05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

11. mál, launamál

Frsm. meiri hl. (Tómas Árnason):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að vera mjög stuttorður. Ég vildi fyrst segja það um Alþfl. og stjórnarmyndunarviðræðurnar, að ég er þeirrar skoðunar, hvort sem sú skoðun er rétt eða röng, að Alþfl. hafi misst áhugann á viðræðunum þegar hann ekki fékk undirtektir undir það að fá forsrh. Ég er ekki að halda þessu fram beinlínis vegna þess að þeir hafi haft einhvern sérstakan áhuga á vegtyllum. Ég tek undir það, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði hér áðan, að þeir hefðu viljað gera þetta til að styrkja sína stöðu í stjórninni, vegna þess hvað þeir voru tiltölulega veikir. Í raun og veru viðurkenndi hv. þm. þetta í ræðu sinni áðan með þessum ummælum. Ég álít að Alþfl. hafi misst áhugann þegar þetta var ekki samþykkt.

Varðandi aðgerðir ríkisstj. er rétt að minna á að það eru fleiri mál sem ríkisstj. hefur samþykkt en þetta mál, sem við erum nú að fjalla um, og ég verð satt að segja að láta undrun mína í ljós yfir því að sumir þm. telja óeðlilegt að menn ræði þetta mál nokkuð ítarlega. Þetta er eitt af stærstu málunum sem eru til meðferðar á Alþingi í vetur, alveg hiklaust, og mjög eðlilegt að um það verði verulegar umr. Það kemur fram í frv. sem við erum nú að ræða og brbl. að það var gerður örlítill munur, hann var ekki mikill, en það var gerður örlítill munur á lægstu launum og hærri launum í frv. sjálfu 1. júní. Það er ekki mikið að vísu, það er rétt, en þó aðeins. Það voru 10% í staðinn fyrir 8% á meðallaun og hærri launin.

Varðandi það að eingöngu sé verið að ráðast á launafólkið í landinu, þá er ástæða til að vekja athygli á að launafólk í landinu, ef maður telur bændur og sjómenn með, er líklega allt að 90% af þjóðinni. (EG: Bændur eru atvinnurekendur samkv. skilgreiningu landbrh.) Þá er prósentan lægri sem nemur fjölda bænda. (Gripið fram í.)

En ég skal hafa þetta mjög stutt, vegna þess að virðulegur forseti hefur gefið ... (Forseti: Forseti var að benda hv. þm. á að hann má tala þrisvar, en varð það á að segja að hann mætti aðeins tala tvisvar og gera stutta aths. Hann hefur ótakmarkaðan tíma sem frsm.) — Ég var að undrast á þessu, en hlýddi fyrirmætum forseta að sjálfsögðu. Þar sem ég er frsm. mun ég eiga þennan rétt. Ég skal þó ekki lengja mál mitt mikið þrátt fyrir það.

Ég vil benda á að það voru gerðar nokkrar hliðarráðstafanir í sambandi við þessa ákvörðun, og það er ástæða til að telja þær með og ekki er rétt að segja að það hafi enginn munur verið gerður á lægstu launum og öðrum launum. Það var gerður nokkur munur, en áreiðanlega ekki nógu mikill að dómi stjórnarandstöðunnar.

Varðandi verðbólguna sem slíka verða menn að gæta að því, að verðbólga sem er yfir 100% hverfur ekki eins og dögg fyrir sólu, hún hverfur ekki á einum degi. Hún er innbyggð í kerfinu og það tekur nokkuð langan tíma að hún hverfi. Það hefur að vísu orðið mikil breyting þar sem verðbólga er nú líklega 27%, ekki 30–40 eins og hv. þm. Karl Steinar sagði. Hún er talin vera um 27% í dag samkv. bestu heimildum sem ég hef. Það er vissulega verulega mikil breyting frá því sem var í vor, gífurlega mikil breyting, og það er athyglisvert að svo virðist sem verulega mikill hluti þjóðarinnar telji nauðsynlegt að taka fast á þessum efnahags- og atvinnumálum.

Það var þannig líka með fyrrv. ríkisstj., að þegar hún tók á þessum málum fékk hún mikinn hljómgrunn. Þegar hún tók ekki á þessum málum tapaði hún fylgi. Það er vegna þess að fólkið í landinu skynjaði auðvitað að ekki var hægt að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist á s.l. vori. Það varð að taka á þessum málum og það varð að taka róttækt á þessum málum. Auðvitað má segja að það hafi verið gripið til nokkuð harkalegra aðgerða, það er út af fyrir sig rétt, en enn þá harkalegra hefði það verið að gera ekki neitt eða gera lítið því að þá hefðum við séð framan í fjöldaatvinnuleysi þegar í sumar, vegna þess að fyrirtækin gátu ekki borgað út laun, bara hreinlega ekki, mjög mörg.

