05.12.1983
Efri deild: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

11. mál, launamál

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Við 2. umr. um þetta frv., sem hér fór fram fyrir skammri stundu, fluttum við þm. Alþfl. brtt. sem gengu í þá átt að sníða ýmsa vankanta af þessu frv. og freista þess að gera þessi verðandi lög réttlátari og sanngjarnari. Þessar tillögur voru m.a. um 15 þús. kr. lágmarkslaun og að felldar yrðu úr gildi heimildir ríkisstj. til sjálfvirkrar hækkunar á álögum á fólk í landinu samkv. vísitölu, en slíkar hækkanir hafa birst okkur í ýmsum myndum að undanförnu. Það er komið líka fram, að við teljum rangt að hindra með lagasetningu hálft annað ár fram í tímann að aðilar vinnumarkaðarins geti samið um skynsamlegar kaupmáttartryggingar, t.d. fyrir hina lægst launuðu, en eins og 2. mgr. 1. gr. ber með sér verður þetta nú bannað með lögum, þótt svo við á hinn bóginn vildum ekki lýsa blessun okkar og stuðningi við úrelt vísitölukerfi sem verið hefur í gildi fram að þessu.

Eins og þetta frv. er nú að felldum okkar brtt., þá teljum við það bæði óréttlátt og óskynsamlegt og við erum því mótfallnir þessu frv. í heild sinni eins og það nú liggur fyrir og því segi ég nei.