06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir ljós og glögg svör og fróðlegar upplýsingar sem komu fram í máli hennar. Það má segja að sumt var ánægjulegt en annað miður ánægjulegt því að það var hér, eins og ýmsir hafa nefnt, greinilegt að fjárskorturinn hamlar framkvæmdum og hefur hamtað framkvæmdum. Að vísu má segja að það er maður í hálfu starfi við að undirbúa námsefni fyrir grunnskóla. Það er reyndar helmingi meira en maðurinn sem stundar kalrannsóknir; það var ekki nema 1/4 af honum sem því hlutverki sinnir. En æði er nú smátt skammtað hér.

Athyglisvert var að lítil sem engin fræðsla fer fram í þessum efnum í framhaldsskólunum þó svo að verið sé nú að vinna að þessu efni í grunnskólum. Og það er náttúrlega alveg greinilegt að þar þarf að gera verulegt átak ef menn vilja þá vinna að þessum efnum. Ég er nefnilega ekki viss um það að það sé almennur skilningur og áhugi í þjóðfélaginu og hugsanlega ekki hér í þingsölum á því hvað raunverulega alvarlegt mál er hér á ferðum.

Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur um að forgangsröðun fjármagns er kolvitlaus á mjög mörgum sviðum sem til umr. hafa komið hér í þingsölum síðustu vikurnar. Þetta er eitt af þeim sviðum. En ef við lítum betur á málið þá er ég ekki viss um það að fjármagnið þurfi raunverulega að stoppa framgang í þessum efnum.

Menntmrh. hæstv. minntist alveg réttilega á það að þó að meginstarf rn. beindist að gerð námsefna í grunnskólum og á vonandi í framhaldsskólum þá væri hljóðvarp og sjónvarp einnig mikilvægt í þessum efnum. Ég vil undirstrika það og þau ummæli — og ég vék að því í upphafi hér þegar ég bar fram þessa fsp. Þar er vettvangur sem nær ekki aðeins til ungs fólks heldur líka til foreldranna og allrar þjóðarinnar. Og það sem meira er þar þarf ekki svo ýkja mikið fjármagn til þess að koma fræðslunni á framfæri. Það eru til sjónvarpsmyndir og sjónvarpsfræðsluefni í nágrannalöndunum sem mundi vel hæfa hér í okkar eigin sjónvarpi og það má segja það sama um hljóðvarpsefni. Þess vegna held ég að það sé vissulega tímabært og það er sáralítill kostnaður við að nota tækifærin í þessum áhrifamiklu fjölmiðlum. Rás 2 hefur verið einmitt nefnd hér í þessu sambandi, sem er ágæt hugmynd, til þess að koma því fræðsluefni á framfæri sem svo mjög skortir að mínu mati.