Varðandi að Framsfl. hafi kúgað Sjálfstfl. til að gera vonda hluti. Mér finnst stjórnarandstaðan gera allt of mikið úr því þó að laun hafi verið fryst um tiltekinn tíma með tilteknum hætti. Það hefur enginn talað um að afnema samningsrétt. Hver hefur talað um að afnema samningsrétt? Hver hefur talað um það? Það hefur aldrei verið meiningin. Það voru gerðar ákveðnar ráðstafanir í ákveðinn tíma til að forða frá öðru verra. (Gripið fram í.) Já, við gerðum líka ráð fyrir að það yrði samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um slíka áætlun, en það hefur ekki verið hljómgrunnur fyrir henni. Og ég verð að láta þá skoðun í ljós hér nú að ég vonast til þess, þegar menn setjast niður lögum samkvæmt, því það eru lög í landinu að ríkisstj. hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins um efnahagsmálin, að það myndist ábyrg samstaða um framhaldið. Ég er ekki að segja að það eigi að vera eingöngu á kostnað launamanna. En ég vonast til þess að það myndist ábyrg samstaða um framhaldið.

Varðandi vísitöluna. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason lýsti því yfir að hann hefði viljað breytingar á vísitölunni. Hann hefði átt að duga betur 1979, hv. þm., þegar hann heyktist á að standa að nauðsynlegum breytingum um vísitölumálin í lögum um efnahagsstjórn. Hann átti að duga betur þá og hann átti að tala þá um að hann vildi breytingar á vísitölukerfinu. En það fór lítið fyrir því þá. Ég varð vottur að því og veit allt um það, þannig að það lá fyrir þá. Það var mjög hryggilegt að ekki skyldi nást samkomulag um að breyta einmitt vísitölufyrirkomulaginu í lögunum um stjórn efnahagsmála og hafði náttúrlega örlagaríkar afleiðingar fyrir framhaldið.

Hv. 11. þm. Reykv. ræddi um stefnu Kvennalistans í efnahagsmálum og gerði grein fyrir fjárfestingarmálunum. Nú er það svo, að það er stefna ríkisstj. að draga verulega úr fjárfestingu og það er stefnt að því að fjárfestingarhluttallið fari niður fyrir 24% af þjóðarframleiðslu á næsta ári, en hefur verið milti 27 og 28% á undanförnum árum. Það er því stefnt að því að draga verulega úr fjárfestingu.

Það mætti ræða margt um fjárfestingarmálin. Það hefur verið sagt ýmislegt og fullyrt um fjárfestingu s.l. ára. Hún hefur verið gagnrýnd og að sumu leyti með réttu. Það er stundum auðveldara að sjá hlutina eftir á og gagnrýna þá en á þeim tíma þegar ákvarðanir eru teknar. Það hefur t.d. verið talað mikið um offjárfestingu í sjávarútvegi. Ég hef bent á það áður í umr. hér að á árunum 1970–1980 var 4% jákvæður hagvöxtur að jafnaði á ári. Og ég fullyrði að verulegt af því var einmitt vegna þess að það var mikil fjárfesting í sjávarútvegi. Það var gert ráð fyrir því atveg fram undir 1980 og raunar lengur að við gætum átt von á að veiða 400–500 þús. tonn af þorski, og það var gert ráð fyrir gífurlegu magni sem væri hægt að veiða af loðnu, allt upp í 1 millj. tonna, ef ég man það rétt. Og menn gengu út frá þessum spám, þegar verið var að fjárfesta m.a. í sjávarútvegi. Nú hafa þessar spár ekki gengið eftir, því miður, í bili. Við skulum vona að það sé eingöngu í bili. Og ég er ekki farinn fyrir mína parta að samþykkja að það geti ekki orðið hagur og það mikill hagur fyrir þjóðina að eiga þann fiskiskipaflota sem hún á. Það er mikið talað um fiskiskipaflota og fjárfestingu í fiskiskipum. En það er fleira en fiskiskip sem við höfum fjárfest í á Íslandi á undanförnum árum. Það er fleira. Það hefur verið langhagkvæmast að fjárfesta í íbúðarhúsum í Reykjavík. Það hefur verið hagstæðasta fjárfestingin. Það hafa allir keppst um það. Ég er ekki farinn að sjá að slíkt skili meiri arði en fiskiskipaflotinn hefur gert og mun gera um langa framtíð, vona ég.

