06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka það sem fram kom í síðari ræðu hæstv. dómsmrh. Mér fannst koma nokkuð skýrt fram í ræðu hans nú hver viðhorf hans eru í þessu máli og hvað það er sem hann vill leggja áherslu á til að koma í veg fyrir innflutning og dreifingu fíkniefna. Ég fæ ekki betur séð en að skoðanir og viðhorf ráðh. í þessu máli falli mjög vel saman við þá till. sem hér liggur fyrir Alþingi og 12 þm. úr öllum flokkum hafa flutt. Ég vil því leggja áherslu á það við hæstv. forseta þessarar deildar að þessi þáltill. verði tekin sem fyrst fyrir til að þm. geti sem fyrst tekið afstöðu til þessarar till. vegna þess að ég hef trú á að þar sem skoðanir ráðh. virðast falla saman við þessar tillögur hljóti það að vera mikill stuðningur við fyrirætlanir ráðh., að hafa að baki samþykkt og stuðning Alþingis í þessu máli.