05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. utanrrh. um umr. um þetta mál í síðustu ríkisstj. er rétt að það komi hér fram, sem ég hygg að hafi komið fram í fjölmiðlum þegar það mál var rætt á sínum tíma, að afstaða Alþb.-ráðh. var sú að það hefði verið eðlilegra að styðja þá till. Mexíkó og Svíþjóðar sem hér er spurt um. Við töldum hjásetu hins vegar illskárri kost en þann sem voru uppi hugmyndir um í ýmsum herbúðum NATO hér og víðar þá og einnig nú.

En í framhaldi af ræðu hæstv. utanrrh. finnst mér eðlilegt að slá því föstu að Alþingi taki afstöðu í þessu máli, þess verði freistað að láta atkv. ganga um málið í tæka tíð áður en um till. verði fjallað á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna eftir sjö daga eða svo. Ég skil hæstv. utanrrh. svo, að hann muni þrátt fyrir sín síðustu orð hér áðan um að draga dám af dönskum, og tel það nú óheppilegt, taka tillit til vilja þingsins eins og hinn danski starfsbróðir hans gerði og tryggja það, ef vilji Alþingis yrði á þann veg, að afstaða Íslands verði mótuð á Alþingi Íslendinga.