06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

402. mál, tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Hér er borin fram fsp. sem mér finnst sjálfsagt að svara. Svarið er e.t.v. ekki það sem fyrirspyrjandi hefur átt von á. Hins vegar vil ég benda á að hann á sæti í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og hefur haft tækifæri til að fylgjast með þeim málum þar.

Svar mitt er einfaldlega á þá leið, að það hefur engin ákvörðun verið tekin enn um hvernig verður staðið að þessu máli. Hins vegar mun ég strax upp úr áramótum taka upp formlegar viðræður við Samband Ísl. sveitarfélaga um hvernig unnið verður úr hugmyndum sem uppi eru í sambandi við framkvæmd verkaskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga. Um það verður hafin umræða strax upp úr áramótum.

Við undirbúning fjárlaga á s.l. hausti voru ýmsar hugmyndir á lofti og ég sem félmrh. átti beinar viðræður við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um þessi mál. Niðurstaðan varð sú, að öllum hugmyndum um verkefnaflutning við fjárlagagerð fyrir árið 1984 var hafnað og eru þær ekki inni í myndinni.

Ég vil gefa þá yfirlýsingu hér, að að sjálfsögðu verður engin ákvörðun um slíkar breytingar tekin nema í fullu samráði við sveitarfélögin í landinu. Því má treysta. Og ég vil benda á að ég stefni að því, og það er samhljóða þeim skoðunum sem hafa komið frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og sveitarfélögunum almennt, að ef um verður að ræða verulegar breytingar, sem vel getur komið til greina, verða þær ákveðnar það tímalega að búið verður að ná samkomulagi um þau mál áður en undirbúningi fjárlaga fyrir árið 1985 verður lokið, þannig að samhliða fjárlagaflutningi fyrir árið 1985 verði komnar fram ákveðnar till. um slíkar breytingar og þá breytingar á tekjustofnum ríkis og sveitarfélaga. Ég vil einnig undirstrika að þessi mál munu örugglega koma fyrir sjónir alþm. og verður fjallað um þau hér í sölum Alþingis þegar að því kemur.

Hv. flm. minntist hér á framkvæmd breytinga sem gerðar voru 1975. Þau lög höfðu vissa yfirskrift. Það var ekki undirbúningur að þeim tilfærslum, en nú eru breytingar ráðgerðar með viðræðum. Þetta var tilflutningur verkefna sem þáv. ríkisstj. ákvað og Alþingi staðfesti. Það má um það deila að það hafi verið rétt mat. En ég ætla ekki að leiða umr. að því nú.

Hv. þm. minntist á nefnd sem fyrrv. félmrh. skipaði að ákvörðun fyrrv. ríkisstj. Um það get ég aðeins sagt að stuttu eftir að ég tók við embætti á s.l. vori skilaði sú nefnd af sér og óskaði eftir að vera leyst frá störfum. Auðvitað varð ég við þeirri ósk, enda var verkefni nefndarinnar engan veginn á því stigi að það væri hægt að nota það til ákvarðanatöku. Þar var mikið óunnið. Við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga er fullt samstarf um að strax í upphafi næsta árs verði teknar upp viðræður milli sveitarfélaganna og ríkisins um hvernig að þessum málum verður staðið í næstu framtíð.