05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hér fyrr á tíð, þegar kreppti að á heimilum fátæks fólks á Íslandi í vorharðindum, var til siðs í bjargarleysinu og allsleysinu að stinga dúsu upp í hvítvoðunga fyrir þá að maula á. Þetta frv. er dúsa af því tagi í nútímalegum búningi.

Tveir þeirra þm. sem hér töluðu áðan hafa lagt á það megináherslu að þetta frv. með fallegu nafni, um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum, væri fyrst og fremst dúsa til að friða samvisku hæstv. ráðh. og ekki raunhæf aðgerð til að koma að gagni þeim sem raunverulega búa í nábýli við skortinn í þessu þjóðfélagi. Fyrir því hafa verið nefnd rök og tíundaðar tölur og ég ætla ekki að endurtaka það. Þau rök hafa ekki verið hrakin. Jafnframt er ástæða til að lýsa fylgi við þær brtt. sem fram voru lagðar af minni hl. fjh.- og viðskn. í Ed. og snúast fyrst og fremst um tvennt: Í fyrsta lagi að sá persónuafsláttur sem um er rætt verði útborganlegur og greiddur skattaðilum í desembermánuði ár hvert. Og svo í annan stað að barnabætur sem um ræðir í þessum lögum og nema 3000 kr. fyrir hvert barn verði ekki einungis greiddar, eins og þar er talað um, miðað við hin dularfullu tímabílaskipti í ævi fólks við sjö ára aldur.

En í framhaldi af því er kannske rétt að fara örfáum orðum um framvindu þessara mála. Við erum hér að tala um sérstakar efnahagsaðgerðir sem varða skattamál. Hér hafa nýlega orðið á hv. Alþingi umr. um skattbyrði. Nú kannast menn við að ríkisstj. hefur lýst því yfir að hún stefni að því að skattbyrði að því er varðar tekjuskatta verði óbreytt á næsta ári. Af því tilefni er ástæða til að ræða tvennt:

Í fyrsta lagi vísa ég til umr. sem urðu um skattbyrði vegna útsvarsálagningar sveitarfélaga. Á sínum tíma kom fram í erindi framkvæmdastjóra Þjóðhagsstofnunar sú ábending, að fram undan væri að óbreyttu mikil skattþynging að því er varðaði skattálagningu sveitarfélaga. Þar sagði á þá leið, að við óbreytta skattálagningu hækkuðu tekjur sveitarfélaga mun meira en svarar verðbreytingum útgjalda þeirra á árinu 1984 og það fæli í sér að skattbyrði einstaklinga af völdum skatta til sveitarfélaga þyngdist verulega. Í viðtali við einn af hagfræðingum Þjóðhagsstofnunar, sem birtist í dagblaðinu Tímanum um daginn, er talið að lækka þyrfti útsvarsálagningarprósentuna niður undir 9% til þess að staðið yrði við fyrirheitið um óbreytta skattbyrði að þessu leyti. Munurinn þar á að því er varðaði álagningu sveitarfélaganna er áætlaður um 800 millj. kr. og þar kæmu þá í hlut Reykjavíkur, þar sem 40% af útsvarsálagningunni á sér stað, um 320 millj. kr. Ég vek athygli á að það er ekki annað vitað en að þessar staðreyndir standi óhaggaðar og fram undan sé veruleg íþynging skattbyrði af þessum ástæðum einum sér.

Í annan stað er líka ljóst að fram undan er aukin skattíþynging ef ekki koma til atveg sérstakar ráðstafanir að því er varðar tekjuskatt til ríkisins. Í því tilefni er líka rétt að vísa til ummæla þjóðhagsstjóra í erindi hans á landsfundi sveitarfélaga þar sem hann sagði:

„Með tilliti til þess að tekjuskattstofninn hefur líklega hækkað í peningum talið um 54% á mann milli áranna 1982 og 1983 er ekki einsýnt að þessum áhrifum verði eingöngu náð með hækkun skattvísitölu.“

M.ö.o.: Hann er að vísa til þess að sú aðgerð ein saman að hækka skattvísitöluna dugi ekki til að standa við fyrirheit hæstv. ríkisstj. um óbreytta skattbyrði. Þar þurfi að koma til aðrar ráðstafanir, m.ö.o. breytingar á skattþrepum eða aðrar lagabreytingar í skattamálum.

Það er ástæða til að nota þetta tilefni til þess að spyrjast nánar fyrir um það, hvort ríkisstj. hafi tekið ákvarðanir um þau mál eða m.ö.o. hvernig og eftir hvaða leiðum hún hyggist standa við fyrirheit sín um að á næsta ári komi ekki til sérstakrar aukinnar skattbyrði að því er varðar skattborgarana almennt.

Eins og fram kemur er frv. um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum þannig úr garði gert að það dugar ekki til að vernda lífskjör þess fólks sem nú hefur orðið að þola hvort tveggja í senn verulega kjaraskerðingu og eignast síðan ekki heldur hlutdeild í þeim lítilfjörlegu mildandi ráðstöfunum sem þarna er gerð grein fyrir. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé til harla lítils að ræða afkomu eða kjör fólks í þessu þjóðfélagi út frá töxtum eða tekjum, heldur beri fyrst og fremst að gera það út frá því sjónarmiði hver nettóafkoma fjölskyldna verður að álögðum sköttum. Þegar allir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar fara fögrum orðum um nauðsyn þess að vernda lífskjör þess fólks sem við kröppust kjör býr, þá er ljóst að aðgerðirnar sem á eftir hafa fylgt hafa lítt dugað til þess. sorglegt dæmi um það úr tíð fyrrv. ríkisstj. voru hinar svonefndu láglaunabætur þar sem lögð voru til grundvaltar skattframtöl manna, og endaði það með þeim ósköpum að hátekjufólk, sem bjó við allsnægtir, fékk tékka í pósti frá hæstv. ríkisstj. og þar með þá móðgun að það hefði þegið láglaunabætur. Og þar með um leið staðfestingu á stöðu sinni í þessu þjóðfélagi sem löggiltir skattsvikarar.

Í raun og veru er ein greið leið til að bæta kjör þessa fólks. Ég hef því miður takmarkaða trú á að það gerist í kjarasamningum einum sér með hækkun kaups í krónutölu, sem síðan muni samkv. reynslu fara upp allan launastigann. Það sem þarf að gera er að taka upp einhvers konar form neikvæðs tekjuskatts, þ.e. útborganlegan persónuafslátt sem kæmu raunverulega að gagni þeim sem hér um ræðir. Og svo í annan stað að hækka verulega skattfrádrátt þannig að skattfrelsismörkin verði hækkuð upp. Þá á ég við að ef menn á annað borð eru að tala um lágmarkslaun sem 15 þús. kr. á mánuði þarf að tryggja um leið að þau laun séu ekki skert í reynd við skattlagningu. Þetta þýddi það í reynd að eðlilegt væri að mínu mati að miða við raunveruleg skattfrelsismörk ekki lægri en heldur hærri upphæð en 15 þús. kr. á mánuði, t.d. við 200 þús. kr. mörkin, ella er hætt við því að umr. um þessi mál snúist um yfirborð hlutanna en ekki kjarna málsins.

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að beina þeim spurningum til hæstv. fjmrh. hvort hann geti við þessar umr. gert grein fyrir því hvort ríkisstj. er einhverju nær um eftir hvaða leiðum hún hyggist standa við yfirlýst loforð sín um að hún muni ekki una því að skattbyrði verði aukin á næsta ári og þá skattbyrðin í heild fyrir launþega.