Varðandi tillögur í launamálum, sem hv. þm. gerði einnig grein fyrir, er það stefna út af fyrir sig sem getur átt nokkurn rétt á sér. En hvað er að segja um atvinnuvegina? Hvað er að segja um tillögur í sambandi við rekstur atvinnuveganna, afkomu atvinnuveganna? Hvað um þær? Nei, þær fylgdu ekki með. Það sem ég sagði hér áður var ekki að menn hefðu ekki gert ýmsar tillögur í efnahagsmálum og atvinnumálum, en menn gerðu ekki heillegar tillögur, ekki heillegt plan. Það er það sem ég var að gagnrýna. (Gripið fram í.) Þær eru hjá stjórninni, við erum að fjalla um þær og höfum verið að fjalla um þær í allt haust og kjarni þeirra mála er auðvitað fólginn í því að menn eru að reyna að skapa grundvöll fyrir atvinnuvegina í þeirri trú að það muni verða ábatasamt í framtíðinni. Það er auðvitað það sem þessir menn eru fyrst og fremst að glíma við og við skulum vona að svo verði.

Varðandi heildarsvipinn á þessum aðgerðum er rétt að þær eru harkalegar. Ég held að það hafi verið nauðsyn á harkalegum aðgerðum, en deila má um hvort þær hefðu átt að vera svona eða einhvern veginn öðruvísi. T.d. má deila um hvort heppilegra hefði verið að fara hægar í sakirnar með kaupmáttinn og láta áætlun um baráttu gegn verðbólgu og viðreisn atvinnulífsins taka lengri tíma. En það eru ákaflega margir á þeirri skoðun og hún kann að vera rétt að t.d. tveggja ára áætlun í þessum efnum sé ekki raunhæf nema samkomulag takist milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um slíka áætlun. Ef það tekst ekki hafi aðilar vinnumarkaðarins hreinlega ekki biðlund til að bíða svo langan tíma án þess að vilja nýjan samning um kaup og kjör.

Ég held að ríkisstj. sé þeirrar skoðunar, og um það sé ekki ágreiningur að í framhaldinu verði lögð áhersla á að reyna að hækka lægstu launin án þess að það gangi í gegnum allt launakerfið, en það hefur verið reyndin á undanförnum árum mörgum. Samningar hafa oft byrjað á að samið hefur verið um hækkun á lægstu laununum, en hvað hefur svo gerst? Það sem hefur gerst í framhaldi af því er að þessi hækkun hefur gengið í gegnum allan launastigann. Og hvernig hafa menn svo staðið á eftir? Menn hafa staðið í nákvæmlega sömu sporum hvað snertir hlutfall láglaunafólks og þeirra sem hærri tekjur hafa.

Ég vona að hægt verði að breyta hér til og að samtök launamanna verði til samvinnu um að breyta til þannig að hækkun verði á lágu laununum hvort sem hún er bein eða óbein — það skiptir ekki höfuðmáli raunverulega — án þess að sú hækkun gangi í gegnum allt kerfið. Ég held að kannske sé mesti vandinn sem fram undan er að ná samstöðu um þetta.

Á sama tíma verða menn auðvitað að gera sér grein fyrir því hvað atvinnulífið í landinu þolir, undirstöðugreinarnar. Ég held að atvinnuöryggið á næstu mánuðum verði ákaflega mikið háð því að það takist að koma í veg fyrir að fyrirtæki t.d. í fiskvinnslu og sjávarútvegi stöðvist. (Gripið fram í: Þau eru að stöðvast.) Þau eru sum að stöðvast, það er rétt. En ég held að atvinnuöryggið verði ákaflega háð því og þá er auðvitað að gæta þess að ekki má leggja of mikið á fyrirtækin. Ég held að verðbólgan sé hættulegust í þessu efni. Og ef hún hækkar á nýjan leik held ég að við séum verulega í miklum vanda, við Íslendingar, vegna þess að þá ráðum við einmitt ekki við það sem okkur hefur tekist að ráða við fram á þennan dag, þ.e. að halda uppi fullri atvinnu í landinu. Það hefur tekist í öllum aðalatriðum. Og ef við lítum í kringum okkur í Evrópu, t.d. til Evrópu og Norður-Ameríku, eru þar 35 millj. manna atvinnulausar þannig að það er í sjálfu sér ekkert lítið afrek hjá Íslendingum að hafa haldið uppi fullri atvinnu í landinu svona lengi. Ég skal ekkert spá um hvernig til tekst í því efni, það fer auðvitað mikið eftir afla og árferði. En það er auðvitað geysistór vandi á ferðinni, þar sem er vandi sumra sjávarútvegsfyrirtækja og hættuástand ef sum þeirra fyrirtækja stöðvast því að það er svo margt fólk sem vinnur í þessum greinum.

En ég vil að lokum, virðulegi forseti, aðeins undirstrika þetta að aðgerðirnar sem ríkisstj. hefur staðið fyrir eru fyrst og fremst til þess fallnar að styrkja atvinnulífið í landinu, treysta atvinnuna, en ég viðurkenni að þær hafa verið harkalegar.