06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

113. mál, Námsgagnastofnun

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég beindi hér ákveðinni spurningu til hæstv. menntmrh. sem ég fékk ekki svar við. Ég veit ekki hvort það stafar af því að ráðh. hafði e.t.v. ekki kynnt sér það álit sem fram kemur hjá þessum hóp, sem skipaður var af fyrrv. menntmrh., um mótun stefnu um útgáfu sérkennslugagna. Ef hæstv. menntmrh. er ekki tilbúinn til að svara þessari spurningu hér og gerir það ekki við þessa umr. mun ég vitaskuld leggja fsp. fram hér með formlegum hætti til þess að þingheimur fái upplýsingar um afstöðu hæstv. menntmrh. til þeirrar stefnu sem mörkuð er í því áliti sem fram kemur hjá þessum samstarfshóp, því að það er auðvitað brýnt ekki síður en með útgáfu annarra námsgagna, að mótuð sé stefna í því máli. Því mun ég leggja þessa fsp. fram með formlegum hætti fáist ekki svör nú við þessa umr.