06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

58. mál, eggjaeinkasala

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Vegna þeirra orða, sem hér hafa fallið, tel ég rétt að lesa hér fréttatilkynningu sem Framleiðsluráð sendi frá sér 23. nóv. s.l. um þetta mál en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Að gefnu tilefni lýsir Framleiðsluráð því yfir að það hefur ekki óskað eftir að sex manna nefnd verðleggi egg og engin hugmynd hefur þar komið fram um slíkt frumkvæði af hálfu Framleiðsluráðs. Framleiðsluráð hefur ekki átt frumkvæði að verðlagningu sex manna nefndar á nýjum flokkum búvara s.l. 20–30 ár. Þá lýsir Framleiðsluráð því yfir að það hefur ekki veitt Sambandi eggjaframleiðenda einkasöluleyfi til heildsölu á eggjum. Heildsöluleyfið sem Framleiðsluráð hefur þegar veitt Sambandi eggjaframleiðenda, er veitt samkv. 36. gr. laga nr. 95/1981 og tekur gildi þegar það hefur stofnsett eggjadreifingarstöð. Ef Samband eggjaframleiðenda tekur ákvörðun um stofnsetningu dreifingarstöðvar og í ljós kemur að einhverjir eggjaframleiðendur telja sig ekki geta staðið að stöðinni mun Framleiðsluráð taka umsóknir um heildsöluleyfi til afgreiðslu enda uppfylli umsækjendur skilyrði stjórnvalda hverju sinni um heilbrigðisskoðun og flokkun eggja.“

Ég hef áður látið það koma fram hér á Alþingi í orðum sem ég hef látið falla að það, sem mér finnst skipta mestu máli, er að þessi framleiðsluvara, eins og önnur, komist til neytenda með sem minnstum tilkostnaði. Ég hef bent á það hvernig skipulagning hefur leitt til slíks, þ.e. að hver einstakur framleiðandi þurfi ekki að flytja sjálfur sína vöru um langan veg á markað heldur sé reynt að koma þar að sameiginlegum flutningum. Af þessu er augljós hagræðing enda held ég að það hafi ekki komið fram hvort egg eru raunverulega ódýr hér eða dýr fyrir neytandann þegar til lengri tíma er litið. Það eru mjög miklar verðsveiflur á eggjum og það er vitanlega meðalverðið sem skiptir máli þegar til lengdar lætur fyrir neytandann en a.m.k. hefur það komið fram að eggjaverð sé hér hærra en er í nágrannalöndum okkar.