05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég bendi á að á morgun er gert ráð fyrir því að fram fari efnisleg umræða um uppsetningu meðaldrægra eldflauga í Evrópu og í þeirri umr. gefst kostur á því að svara efnisatriðum í þeirri ræðu sem hæstv. utanrrh. flutti hér áðan. Ég ætla þess vegna ekki að fara út í einstök atriði þeirrar ræðu nú þó að full ástæða væri til, svo margt furðulegt sem kom fram í henni.

Ég ætla hins vegar að taka undir það sem hæstv. utanrrh. minntist á áðan í ræðu sinni, að þegar um þessi mál er fjallað, t.d. í Sovétríkjunum, gefst almenningi ekki kostur á að taka afstöðu til mála og ræða þau með þeim hætti sem við höfum lýðræðisleg réttindi til hér í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Og það sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir var að spyrja um áðan var það hvort Alþingi Íslendinga ætti ekki að nota þau réttindi sem þingið hefur til að tjá viðhorf sitt varðandi þá till. um frystingu kjarnorkuvopna sem flutt er af Mexíkó og Svíþjóð og verður tekin fyrir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eftir rétta viku. Það var ósköp einfaldlega verið að ræða hér um að afstaða Íslands verði ekki ákveðin fyrr en Alþingi Íslendinga hefur tekið afstöðu í málinu. Það er ekkert annað sem hér er á dagskrá út af fyrir sig. Efnisatriði þessa máls ræðum við undir sérstökum dagskrárlið hér á morgun.

Og ég tel það alveg óhjákvæmilegt að Alþingi taki þessa afstöðu og fjallað verði efnislega um málið hér á Alþingi með þeim hætti t.d. að utanrmn. ræði það sérstaklega og gerðar verði ráðstafanir til að tryggja að hún komi saman í þessu skyni. Utanrrh. Danmerkur, kollegi hæstv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar, hefur varðandi þessi mál orðið að taka tillit til þeirrar niðurstöðu sem meirihluti danska þjóðþingsins hefur komist að í þessu efni. Og mér finnst ekkert eðlilegra og sjálfsagðara en að hæstv. utanrrh. geri hér slíkt hið sama og hlýði á þá afstöðu sem lýðræðislegur réttur okkar samkvæmt stjórnarskrá landsins kveður á um, að við megum hér greiða atkvæði um mál af þessum toga.

Ekki síst er þetta mikilvægt, herra forseti, þegar ljóst er að mér virtist sem hæstv. utanrrh. væri í rauninni mjög þvert um geð að þurfa að sitja hjá í málinu. Mér fannst rökstuðningur hans allur vera á hinn veginn. En það er ekki aðalatriðið, heldur hitt að Alþingi Íslendinga taki afstöðu og í þeim efnum ákveður hæstv. utanrrh. ekki hvort þingið fjallar um málið, heldur Alþingi sjálft.