06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

420. mál, efling kalrannsókna

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Góður maður sagði við mig að sérþekking á landbúnaðarmálum væri erfðasjúkdómur innan Framsfl., þetta væri hugsanlega spurning um neikvæð áhrif skyldleikaræktunar á stefnu þess flokks.

Ég kom reyndar upp af öðru tilefni. Í málflutningi hv. fyrirspyrjanda kom fram ein mjög augljós staðreynd, sem hefur öðru hvoru verið hér til umfjöllunar og verður hér til umfjöllunar bráðlega vegna málflutnings Alþfl.-manna. Það er spurningin um land í þjóðareign. Kalskemmdir tengjast þeirri spurningu beint. Það mátti heyra gjörla á málflutningi hv. fyrirspyrjanda, því að kalrannsóknir, eins og aðrar rannsóknir sem lúta að því að finna svör við spurningunni um nýtingu þeirra auðlinda sem landið er, benda náttúrlega með samhengi sínu við efnahag þessa lands á þá staðreynd að við getum ekki látið okkur það í léttu rúmi liggja hvernig fer með túnarækt hjá bændum eða annað slíkt sem að nýtingu ræktaðs lands lýtur. Þar af leiðandi tel ég að þarna hafi kannske óvart fundist málsvari þeirrar hugmyndar og nauðsynjar að menn skoði spurninguna um land í þjóðareign mjög rækilega þegar að henni kemur.