06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 2. þm. Reykn. er já og aðaláherslan liggur á því að vinna að því að fræðslu um þessi efni verði sérstakur gaumur gefinn í kennaramenntuninni. Í öðru lagi er einnig unnið mikilsvert starf. að gerð námsefnis um þetta atriði og því hyggst ráðuneytið láta halda áfram ef fjárveiting fæst til þess. Hér er fjallað um málefni sem unnið er að í samstarfi margra ráðuneyta og innan skamms mun liggja fyrir álit nefndar, sem var stjórnskipuð á s.l. ári til þess að marka stefnu í áfengis- og vímuefnamálum. Það má gera ráð fyrir að tillögur nefndarinnar taki bæði til aukinnar fræðslu í skólum landsins um fíkniefni og skaðsemi þeirra og upplýsingaherferðar í fjölmiðlum um skaðsemi þessara efna. Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri í heilbrrn. er formaður þessarar nefndar.

Á yfirstandandi ári hefur auk námsstjórans í kristnum fræðum og bindindisfræðum verið maður ráðinn í hálft starf við að semja og undirbúa námsefni um þessa fræðslu og setja henni markmið. Þetta starf er byggt á þeim viðhorfum sem talin hafa verið koma að mestum notum m.a. á Bretlandi. En þar hafa menn á vegum menntmrn. kynnt sér þessi efni sérstaklega. Einnig hefur verið unnið að öflun annarra náms- og kennslugagna í þessu sambandi, sem að haldi geta komið og haft varnaðaráhrif. Áfengisvarnaráð lét fyrir nokkrum árum útbúa verkefni um áfengi og áhrif þess og fór þess á leit við Námsgagnastofnun að hún gæfi þessi verkefni út, en þeirri beiðni var hafnað sökum fjárskorts. Það er eins og ég sé nú að ræða um fyrra dagskrárefni, þ.e. fjárhag Námsgagnastofnunar, en svo er ekki. Áfengisvarnaráð gaf þetta efni út í fjölriti 1981. Vert er að leggja á það áherslu að í flestum tilvikum tengist neysla áfengis og annarra vímuefna og þeir, sem hafa átt í vandamálum vegna annarra vímuefna, hafa oft áður átt í vandamálum vegna áfengisneyslu. Þannig er rétt að hafa í huga að þessi mál er örðugt að einangra hvort frá öðru.

Hópur með fagþekkingu á málum, sem þessum efnum tengjast, mun vinna á vegum menntmrn. að leiðum til að koma fræðslu á framfæri með þeim hætti sem áhrifaríkastur verður talinn og þar á meðal að gefa ábendingar um námsefni. Í þessum hópi verða fulltrúar sem sérstaka þekkingu hafa á kennslu, lögum, læknisfræði, hjúkrun og barnaverndarmálum og hafa þeir einnig samráð við aðra aðila þar sem fagþekking kemur að notum. Það þarf mikla nákvæmni til að ákveða hver á að fræða um þessi efni, hvar, hvernig og hvenær þessu fræðsluefni verði komið til skila með mestum árangri til varnaðar og bóta. Það er stefna menntmrn. að sem nánast samstarf beri að hafa í þessu efni við önnur ráðuneyti og þá einkanlega heilbrrn. sem samkvæmt eðli stofnana sinna hefur visst fræðsluhlutverk með höndum.

Á vegum menntmrn. vinnur æskulýðsfulltrúi einnig mikilsvert starf að þessum málum og hann er fulltrúi rn. í samstarfsnefndinni sem getið var hér í upphafi. Rn. hefur fengið dr. Þorkel Jóhannesson prófessor til þess að semja fræðilegt rit um ávana- og fíkniefni. Unnið er að því ásamt öðru að gera tillögur um hvernig heppilegast sé að nýta það grundvallarefni, sem þar liggur fyrir, við fræðsluna í skólunum og á hvaða stigum skólanna. Þetta efni á vafalaust eftir að hafa mikla þýðingu.

Það er stefna menntmrn. í þessum málum að vinna beri að því að flétta fræðslu um hættu af vímugjöfum inn í aðrar greinar. Það er talið hafa miklu meiri áhrif heldur en sérstakir fyrirlestrar eða afmarkaðar kennslustundir um vímuefni og áfengi. Margra atriða er að gæta í þessu sambandi til þess að fræðslan nái markmiði sínu. Það er ekki aðeins magn fræðsluefnisins, heldur með hvaða hætti, hvenær og hvar því er komið á framfæri. Það er enginn vafi á því að veikasti hlekkurinn í skólakerfinu að þessu leyti er í framhaldsskólunum. Ekki er hægt að segja að það sé ákveðið og virkt skipulag á fræðslu um þessi efni á því stigi því að það sem unnið hefur verið að í námsstjórninni hefur fyrst og fremst verið miðað við grunnskóla. Mikið og vandasamt verkefni er fram undan þar sem er varnaðarfræðsla í framhaldsskólum gegn fíkniefnum. Að því er unnið nú um þessar mundir og verður unnið að tillögugerð um það efni nú á næstunni.

Fræðsla í útvarp og sjónvarpi sérstaklega og í kvikmyndum hefur geysimikil áhrif og ég tek undir það sem hv. flm. fsp. sagði um mynd sem nýlega var sýnd í sjónvarpinu um þessi efni. Hún var mjög öflug og sýndi mönnum fram á hve nauðsynlegt er að varast þann vágest sem hér er um fjallað. Ég vil vekja athygli á því að í fræðslumyndasafni ríkisins er allmikið til af kvikmyndum um þessi efni. Þær eru þar til reiðu, bæði fyrir útvarp og aðra sem þær vilja nýta. Verulegt starf hefur verið unnið í þessum efnum á vegum útvarpsins í einstökum þáttum, en það er alveg ljóst, að enn betra og faglegra skiputag er nauðsynlegt til að sú fræðsla komi að þeim notum sem ætlað er.