06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

58. mál, eggjaeinkasala

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir skýrt og afdráttarlaust svar við þeirri fsp. sem ég bar hér fram. Þar fór ekkert milli mála. Mér er það auðvitað fullkomlega ljóst að lögin um Framleiðsluráð eru á verksviði landbrh. en ég taldi hins vegar eðlilegt að þingheimur fengi að vita afstöðu viðskrh. í þessu máli. Hins vegar vek ég athygli á því að ég spurði einnig úr þessum ræðustóli áðan hvort hæstv. viðskrh. væri reiðubúinn að beita sér gegn því í ríkisstj. og annars staðar þar sem hann má sín einhvers að slíkri einkasölu yrði komið á fót vegna þess að ég þykist sjá á öllum sólarmerkjum að uppi eru tilburðir í þá átt.