05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá hæstv. fjmrh. er það frv. sem hér um ræðir í rauninni hluti af efnahagsaðgerðum ríkisstj. frá s.l. vori og því eðlilegt að ræða nokkuð um efnahagsmál í heild um leið og um þetta frv. er fjallað. Þetta frv. ætti að réttu lagi að heita „frv. til l. um lýðskrum“, því að þetta frv. kemur engan veginn til móts við það fólk sem ætlunin er að koma til móts við og hefur orðið fyrir hrottalegustum árásum af þeirri leiftursóknarstefnu sem núv. ríkisstj. framkvæmir undir forsæti Framsfl.

En í tengslum við þetta mál, herra forseti, vil ég minna á að ein meginforsendan fyrir stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum og þar með þeim árangri í baráttunni gegn verðbólgu sem ríkisstj. gjarnan státar sig af er sú, að gengi íslensku krónunnar sé haldið föstu. Og í umr. um frv. til l. um breyt. á lögum um verslunaratvinnu hér í síðustu viku sagði varaformaður Sjálfstfl. að fyrrv. ríkisstj. hefði í raun og veru haft gjaldeyrinn á útsölu, hún hefði þannig stutt sérstaklega við bakið á innflytjendum og heildsölum sem flytja hingað inn til landsins. Hæstv. fjmrh. er að sjálfsögðu ekki sammála því að fyrrv. ríkisstj. hafi stutt við bakið á heildsölum. En ég held að það sé fróðlegt í sambandi við þetta mál, herra forseti, að íhuga: Er það rétt sem hv. 2. þm. Reykv., varaformaður Sjálfstfl., er að bera á fráfarandi ríkisstj. í þessu efni? Og er það rétt að núv. ríkisstj. hafi stillt gengisskráninguna þannig af að það sé í raun og veru í einu og öllu í samræmi við þróun gjaldmiðla á undanförnum mánuðum?

Í tilefni af þessum upplýsingum og ítrekuðum áróðursslagorðum talsmanna ríkisstj. varðandi gengismál aflaði ég mér í dag upplýsinga um þróun raungengis íslensku krónunnar frá því að þessi ríkisstj. tók við og til dagsins í dag. Og það er fróðlegt að lesa þá töflu yfir til samanburðar við ítrekaðar staðhæfingar um það að fráfarandi ríkisstj. hafi haft gjaldeyrinn á útsölu. Það er fróðlegt að lesa þessa töflu yfir, en það er rétt að taka það fram, sem er grundvallaratriði og er samstaða um meðal allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi, að það ber að beita aðhaldsstefnu í gengismálum þannig að það sé í hvívetna reynt að halda aftur af kröfum um gengislækkanir og gengisbreytingar. — En hvernig stendur þetta mál núna? Ég tel að mér sé skylt, vegna þess að mér hafa borist þessar upplýsingar í hendur, að upplýsa þingheim um hvernig þróun gengisins hefur verið.

Ef við gerum ráð fyrir að raungengi íslensku krónunnar hafi verið 100 á árinu 1982 er staðan þannig núna, að gengið í nóvembermánuði 1983 er 102.4, þ.e. skráð gengi íslensku krónunnar er núna mun hærra en það var á árinu 1982, þegar þáv. ríkisstj. hafði gjaldeyrinn á útsölu að sögn talsmanna Sjálfstfl. Ef við skoðum í þessu sambandi hvernig þetta hefur breyst frá því að stjórnin tók við og til dagsins í dag og segjum að raungengið hafi verið 100 árið 1978 er staðan þannig, að gengi íslensku krónunnar á fyrsta fjórðungi þessa árs var 87.8, á öðrum fjórðungi þessa árs 88.1, á þriðja fjórðungi þessa árs 89.6 og á fjórða ársfjórðungi 1983 er gengi íslensku krónunnar 95.2. Á þennan mælikvarða er gengi íslensku krónunnar í dag, þ.e. 5.12.1983 samkv. upplýsingum sem ég hef undir höndum frá hagdeild Seðlabankans, 95.5, en þetta gengi var 1. júní s.l., þegar ríkisstj. hafði gert sínar efnahagsráðstafanir og hafði þannig skráð það gengi sem hún taldi rétt og eðlilegt, 81.3. Hafi fráfarandi ríkisstj. haft útsölu á gjaldeyrinum hefur núverandi ríkisstj. rýmingarsölu á gjaldeyri, jólaútsölu, allsherjarjólarýmingarsölu. Þannig er staðan. Þessar endurteknu staðhæfingar og fullyrðingar talsmanna hæstv. ríkisstj. um að gengisfestan sé hornsteinninn í stefnu ríkisstj. og þar sé allt með felldu stenst því ekki samkv. upplýsingum sem liggja fyrir frá Seðlabankanum í dag. Mismunurinn á raungengi íslensku krónunnar í dag, 5. des., og því gengi sem var 1. júní s.l. er þarna milli 15 og 17% vegið á mælikvarða þeirra mynta sem við notum í okkar utanríkisviðskiptum.

Þetta segir væntanlega sína sögu, herra forseti, um þá stöðu sem hér er í efnahagsmálum og segir sína sögu um hvernig yfirlýsingar ráðh. allra um árangurinn mikla í baráttunni við verðbólgu, fyrir festu í efnahagslífinu, eru reistar á sandi. Allar þessar yfirlýsingar eru reistar á sandi og þar stendur ekki steinn yfir steini. Það er ömurlegt hlutskipti fyrir það láglaunafólk sem á þessu ári hefur fórnað af kaupi sínu stórfelldum fjárhæðum í baráttunni gegn verðbólgu og hefur tekið við þeirri smán sem felst í því frv. um mildandi ráðstafanir sem hér er á dagskrá og ætti að réttu lagi að heita „frumvarp til laga um lýðskrum“.