06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

116. mál, krabbameinslækningar

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég sé að hæstv. heilbr.- og trmrh. er ekki hér í salnum svo að ég sé ástæðu til að bíða með að hefja mál mitt. (Forseti: Ég hygg að það verði aðeins augnablik því að hæstv. ráðh. hafði sérstaklega óskað eftir að þetta mál yrði tekið nú á dagskrá. Takið eftir, það er 9. dagskrármálið. Ég geri ráð fyrir að hann sjái um að vera hér viðstaddur og hafa verið gerðar ráðstafanir til að svo verði.)

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 143 að beina fsp. til heilbrrh. um krabbameinslækningar, hver séu áform ráðh. um framkvæmdahraða við svonefnda K-byggingu Landspítalans. Eins og hv. þm. vita hófst undirbúningur K-byggingar Landspítalans árið 1979. Í þeirri byggingu er áætlað að koma upp aðstöðu fyrir krabbameinslækningar og auk þess röntgendeild, rannsóknarstofu og skurðstofu. Fjöldi skurðaðgerða á Landspítalanum er nú um 4 000 á ári og hefur fjölgað um 40% en aðstaða til skurðaðgerða hefur hins vegar lítið breyst síðustu tvo áratugi. Í grg. læknaráðs Landspítalans, sem þm. hafa fengið, er þó sérstaklega varað við afleiðingum þess fyrir krabbameinslækningar ef fer fram sem horfir að seinka verður öllum framkvæmdum við K-bygginguna, en útboðsgögn fyrir fyrsta hluta hennar, svokallaðan lagnagang, liggja nú fyrir.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1984 eru áætlaðar 2.3 millj. kr. til þessara framkvæmda en áætlað hafði verið að K-bygginguna væri hægt að taka í notkun í áföngum á árunum 1987–1991. Heildarkostnaður við bygginguna er rúmar 525 millj. kr. Til þess að halda áætluðum framkvæmdahraða hefði þurft a.m.k. 53 millj. kr. nú á fjárlögum í stað rúmlega 2 millj. sem ráð er fyrir gert. Er fyrirsjáanlegt, ef ekki á að veita meira fjármagni í bygginguna en nú er áætlað og gert hefur verið á undanförnum árum, að taka muni nokkuð marga áratugi að koma henni í notkun. Það er alveg ljóst að með því framlagi sem nú er áætlað munu framkvæmdir atveg stöðvast og útboð getur ekki farið fram eins og fyrirhugað var.

Í grg. læknaráðs er bent á að fyrirsjáanlegt sé að við óbreyttar aðstæður muni geislameðferð falla niður vegna úreltrar aðstöðu og senda verði krabbameinssjúklinga utan til lækninga. samkvæmt viðtölum mínum við þá sem gerst þekkja munum við geta staðið frammi fyrir þessu vandamáli innan þriggja ára verði ekkert að gert.

Þetta eru vissulega aðvaranir sem okkur hv. alþm. ber að taka alvarlega. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum orðin 15–20 árum á eftir okkar nágrannaþjóðum í tækjabúnaði og allri aðstöðu til krabbameinslækninga. Allar okkar nágrannaþjóðir hafa til að mynda fyrir löngu tekið í notkun svonefndan línuhraðal sem er lífsnauðsynlegt tæki við nútímageislalækningar. Í Kaupmannahöfn einni saman eru nú 7 slík tæki í notkun. Eins og fram kemur í grg. læknaráðs Landspítalans þarf línuhraðall mjög miklar geislavarnir. Ekkert húsnæði uppfyllir nú þær geislavarnakröfur sem þarf fyrir slík tæki. Línuhraðallinn er mun nákvæmari í geislalækningum en það kóbalttæki sem hér er í notkun og hefur auk þess mun minni aukaverkanir.

Í grein eftir Guðmund S. Jónsson í 4. tbl. Heilbrigðismála frá 1982, þar sem dregnir eru fram kostir línuhraðals fram yfir kóbalttækið, segir m.a. með leyfi forseta:

„Með svo orkumikilli geislun er unnt að koma hærri geislaskammti en ella djúpt í vef, en um leið að hlífa húðinni, þar sem geislunin fer inn. Skaðleg áhrif geislunar á húð eru enn minni hér en við kóbaltgeislun vegna þess að hámarksgeislaskammtur liggur dýpra. Í stuttu máli er auðveldara að koma háum geislaskammti í djúpstæð æxli með meiri hlífð fyrir heilbrigða vefi í umhverfinu en gerist með öðrum tækjum.“

Og síðar í grein sinni segir hann, með leyfi forseta: „Því er unnt að miða nákvæmar og hitta betur með línuhraðli en kóbalttæki. Auk þess verður geislaskammtur í heilbrigðum vef umtalsvert minni.“

Enn fremur kemur fram í umræddri grein Guðmundar 1982 að s.l. 5–7 ár hafi línuhraðall verið allsráðandi í geislameðferð víðast hvar í nágrannalöndum okkar og það sé ekki vansalaust fyrir Íslendinga að vera öllu lengur án slíks geislatækis, a.m.k. ekki ef þeir vilji telja sig veita krabbameinssjúklingum sambærilega meðferð við það sem gerist annars staðar. Talið er að af þeim sem þurfa á geislameðferð að halda vegna krabbameins þyrftu 2/3 hlutar á að halda þeirri geislameðferð sem fæst í línuhraðli, en geislameðferð kóballtækisins mundi henta um 1/3 hluta hópsins. Ljóst er að ef senda þarf sjúklinga í geislameðferð í mjög verulegum mæli á næstu árum mun það hafa mikinn kostnað í för með sér.

Af öllu því sem ég hef hér rakið er ljóst að grípa verður til skjótra aðgerða til að hraða framkvæmdum við K-byggingu og því ekki forsvaranlegt, þrátt fyrir efnahagslega erfiðleika sem nú eru í þjóðfélaginu, að draga svo úr framkvæmdum við bygginguna eins og nú er fyrirhugað. Ég hef því, herra forseti, leyft mér að beina eftirfarandi fsp. til hæstv. heilbrmrh.:

„1) Hvernig hyggst heilbrmrh. bregðast við eftirfarandi ummælum í grg. stjórnar læknaráðs Landspítalans í nóv. 1983 um K-byggingu?“

„Ef ekki verður leyst úr vanda deildarinnar er fyrirsjáanlegt að geislameðferð mun falla niður vegna úreltrar aðstöðu. Krabbameinssjúklingar, sem síðast liðin ár hafa langflestir notið geislameðferðar á þessari deild Landspítalans, yrðu þá tilneyddir til að leita lækningar erlendis.“

2) Hver eru áform heilbrmrh. um framkvæmdahraða við K-byggingu Landspítalans?“