05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta frv. til laga ber fallegan titil: Fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum. Það er oft haft á orði hér í þingsölum og í almennri stjórnmálaumræðu að nauðsyn beri til að vernda hag þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Þó er það svo, að þótt ýmsir hafi gagn af þessu frv. þá hafa þeir sem verst eru settir ekki hag af því. Á þá hefur lífskjaraskerðingin fallið með fullum þunga. Þessar aðgerðir hafa með engum hætti verndað hag þeirra.

Þetta má rökstyðja með einföldum dæmum eins og gert er í áliti minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. Ef hjón með eitt barn, sem er yngra en 7 ára, náðu 130 þús. kr. tekjum á síðasta ári njóta þau fulls gagns af þessum persónuafslætti. En ef þau hefðu haft 122 þús., eða 8 þús. kr. minna, þá hefðu þau ekkert upp úr þessari aðgerð, sem nefnd er til verndar lífskjörum, þ.e. það var skilyrði að ná tilteknum tekjum til að vera talinn til þess hóps sem vernda skyldi lífskjörin hjá. Ef menn náðu ekki þeim tekjum urðu þeir að bera byrðarnar sjálfir.

Sama gildir t.d. um einstakt foreldri, eins og rakið hefur verið í þessu nál., með eitt barn undir 7 ára aldri. Einstakt foreldri, sem þannig stendur á hjá, hefur fullt gagn af þeim ráðstöfunum sem hér er gert ráð fyrir ef tekjurnar voru 122 þús. kr- eða meira en ef þær fóru niður fyrir 118 þús. hafði þetta einstæða foreldri ekkert gagn af breytingunni.

Sama gildir um elli- og örorkulífeyrisþega. Einstaklingur í þeim hópi þurfti að hafa 104 þús. kr. í tekjur til að hafa gagn af breytingunni og hjón 202 þús. kr. en óskert tekjutrygging er 77 þús. fyrir einstakling og 134 þús. fyrir hjón. Þarna á það sama við, að ef menn ná ekki tilteknum tekjum verða þeir að bera allar byrðarnar af kjaraskerðingunni sjálfir.

Við getum skoðað þetta aðeins nánar. Elli- og örorkulífeyrisþegi með fulla tekjutryggingu fær núna 7 018 kr. á mánuði. Samkv. þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. hefur gert er í rauninni búið að hafa af þessum aðila 2 466 kr. en í staðinn fær hann 193 kr. vegna 5% hækkunar tekjutryggingar. Afganginn, 2 270 kr. og rúmlega það, hefur hann tekið á sig. Af þessu sést hversu gölluð sú aðgerð er sem hér er leitað staðfestingar á. Með henni er ekki verið að vernda kjör þeirra lakast settu. Þeir eru gjörsamlega skildir eftir. Þeir sem lakast eru settir verða að bera byrðarnar að fullu. Af þessu mega menn sjá að nafnið á frv. er í sjálfu sér öfugmæli.