19.10.1983
Neðri deild: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

11. mál, launamál

Guðmundur Einarsson:

Háttvirtur forseti. Nú hefur hæstv. forsrh. flutt okkur boðskap sinn. Þar kemur fram að það horfir ekki beinlínis björgulega um þjóðarbúskapinn og reyndar töldu flestir sig vita það. Það er raunar hörmulegt að íslenska þjóðin skuli lenda í því að meðtaka slíkan boðskap árið 1983, þegar nýliðin eru mestu fengsældarár okkar. Árið 1981 var líklega mesta aflaár Íslandssögunnar og síðasta áratug hafa öll aflamet verið slegin. Íslenska þjóðin er ein af 10–15 ríkustu þjóðum heims, ef dæmt væri eftir þjóðartekjum á mann og öðrum viðteknum mælikvörðum á almenna hagsæld.

En hvað hefur gerst? Hví eru nú þessi harmakvein og kreppugrátur? Hvers vegna er íslenska þjóðin nú beðin að herða sultarólarnar og kaupa sér litla sparneytna bíla? Hvar er auðlegð síðasta áratugs? Svarið er ekki að finna í lífsmáta íslenskrar alþýðu. Orsökin er ekki bílífi íslenskra alþýðuheimila þótt ríkisstjórnir, sama hvaða flokkar eiga í hlut, láti það gjarnan í veðri vaka. Hver kannast ekki við lýsingarnar á utanlandsferðunum og raftækjakaupunum? Þessi söngur um bílífi þjónar því hlutverki að draga athygli fólksins í landinu frá hinni raunverulegu sóun. Það eru m.a. skipakaupin, virkjanaæðið og járnblendið. Á þessum sviðum skipta glötuðu milljónirnar hundruðum. Og þótt allir Íslendingar væru saman komnir í allsherjar ölvímu á sólarströnd og keyptu raftæki hver um annan þveran, þá mundu þeir aldrei eyða öllu því fé sem alþingismennirnir þeirra sólunda í vanhugsaðar fjárfestingar. Hinn bitri sannleikur er sá, að innistæðum okkar hefur verið eytt og því stöndum við hér skuldunum vafin eins og maðurinn með hattinn forðum.

Og nú er komið að einni ríkisstjórninni enn að glíma við drauginn. Í þetta sinn eru það sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Hvernig skyldi nú ganga? Byrjunarstefin í sinfóníunni eru kunnugleg. Þjóðin lifði um efni fram. Mikil lifandis skelfing er þessi vesalings þjóð búin að lifa um efni fram. Aldrei hefur nokkur stjórn getað látið það hjá líða að minna hana á þessi góðu lífskjör, og nú er svo komið að menn eru að drepast úr samviskubiti ef þeir eiga til hnífs og skeiðar.

Aðferðirnar sem þessi stjórn notar eru raunar nýstárlegar að sumu leyti. Okkur er sagt að nauðsynlegt sé að ná verðbólgunni niður. Gott og vel. Það er rétt. Síðan er okkur sagt að gera eigi breytingar á efnahagskerfinu sem leiði til varanlegs bata á lífskjörum. Gott og vel.

Það er líka rétt. En hvernig á að gera þetta? Þá syrtir í álinn. Í stað þess að leita sátta og samstarfs, stjórn með þingi, stétt með stétt, eru þm. sendir heim, launþegar rændir lýðréttindum sínum og svo er kaupmáttur launa lækkaður svo mikið að það verður fært á spjöld sögunnar. Til að kóróna svo dólgsháttinn eru mönnum boðnar smánarlegar uppbætur með skattabreytingum og almannatryggingum. En fólkið í landinu hefur tekið þessi ósköp á sig. Það hefur fært þessar gífurlegu fórnir því það vill af lífi og sál lækka verðbólgu og það vil stöðva þessa dauðans óvissu.

