06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

74. mál, fordæming á innrásinni í Grenada

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það var þann 27. október s.l., að hér fór fram í Sþ. umr. utan dagskrár af því tilefni, að Bandaríkin ásamt sjö smáríkjum í Karíbahafi höfðu þá fyrir tveimur dögum ráðist inn í eyríkið Grenada og hernumið það. Í umr. utan dagskrár var hæstv. utanrrh. inntur eftir afstöðu sinni og ríkisstj. til þessa atburðar. Hjá talsmönnum allra flokka, þingflokka hér á hv. Alþingi annarra en Sjálfstfl., kom fram við þessa umr. eindregin fordæming á þessari innrás og hernámi þessa smáríkis í Karíbahafi, ríkis sem telur helmingi færri íbúa en Ísland. Í þessari umr. sem hæstv. utanrrh. tók þátt í kom það ítrekað fram hjá honum, að hann teldi sig ekki geta staðið að fordæmingu á þessari innrás, a. m. k. ekki að svo komnu máli, og taldi sig heldur ekki geta harmað hana eina út af fyrir sig.

Það er miður að hæstv. utanrrh. er ekki viðstaddur hér þessa umr., en ég taldi þó ekki rétt að óska eftir því að henni yrði frestað þar eð málið kemur væntanlega aftur hér til umr. í hv. Sþ. eftir að hafa fengið meðferð í þeirri n. sem till. er um að málinu verði vísað til, þ.e. til hv. utanrmn. Ég vil því gera nánari grein hér fyrir ástæðum okkar flm. fyrir þessari till. sem er svohljóðandi:

„Alþingi leggur áherslu á að sjálfsákvörðunarréttur þjóða um eigin málefni er sú meginregla í samskiptum ríkja, sem Íslendingar vilja styðja á alþjóðavettvangi.

Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að lýsa því yfir, að Íslendingar fordæmi innrás Bandaríkjanna og annarra ríkja í Grenada.

Jafnframt lýsir Alþingi stuðningi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 28. október 1983 vegna innrásarinnar í Grenada.“

Með þessari till. er lagt til, að ríkisstj. verði falið að lýsa yfir fordæmingu á innrás Bandaríkjanna og annarra ríkja í Grenada. Fskj. með þessari till. er sú till. sem þá var fram komin í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og sem Öryggisráðið gerði að sinni ályktun, en framgangur hennar var þar stöðvaður með neitunarvaldi, sem Bandaríkin beittu við afgreiðslu málsins. Allir aðrir fulltrúar sem atkv. greiddu voru samþykkir ályktuninni en þrjú ríki sátu þar hjá.

Í framhaldi af þessu var þessi ályktun tekin upp á Allsherjarþingi sameinuðu þjóðanna af fulltrúa Nicaragua, að mig minnir, og þar gerði allsherjarþingið þessa till. að sinni og hún var þar samþykkt að mig minnir einróma, nema hvað Bandaríkjamenn greiddu þar áfram atkv. gegn henni. Menn geta kynnt sér efni þessarar ályktunar Öryggisráðsins og Allsherjarþingsins í fskj. Þar er mjög ákveðið tekin afstaða gegn þessari innrás sem er þar hörmuð mjög. Eins og segir í 1. lið ályktunarinnar er því lýst yfir af Allsherjarþinginu að það „harmar mjög hernaðaríhlutunina í Grenada sem felur í sér blygðunarlaust brot á þjóðarétti og á sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra ríkisins.“

Það voru sem sagt ekki vöflur á því á þingi Sameinuðu þjóðanna að taka afstöðu til þessa máls, og þau ánægjulegu tíðindi gerðust við atkvæðagreiðslu á Allsherjarþinginu, að Ísland stóð þar að samþykkt till. Öryggisráðsins sem kom þannig fyrir Allsherjarþingið. Þar með gekk hæstv. utanrrh. lengra en hann hafði gert í umr. fáum dögum áður á Alþingi um málið. Hins vegar felur orðalag þessarar samþykktar Allsherjarþingsins ekki í sér eindregna fordæmingu, það er ekki orðalagið í þessari till., eins og lagt er til hér í þessari till. til þál., en mjög eindregin afstaða er þar tekin gegn þessum atburði.

