06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir nefndi það að ekki dygði að hafa góðan vilja í þessu efni, það yrði að liggja fyrir að það ætti að halda því starfi áfram sem unnið hefur verið að í námsefnisgerð og söfnun gagna til að standa að fræðslu í skólum um þetta efni. Hv. þm. hefur einhvern tíma rankað við sér svona undir lok ræðu minnar því að ég sagði einmitt strax í upphafi að það væri ætlunin að halda þessu starfi áfram ef fjárveiting til þess fengist. Þannig að það liggur alveg ljóst fyrir. Ég fer ekki í grafgötur um það frekar en aðrir að til þess þarf fé. Hvort sem þeir peningar koma úr ríkissjóði eða peningar til þeirra hluta, sem gera skal, koma úr bönkum þá verður lítið úr framgangi þessara mála nema einhverjir peningar séu til þess að borga þau. Að því er börnin varðar er það mikið rétt sem þær góðu konur, hv. þm., hafa hér sagt að framtíð landsins liggi í börnum en ekki í bönkum. Það er nú ágætt að búa svo um hnútana að fólk leggi fé í banka til þess að hægt sé að búa vel að börnum. Málin eru stundum einfölduð nokkuð mikið í máli manna um þessi efni eins og fleiri.

En ég vil sérstaklega taka undir það sem hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, 11. þm. Reykv., sagði þegar hún nefndi nauðsyn þess að veita foreldrum upplýsingar um hvernig beri að bregðast við slíkum vanda. Þetta tel ég skipta mjög miklu máli. Á þessu sviði er m.a. útvarp og sjónvarp til mikillar hjálpar og svo að sjálfsögðu sú fræðsla sem fer fram á vegum heilbrrn. líka. Þetta atriði vil ég sérstaklega taka undir.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir gat lagafrv., sem samþykkt var hér í fyrra, um breytingu á grunnskólalögum þar sem lögfest er að taka beri þessi efni inn í almenna námsskrá. En á þinginu í fyrra var einnig lögð fram þáltill. sem hv. þm. þáv. Sigurlaug Bjarnadóttir var 1. flm. að og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir var meðflm. að og fleiri ágætir þm. Þessi þáttill. fól í sér efni sem talið var nauðsynlegt að kæmist í framkvæmd í tilefni af þeim lögum sem hv. Alþingi samþykkti í fyrra en þingið sá samt ekki ástæðu til þess að afgreiða þessa þáttill.

Í þáltill. var vikið að tveimur aðalatriðum, annars vegar að menntun kennara og hins vegar að gerð námsefnis. Og það er að þessum tveimur atriðum sem aðalvinna rn. menntamála beinist núna um þessar mundir.