05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti, ég skal gera það. En eins og hér hefur komið fram væri sú langa ræða sem hæstv. utanrrh. flutti hér tilefni til allítarlegra umr. um málin. En ég ætla ekki að svara þeim efnisrökum hér heldur eingöngu bera fram þrjár spurningar.

Í fyrsta lagi er sú spurning sem þegar hefur verið borin fram af hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og ég ítreka hana, að hæstv. utanrrh. svari því skýrt og skorinort: Er hann reiðubúinn að beita sér fyrir því í samvinnu við forseta þingsins og ríkisstjórn, því ella verður það varla hægt, að Alþingi fái að greiða atkvæði um þetta mál áður en atkvgr. fer fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna?

Í öðru lagi: Var sú ræða sem hæstv. utanrrh. flutti hér lýsing á hans persónulegu afstöðu til þessara mála og hans persónulegu rökum eða var hún lýsing á stefnu hæstv. ríkisstj. í málinu? Hæstv. utanrrh. sagði slíka hluti í þessari ræðu að það er alveg óhjákvæmilegt með tilliti til þess að hann verður ekki viðstaddur hér á morgun að það komi skýrt fram hvort hann var að lýsa stefnu núv. hæstv. ríkisstj. eða eingöngu sínum sjónarmiðum.

Og í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann telur að meiri hluti danska þingsins, sem nú nýlega hefur í raun og veru hafnað öllum þeim meginrökum sem hæstv. utanrrh. flutti hér, fari virkilega svo villur vegar í þessum efnum sem ræða hæstv. ráðh. gaf tilefni til að ætla að væri hans skoðun. Það eru þó einkum fyrri spurningarnar tvær sem ég tel óhjákvæmilegt að hér fáist svör við. Hægt er að svara þeim með einföldu jái eða neii án þess að það taki langan tíma.