Það væri ástæða til að fara nokkrum orðum um þann rökstuðning, sem fram kom hér hjá hæstv. utanrrh. í Sþ. þann 27. október. Í því efni má vísa til þingtíðinda, þar sem þessar umr. er að finna. Meðal ástæðna þess að hæstv. utanrrh. taldi sig ekki geta tekið afstöðu til þessa atburðar, hvorki harmað hann einan út af fyrir sig né heldur fordæmt, var sú að ekki myndu öll kurl komin til grafar í sambandi við þetta mál og bar hann þar fram ýmislegt í því efni, m.a. þær skýringar sem Bandaríkjamenn höfðu fram borið og Reagan forseti þegar að morgni innrásardagsins. Þar var því m.a. haldið fram, að verið væri að koma í veg fyrir að Grenada yrði gert að stökkpalli fyrir Kúbu og Sovétríkin til undirróðurs og byltingarstarfsemi í öðrum ríkjum Mið- og Suður-Ameríku, svo og að ástæðan fyrir innrásinni hefði einnig verið sú, að nauðsyn hefði krafið að vernda líf bandarískra þegna og atveg sérstaklega líf læknastúdenta við læknaháskólann í höfuðstað Grenada.

Ég held að rétt sé vegna þeirrar umr., sem þarna fór fram, og umræðna sem síðar hafa farið fram í fjölmiðlum um þetta mál, m.a. vegna skrifa í Morgunblaðinu um þetta efni undanfarnar vikur, að ég vitni hér til greinar sem birtist í byrjun nóvember í Helgarpóstinum, skrifaðrar af blaðafulltrúa ríkisstj. Magnúsi Torfa Ólafssyni sem ritar reglulega um utanríkismál í Helgarpóstinn, og þar sem hann kemur að ýmsum þeim skýringum, sem Bandaríkjamenn hafa fram borið fyrir sínu athæfi í þessu efni. Það þarf ekki að kynna Magnús Torfa Ólafsson fyrir hv. þm., þekking hans á alþjóðamálum er við brugðið, hann hefur um þau fjallað svo lengi. Ég vil, með leyfi forseta, leyfa mér að vitna hér til þessarar greinar Magnúsar Torfa. Hann segir þar í upphafi:

„Fréttamenn Lundúnablaðsins Sunday Times bæði austan hafs og vestan rekja rækilega aðdraganda og framvindu bandarísku innrásarinnar í eyríkið Grenada. Þar segir: „22. október hafði Castro sent Bandaríkjastjórn skilaboð um að í rauninni væri hann „hrottalegu“ valdaráni á Grenada engu hlynntari en þeir og að Kúbumenn væru ekki“ — undirstrikað af sunday Times — „á eynni til að verja nýju valdhafana. Þó myndu þeir verjast ef á þá yrði ráðist. Castro stakk upp á stöðugu sambandi milli Havana og Washington til að forðast misskilning. Washington svaraði og féllst á uppástunguna. Svarið barst til Havana hálfum öðrum klukkutíma eftir að innrásin hófst.“

Þessi frásögn hins breska blaðs er eitt dæmi af mörgum um ástæðurnar fyrir því að trúnaðarbrestur ríkir milli Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Vestur-Evrópu eftir ákvörðun Reagans forseta um að ráðast á Grenada. Í Öryggisráðinu stóðu Bandaríkin ein uppi og urðu að beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir fordæmingu á aðförum sínum. Enginn trúnaður er lagður á tilraunir Bandaríkjaforseta og talsmanna hans til að réttlæta ákvörðunina um að grípa til vopna. Málaleitan Castros um samráð til að forðast misskilning var virt að vettugi og í sjónvarpsræðu sinni til bandarísku þjóðarinnar hélt Reagan því fram að bandaríska innrásin hefði komið á síðustu stundu til að hindra að Grenada yrði bækistöð fyrir sovésk-kúbanskar árásir og hefndarverkastarfsemi á Karíbahafi og í Rómönsku Ameríku. Máli sínu til sönnunar benti hann einkum á tvennt, millilandaflugvöll í smíðum og nokkur þúsund riffla í geymslum.

Breska flugvallaverktakafyrirtækið Plessey, aðalverktaki við flugvallargerðina hjá Port Salinas var ekki seint á sér að afsanna fullyrðingar Bandaríkjaforseta; Benti það á, að eldsneytisgeymslur vallarins eru ofanjarðar og flugstöðin miðuð við farþegaflutninga. Þar á ofan hefur Plessey ríkisábyrgð ríkisstjórnar Bretlands fyrir 6 millj. sterlingspunda láni sínu til Grenada, og er þá skiljanlegt að ekki einu sinni Margrét Thatcher treystir sér til að koma Ronald Reagan til hjálpar í þessu máli.

Rifflabirgðirnar í geymslum koma heim við fregnir af fyrsta þætti valdaránsins á Grenada. Þar kom fram, að áður en Maurice Bishop var hrakinn frá völdum og síðan myrtur, hafi hann aflað vopna til að koma á laggirnar allt að 20 þúsund manna heimavarnarliði sem borið hefði ægishjálm yfir tvö þúsund manna her sem var helsta valdatæki keppinauta hans í stjórnarflokknum.

