06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

420. mál, efling kalrannsókna

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Mér þykir sem ekki hafi verið í miklum mæli farið eftir þeirri þáltill. sem Árni Gunnarsson flutti á sínum tíma, miðað við þau svör sem við fáum frá hæstv. landbrh. Þó minnist ég þess, að þegar umr. fór fram um þessa þáltill. kom fram víðtækur stuðningur við málið. Maður veltir því fyrir sér til hvers sé að samþykkja þáltill. ef framkvæmdavaldið í landinu tekur ekki betur við sér en raun ber vitni af svörum ráðh. Mér finnst líka að framkvæmdavaldið hefði getað tekið mið af því, að það var eins og ég sagði áðan almannarómur í þinginu þegar Árni flutti þessa þáltill. að hér væri um verk að ræða sem þyrfti að vinna sérstaklega að. 1/4 starfs og 146 500 kr. eru hræðilega lágar tölur miðað við þau miklu verðmæti sem hér eru í húfi. Kalskemmdir hafa dunið yfir okkur nokkuð árvisst á undanförnum áratugum og valdið miklum búsifjum í öllum landshlutum, liggur mér við að segja.

Ég vil nú, um leið og ég þakka hv. þm. Birni Dagbjartssyni fyrir að ýta við þessu máli, skora á landbrh. að beita sér af meira afli í þessu máli og skora á framkvæmdavaldið allt að muna eftir því að þáltill. er áskorun um framkvæmd.