Hvað lagði BJ til málanna í vor þegar þessi ósköp litu dagsins ljós? Við sögðum að æskilegt væri að gildandi kjarasamningar væru virtir að fullu hinn 1. júní sem og á öðrum tíma, nema allir aðilar samninganna væru sáttir við hugsanlegar breytingar. Það var forsenda fyrir gagnkvæmu trausti og ábyrgð samningsaðila, sérstaklega á vinnumarkaði. Til greina kom að okkar mati frestun á greiðslu verðbóta 1. júní til að gefa rýmri tíma til sameiginlegrar ákvörðunar. Við lögðum til að strax yrði sett á fót samráðsstofnun þar sem aðilar vinnumarkaðarins ynnu saman úr öllum gögnum um þróun efnahags- og kjaramála og ryddu braut fyrir framkvæmd frjálsra kjarasamninga frá og með haustinu, sem tækju mið af afkomu þjóðarbúsins og atvinnustefnu stjórnvalda. Samráðsstofnun skyldi fjalla um nýjar leiðir í atvinnu- og efnahagsmálum og vera ríkisstj. til ráðuneytis um stefnumörkun á þessum sviðum. — Í þessu sambandi er athyglisvert að benda nú á tilraunir VSÍ og ASÍ til sambærilegra vinnubragða.

Við héldum því fram að þegar kjarasamningar ASÍ og VSÍ rynnu út skyldu lagaákvæði sem þeim tengdust, t.d. um vísitölubindingu launa, numin úr gildi, enda yrðu samningar frjálsir og á ábyrgð samningsaðila. Við sögðum líka að samningsaðilar gætu að sjálfsögðu samið um eitthvert form vísitölubindingar í frjálsum samningum ef þeir svo kysu, en ríkisstj. legði áherslu á að nýjar leiðir yrðu fundnar til að tryggja kaupmátt til lengri tíma. Við sögðum líka að í stað fastrar vísitölubindingar gætu t.d. komið endurskoðunarákvæði til skemmri tíma og þá yrði unnið að endurskoðun og frekari stefnumörkun á vettvangi framangreindrar samráðsstofnunar. Hins vegar sögðum við, að næðust ekki samningar milli aðila vinnumarkaðarins þannig að neyðarástand skapaðist áskildi ríkisstj. sér rétt til að höggva á hnútinn, t.d. með lagasetningu sem tryggði láglaunafólki fullar verðbætur á laun, en föst krónutala kæmi á hærri laun. Slík lagasetning mundi einungis eiga sér stað á tímabilinu september til áramóta.

Við fjölluðum líka um samninga á vinnustöðum. Við lögðum til að heimilað yrði að starfsmannafélög gerðu viðbótarsamning við sinn vinnuveitanda um kaup og kjör á vinnustað innan ákveðins tíma frá gerð heildarsamnings hagsmunasamtakanna. Við lögðum til að á meðan kerfisbreytingin í efnahagsmálum væri að ganga yfir yrði beitt ströngu aðhaldi í verðlagsmálum, þannig að kostnaðarhækkunum yrði ekki veitt út í verðlagið. Að öðru leyti yrði dregið úr opinberum afskiptum af verðmyndun þar sem samkeppni yrði við komið.

Um fiskverð og sjávarútveg sögðum við: Verðlagsráð sjávarútvegsins verði endurskipulagt þannig að samningsaðilar um fiskverð beri meiri ábyrgð á verðákvörðunum sínum. Til að stuðla að þessu og draga úr ríkisforsjá og þörf á lækkun gengis yrði hlutverki oddamanns breytt og hann hefði ekki lengur atkvæðisrétt við fiskverðsákvörðun. Við lögðum líka mikla áherslu á að samhliða þessu yrði jöfnunarsjóðakerfi sjávarútvegsins endurskipulagt, þannig að það starfaði einungis að jöfnuði sem rekja mætti til aflabragða og erlendra markaða.

Þessar tillögur BJ höfðu að leiðarljósi þessar staðreyndir:

Í fyrsta lagi, að þegar ná skal árangri eru samstarf og samráð það eina sem tryggt getur sigur. Með einræði og yfirgangi geta menn unnið sigra í einstaka orrustum, en stríðið vinnst aldrei nema með samvinnu. Þetta vissu samvinnumennirnir gömlu og þetta vissu atvinnurekendur og verkalýður í löndunum í kringum okkur þar sem framfarir hafa orðið einna mestar í lífskjörum-þá á ég við Norðurlönd og Þýskaland — enda er það svo í þessum þjóðfélögum að þar er samningsréttur álitinn næsta helgur.

