust á við þetta, ætla að leysa vandamálin sem þeir tókust á við. Stór vandamál er við að glíma, en þeir munu ekki hopa í þessum efnum. Ég undirstrika það.

Það var látið að því liggja hér í báðum deildum, og hv. þm. Eiður Guðnason var að því hér áðan, að það væri vafasamt hvort meiri hluti hafi verið fyrir þessum brbl. sem sett voru í vor, það var látið skína í að það væri ekki víst eftir ýmiss konar undanlátssemi síðustu vikna. En það get ég fullyrt við hv. þm. að það var og er meiri hl. fyrir þeim ráðstöfunum sem við hér erum að gera. Ég skal játa að þær eru vissulega harkalegar, en hvað á að gera þegar svona er komið? Og þetta er ötlum að kenna, öllum þessum gömlu stjórnmálaflokkum. Við skulum játa það og við skulum takast á við það. Það þýðir ekki að vera með neina óskhyggju eða sýndarmennsku í þessum málum, sem vill brenna við hjá mörgum. Lægstu launin eru ákveðið vandamál, ég ætla ekki að tjá mig frekar um það. Þau verður að taka sérstaklega á vigt. En hitt eru smámunir á móti því að geta byggt upp atvinnu fyrir fólkið og látið þau mál ganga.

Ég þekki ekki þessa atvinnurekendur á mínu svæði a.m.k. sem hv. þm. Þórður Skúlason talaði um hér áðan og sagði að það ríkti mikill fögnuður í herbúðum atvinnurekenda. Þetta gildir kannske fyrir Norðurl. v., þetta er ekki hér sunnanlands. — [Fundarhlé.]