05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka utanrrh. svör hans, en mér finnst hann ekki hafa svarað fsp. því að hún var hvort hann gæti fallist á að Alþingi Íslendinga fengi að greiða atkvæði um afstöðu Íslands til þessarar mikilvægu till. um frystingu kjarnorkuvopna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þannig að mér finnst þessari fsp. raunverulega vera ennþá ósvarað. Ég vil nánar tiltaka hver sú till. er sem ég gat um, þannig að ekkert sé um villst, það er till. Svíþjóðar og Mexíkó. Það hryggir mig að utanrrh. verður ekki viðstaddur þá mun ítarlegri umr. sem hér mun fara fram á morgun þar sem unnt er með röksemdafærslu að svara röksemdafærslu hans. Mér finnst ég þó aðeins þurfa að taka á nokkrum atriðum eins og t.d. því með jafnvægisleysið.

Jafnvægisleysið eykst eftir því sem vopnunum fjölgar. Það er ekki jafnvægisleysi þegar báðar þjóðirnar geta gjöreytt hvor annarri. Jafnvægisleysið verður enn þá meira og viðkvæmara eftir því sem fleiri og hættulegri vopn bætast við. Og þessi vopn og notkun þeirra, þetta eru tómar hótanir. Þær eru innantómar og ósannar vegna þess að allir vita að ekki er hægt að nota þau nema að það leiði til gjöreyðingar. Þess vegna eru þessi vopn gagnslaus og stórveldin verða að finna aðrar aðferðir til að halda hvort öðru í skefjum ef þau geta ekki orðið samstarfsaðilar eða vinir sem er auðvitað eina lausnin.

Og mér finnst að kominn sé tími til að við Íslendingar tökum ábyrgari afstöðu til að forða okkar eigin lífi og til að bera ábyrgð á okkar eigin lífi og annarra. Og ein leið til þess er einmitt að Alþingi Íslendinga fái að taka afstöðu til tillögu eins og þessarar. En mér finnst fsp. enn vera ósvarað.