Önnur staðreynd er sú, að þeir samningar sem nást með þessum rétti verða að vera á ábyrgð samningsaðila. Í kjarasamningum hlýtur að gilda sama grundvallarregla og í öðrum samningum milli manna, áð einungis á að semja um þau verðmæti sem menn hafa á hendi eða telja sig geta með öruggum hætti haft til umráða á samningstímabilinu. Vegna þessa er rétt að ríkisvaldið dragi sig út úr því hlutverki, sem það hefur undanfarið leikið í samningagerð hér á landi, sem er að lofa gengisfellingum eða öðrum millifærslum til að fá óþekktarangana til að skrifa undir.

Þessi tvö atriði, þ.e. um samráð og ábyrgð samningsaðila, eru lykilatriði í tillögugerð BJ.

Ég rengi hæstv. forsrh. ekki um að erfiðleikar hafi blasað við hæstv. ríkisstj. í maí, jafnvel þó ráðh. hafi ekki séð strax hversu alvarlegt ástandið var, að eigin sögn. Ég mótmæli hins vegar því, að samningsaðilar séu fjötraðir. Við verðum að taka upp lýðræðislegri vinnubrögð og tímabil frjálsra og ábyrgra samninga verður að renna upp nú þegar.

Skipting þjóðartekna er eitt af viðkvæmustu verkefnum allra þjóðfélaga. Deilur um lífskjör og tekjuskiptingu setja sífellt mark sitt á samskipti hagsmunahópa og á starfsemi ríkisstjórna. Þó er harkan í slíkum deilum mismikil eftir þjóðfélögum. Í sumum löndum hefur ríkt langvarandi stöðugleiki og friður á vinnumarkaði. Eitt besta dæmi um slíkt er að finna í Skandinavíu, sérstaklega í Noregi og Svíþjóð. Þar hafa launþegar, vinnuveitendur og ríkisstjórnir á athyglisverðan hátt tekið höndum saman um mótun þjóðfélagsins, þróun framleiðslunnar og lífskjaranna. Þessi samráð hafa skilað umtalsverðum árangri á fjölmörgum sviðum.

En ekki njóta allir dásemda friðarins og framfaranna á þessum sviðum. Pólland er líklega besta dæmið frá seinni tíð um nálægt þjóðfélag sem er nánast orðið óvirkt af lífskjara- og hugmyndadeilum. Bretland hefur einnig lengi þjáðst af umfangsmiklum kjaraátökum. Þar í landi kenna margir tíðum verkföllum um slaka frammistöðu Breta á afþjóðamarkaði og fremur lök lífskjör almennings. Mörg fleiri dæmi um slíka upplausn og átök má finna utan hins vestræna heims.

Flestum þykir það líklega sjálfsögð rekstrarhagfræði að ekki sé hægt að eyða meira en aflað er til hvers heimilis og þar með til þjóðarbúsins alls. Að sama skapi eru menn oft reiðubúnir að samþykkja að kjaraskerðing geti verið eðlileg við vissar aðstæður. En í ljósi hinna miklu sviptinga, sem hafa orðið í kjaraþróun hér á landi, og harðra átaka á vinnumarkaði og í stjórnmálum er eðlilegt að spurt sé hvort skerðing á kjörum launþega hafi verið óeðlilega mikil, hvort ríkisstj. hafi beitt kjararáninu óhóflega.

Það er fróðlegt að skoða nokkrar skýringar á því hvers vegna kauprán hafi verið svo afgerandi aðgerð í kjaramálum á Íslandi og hvers vegna lífskjör hafi batnað hægar hér en t.d. í Skandinavíu.

Fyrsta skýringin er áföll í þjóðarbúskapnum. Ein helsta réttlæting kaupskerðingar er sú að þjóðartekjur fari minnkandi eða standi í stað. Oftast hafa slík áföll verið undirrótin að stórtækum efnahagsráðstöfunum og kjaraskerðingum af hálfu ríkisvaldsins. Svo virðist þó sem laun hafi fylgt vexti þjóðarteknanna verr hér á landi en í nágrannalöndunum, og er því þessi fyrsta skýring eða réttlæting á kaupráni alls ekki tæmandi, þó hún gæti átt við að hluta.

