05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

40. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Sigurðsson er, eins og gömlum sjómanni sæmir, iðinn við kolann, flytur þetta mál á hverju ári frá því að hann kom hér fyrst. Ég virði það við hann að gefast ekki upp. Það er góður eiginleiki manna sem vilja koma sínum málum áfram. Hann flutti hér fallega ræðu um sveitasæluna, náttúrufegurðina og perlurnar í andliti landsins og hvað það væri nauðsynlegt og fagurt, heilbrigt og gott að geta komist úr hinni spilltu náttúru, skilst mér, út í hina óspilltu náttúru, hvar svo sem hana er að finna. Ég sé ekki að náttúran hér á höfuðborgarsvæðinu sé spillt. Hún er ekki síður fögur hér en í rykmekkinum hér úti um sveitir. Allra síst vil ég verða til að lasta náttúrufegurðina uppi í sveit. En það er nú mín meining að hún sé síður en svo spilltari í Reykjavík en víða úti á landi þar sem sumarbústaðir eru, svo þéttir eru þeir orðnir.

En ef það er svo nauðsynlegt að komast í sveitasæluna og náttúrufegurðina, af hverju vilja menn þá ekki borga fyrir það? Er hún einskis virði þegar á að fara að meta hana til peninga? Ég tel að þeir sem hafa efni á því að reisa sér sumarbústaði — og það er nú ekki allur almenningur í landinu — geti alveg eins borgað af þessu einhverja smámuni á ári hverju, sem svarar einni eða tveimur fyllingum á bensínbeljuna á ári.

Þetta mál er þannig vaxið að ég held að það sé rétt, eins og ýmsir aðrir ræðumenn hafa nefnt hér áður, að reyna að komast að samkomulagi. En menn komast ekki að samkomulagi með því að berja fram einungis það sem þeir hafa í huga. Menn verða að slaka til á báða bóga. Ég teldi það mjög sanngjarna lausn að allir sem búa í sveitasælunni borguðu jafnhátt fasteignagjald, hvort sem er í sumarbústöðum eða öðrum húseignum á svæðinu. En um leið og það yrði gert yrði auðvitað að leiðrétta þá vitleysu að félagasamtök, sem eru með orlofshús víða um land, sleppi við að borga. Þau eiga nóg af peningum og engin ástæða til að hlífa þeim við að borga þetta. Ég mun því ekki samþykkja þetta frv., jafnvel þó að við næðum æskilegri prósentu, ef á að sleppa þessum samtökum við að greiða til jafns við það sem aðrir þurfa að greiða.