06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hér er um þarfa og réttmæta fsp. að ræða og þyrfti auðvitað miklu betri umfjöllun en hér gefst tækifæri til. En önnur fsp. er nú hér á dagskrá og hv. þm. Jóhanna sigurðardóttir ásamt öðrum þm. hefur flutt sérstaka þál. varðandi þessi mál og þá gefst væntanlega tækifæri til þess að ræða málið frekar í heild.

Ég tek undir það að vissulega getur fræðsla haft mikil áhrif, hún er lögbundin eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á og öfgataus áróður í þessum efnum gæti haft áhrif á það sem ég tel mestu skipta í þessu efni, þ.e. almenningsálitið og þá sérstaklega álit ungs fólks og skoðanir þess á þessum málum. Þetta nefnilega snýst um hvaða almenningsálit tekst að skapa og hvaða vörnum sem að gagni mættu koma er unnt að koma við, í þeirri tvísýnu baráttu sem framundan er og hefði átt að hefja fyrr og rækilegar en gert hefur verið. Hér er margt sem veldur, rótleysið í þjóðfélaginu, tíðarandinn, hinar öru breytingar og kannske ekki hvað síst tvískinnungur í afstöðu manna, m.a. til vímuefna almennt, sem veldur því að á ógæfuhliðina sígur. Ég hlýt að benda á, í sambandi við það sem hv. síðasti ræðumaður kom hér inn á, þann tvískinnung sem felst í máli nr. 18 á dagskrá seinni fundar í Sþ. sem ber það fagra heiti, áfengt öl. Sá tvískinnungur er nefnilega kannske hættulegri en flest annað.

Menn skyldu hafa í huga að hér þarf fjármagn til, svo sem hér hefur verið bent rækilega á. Það þarf fjármagn á bak við þessa dreifingu, þessa sölumennsku. Auðvaldið er þar að baki og raunar í áfenginu líka og ekki síður. Og af því að ég heyrði að hv. þm. Guðrún Helgadóttir var að biðja um orðið þá mætti hún gjarnan huga að bjórauðvaldinu alveg sérstaklega í seinni ræðu sinni. Þar er um öfluga og sterka fjármagnsaðila að ræða sem vissulega kunna sitt fag.

En ég undirstrika að vandinn er svo ógnvekjandi í þessum málum varðandi vímuefnaneysluna almennt að þar verða allir að taka á. Ég tek undir með hæstv. ráðh.: Menn verða að horfast í augu við bölið í heild í þessum efnum en hætta hjali um einstaka þætti og gleyma hinum smávægilegu sem jafnvel auka á vandann.