Önnur skýringin á kaupráni er rekstrar- og skipulagserfiðleikar í sjávarútvegi. Skammtímakrepputal hérna tengist oftar sveiflum sem verða á afkomunni í sjávarútvegi, en þær virðast stundum vera álíka reglubundnar og gangur himintunglanna. Í málflutningi viðkomandi hagsmunaaðila er gjarnan látið að því liggja að gengisfellingar- og kjaraskerðingarúrræðin séu einu hugsanlegu viðbrögðin. Þannig eru skammtímaafkomusveiflur í einni atvinnugrein látnar réttlæta kjaraskerðingar hjá öllum launþegum. Svo vel hefur tekist að halda niðri almennum launum á þessari forsendu að atvinnurekendur í verslun, þjónustu, almennum iðnaði og byggingariðnaði hafa sjálfviljugir tekið upp nokkrar yfirborganir umfram grunntaxta.

Að sjálfsögðu gæti þessum málum verið öðruvísi háttað. Vafamál er t.d. hvort atvinnurekendur í sjávarútvegi hafi verið beittir nægilegu aðhaldi af hálfu ríkisvaldsins. Þeir hafa t.d. lítið lagt af mörkum sjálfir til sveiflujöfnunar í gegnum Jöfnunarsjóð sjávarútvegsins með því að leggja til hliðar af hagnaði góðu áranna til að nota á þeim mögru. Einnig hafa þeir fengið að ramba út í gegndarlausa offjárfestingu með dyggri fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera. En hinn mikli fjárhagskostnaður sem af því hlýst er einmitt einn af þeim þáttum sem gera afkomuna og rekstrarfjárstöðuna erfiða sum árin. Loks eru efnahags- og kjaraskerðingarúrræði ríkisvaldsins miðuð við meðaltalsafkomu í sjávarútvegi eða jafnvel við afkomu verst settu eða verst reknu fyrirtækjanna. Þetta getur þýtt að þeim betur stæðu sé fært gull á silfurbakka með aðgerðum ríkisstjórna.

Þriðja skýringin á því hversu gjarnt mönnum er að nota kauprán í íslenskum efnahagsaðgerðum er hreinlega úrræðaleysi stjórnvalda. Það var einu sinni sagt að ekkert virtist vera til nema gömlu íhaldsúrræðin. Einhæfni í úrræðum og dugleysi gagnvart vanda efnahagslífsins ýtir vissulega undir þá trú að stjórnvöld ættu að geta fundið aðrar leiðir og varið kjörin betur en verið hefur.

Fjórða skýringin á notkun kjararáns sem efnahagsaðgerðar er að það virkar hraðar. Þetta atriði má líklega til sanns vegar færa, en er þó naumast afsökun á því að skipulagsbreytingar sé leitað. Auk þess fullnægir það varla réttlætiskennd landsmanna að skammtímaefnahagsvandi sé leystur á kostnað launamanna.

Með hliðsjón af framangreindu eru það mjög ákveðin tilmæli BJ að Alþingi geri nú þær ráðstafanir sem geri aðilum vinnumarkaðarins kleift að leita samráðs og samninga um lausn efnahagsmála. Það eru einnig tilmæli okkar að Alþingi og stjórnmálaflokkar sýni nú loks þann manndóm og kjark að styðja þær umbætur á stjórn efnahagsmála sem gætu losað fólkið í landinu undan þeirri áþján að á reglubundinn hátt sé vegið að lífsafkomu þeirra með kaupránum. Þær óskaplegu sveiflur sem hafa orðið á lífskjörum hér s.l. tuttugu ár vegna kauprána eru ósamrýmanlegar þeim kröfum sem nútímafólk gerir til öryggis og afkomu fyrir sig og börn sín. Látum tímabil samráðs renna upp í stað áratuga átaka og sviptinga í kjaramálum.