06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

113. mál, Námsgagnastofnun

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti. Það er allt gott að segja um það að hæstv. menntmrh. hefur skilning á fjárþörf stofnunarinnar og sér þá þörf sem þar er um að ræða, en ég hjó eftir því og varð fremur illt við þegar ég heyrði að það væri árviss atburður hér og þáttur í störfum Alþingis að spurt væri um þetta. Er auðvitað um að ræða forkastanleg vinnubrögð og vítavert kæruleysi stjórnvalda undanfarna áratugi ef þetta er rétt, því að hlutverk þessarar stofnunar, eins og fram hefur komið og nafnið bendir til, er að sjá skólunum fyrir námsefni og námsgögnum.

Svo sem fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarnar vikur í umræðum um kennslu í Íslandssögu hefur ekki verið unnt að framfylgja þeirri kennsluáætlun sem átt hefur að framfylgja vegna skorts á kennslugögnum í eldri árgöngum grunnskólabekkjanna. Það hefur einungis legið fyrir námsefni fyrir yngstu bekki grunnskólans í þeirri kennslugrein. Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum og gerir kennurum mjög erfitt um vik. Þeir þurfa að nota mikið af undirbúningstíma sínum til þess jafnvel að laga námsefni til næsta dags, þar sem ekki er til neitt slíkt. Þá vil ég einnig benda á þann þátt, sem lítið hefur verið rætt um í þessu sambandi, og það er þegar börn flytjast milli landshluta og/eða skóla, hversu erfitt er þá að aðlagast nýjum kennsluaðferðum þegar ekki hefur verið til kennsluefni í greininni og hefur verið reynt að laga það á staðnum vegna skorts á umræddum gögnum.

Það er alveg einsýnt og þarf ekkert að tíunda mikilvægi þess að fyrir hendi séu næg, nútímaleg og góð kennslugögn til að mæta breyttum kennsluháttum og þeim kröfum sem gerðar eru til kennara um að sinna fræðslu. Það er alveg ótrúlegt að kennurum skuli nánast vera ætlað að útbúa kennslugögn og það jafnvel í eigin frítíma, en í mörgum tilfellum er svo í raun. Það getur haft atdrifaríkar afleiðingar. Ég vil benda á að ef Námsgagnastofnun verður ekki kleift að sinna lögboðnu hlutverki sínu erum við í vanda stödd í framtíðinni.