05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að þessi umr. sé tvíþætt. Annars vegar sé verið að fjalla hér um stefnumótun og umr. varðandi afvopnunar mál almennt. Þar getum við tekið okkur tíma og rætt málin ítarlega í utanrmn. og ég fagna því að hæstv. utanrrh. skuli sýna áhuga á því. Við skulum fyrir okkar leyti, þm. Alþb., reyna að taka á því máli.

Varðandi hitt málið, sem er sú sérstaka till. sem hér er spurt um, þá verður að taka afstöðu til hennar næstu sólarhringa. Undan því verður ekki komist og það þarf ekki að vera nein fljótaskrift á þeirri afstöðu af hálfu Alþingis Íslendinga fremur en á þeirri afstöðu sem hæstv. utanrrh. hefur þegar tekið, nema síður sé, í þessu máli.