06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

108. mál, kreditkort

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Ég vil þakka hæstv. viðskrh. svör hans við þessari fsp., en jafnframt láta í ljós þá skoðun að fyllsta ástæða sé til þess að fyrir hendi séu í lögum ákvæði sem kveða á um annars vegar upplýsingaskyldu þeirra aðila, sem standa í þessum viðskiptum þeirra sem reka kreditkortin, og hins vegar ákvæði sem tryggi hagsmuni bæði þeirra sem bera kortin og þeirra verslunarfyrirtækja væntanlega fyrst og fremst sem notfæra sér viðskipti af þessu tagi. Þetta er lágmarksatriði að mínum dómi.

Eins og ég gat um áðan munu vera um 12 þús. kreditkort í notkun. Nú er kannske erfitt að ætlast á um hversu há fjárhæð sé notuð á hverju kreditkorti til jafnaðar, en ef það væru 10 þús. kr. á mánuði að jafnaði. þá eru þarna nm 120 millj., sem fljóta í gegnum þetta kerfi eins og það er núna, og er það þó nýfætt. Ef það væru 5 þús. kr. þá eru það 60 millj. Þarna eru sem sagt umtalsverðar fjárhæðir, kannske um 100 millj. Ég skal ekki segja um það. Um það eru engar upplýsingar að fá og það er áreiðanlega fyllsta ástæða til þess að upplýsingar um umsvif viðskiptanna liggi fyrir á hverjum tíma, og í annan stað að hagsmunir þeirra, sem nota þessi kort á hvorum endanum sem er, séu fyllilega tryggðir.

Ég vil beina því til hæstv. viðskrh. að hann taki þessi mál til alvarlegrar yfirvegunar og ekki skaðar að hann verði búinn að hugsa málið dálítið áður en bankamálanefnd skilar af sér.