Bishop gerði sér í vor ferð til Washington í því skyni að reyna að fá Bandaríkjastjórn til að taka upp stjórnmálasamband við Grenada. Þar kom hann hvarvetna að lokuðum dyrum hjá valdhöfum. Charles Mathias öldungadeildarmaður og flokksbróðir Reagans gerir því skóna í frásögn í Washington Post af komu Bishops í skrifstofu sína að hefði þá verið á hann hlustað gæti framvindan á Grenada og í skiptum þess og Bandaríkjanna hafa orðið önnur og heillavænlegri en raun varð á.

Af yfir 1 000 Bandaríkjamönnum á Grenada voru rúmlega 600 læknastúdentar, sem þangað leituðu af því að þeir komust ekki inn í bandaríska læknaskóla. Reagan skýrði Bandaríkjamönnum frá því að ein af ástæðunum fyrir innrásinni væri að bjarga þeim frá voða. Frásagnir fréttamanna sem komust til Grenada þrátt fyrir viðleitni Bandaríkjastjórnar til að hindra að nokkrar fréttir aðrar en þær sem hún skammtaði bærust frá eynni, bera með sér, að eini háskinn sem að læknastúdentunum steðjaði, var frá löndum þeirra í innrásarliðinu. Það var með svo villandi leiðbeiningar, foringjarnir til að mynda búnir ljósrituðum túristakortum af eynni að ein höfuðorrustan stóð við annan af tveim stúdentagörðum sem vistuðu Bandaríkjamennina. Innrásarforustan hafði ekki hugmynd um að þeir dveldu á tveim stöðum.

Frá Evrópu séð blasir við að Reagan réðst á Grenada til að hafa áhrif sér í vil á almenningsálitið í Bandaríkjunum þar sem hann hafði ekki tök á að svara á staðnum sprengingunni í Beirút sem varð að bana á þriðja hundrað bandarískum landgönguliðum. Auk þess að þverbrjóta þýðingarmestu reglur alþjóðalaga gerði hann ráðstafanir til að fara á bak við bresku stjórnina svo hún gæti ekki í tæka tíð varað af fullum þunga við árás á samveldisland. Afleiðingarnar birtast í niðurstöðu skoðanakönnunar Sunday Times: 73% fulltíða Breta telja ekki treystandi fyrirheiti Bandaríkjastjórnar um að beita ekki kjarnorkuvopnum frá breskri grund að bresku stjórninni forspurðri. Frumhlaup Bandaríkjaforseta kemur einmitt þegar hæst standa deilur í nokkrum Vestur-Evrópulöndum um það, hvort taka eigi við mun öflugri bandarískum kjarnorkuvopnum en þeim sem fyrir eru.“

Og í lokin segir Magnús Torfi í þessari grein: „Kvíðinn í Vestur-Evrópu er enn meiri vegna þess að eftir að sigur í ódýru stríði færir Reagan aukna lýðhylli heima fyrir, er hann vís til að halda áfram á sömu braut.

Svo að enn sé vitnað í Sunday Times frá síðasta sunnudegi er þar að finna frétt á þá leið, að leyniþjónusta CIA stefni að því að fá samþykki Reagans til að koma á laggirnar á einhverjum skika af Nicaragua ríkisstjórn á vegum skæruliðahreyfingarinnar sem CIA hefur gert út gegn stjórn Sandinista í landinu á annað ár. Bandaríkin og ríki þeim leiðitöm í Mið-Ameríku eiga síðan að viðurkenna þessa stjórn og senda skal heri Mið-Ameríkuríkjanna inn í Nicaragua til liðs við hana. Þessu á að koma í kring áður en þetta ár er úti hefur fréttamaður eftir bandarískum og evrópskum diplómötum.“

Þetta var tilvitnun í grein Magnúsar Torfa Ólafssonar, sem hann ritaði nokkru eftir þennan atburð, innrásina í Grenada. Það hafa farið fram í blöðum hérlendis talsverð skrif um þetta efni og ekki síður í erlendum blöðum. Í erlendum borgarablöðum eru viðhorf mjög á eina leið í sambandi við þessa innrás Bandaríkjanna sem Bandaríkin höfðu alla forustu fyrir á þá leið að þetta athæfi sé ekki verjanlegt. Það er því áhyggjuefni að í blöðum sem vilja vera marktæk hér á Íslandi má enn lesa greinar eftir aðila sem vilja láta taka sig alvarlega um að þessi aðgerð Bandaríkjanna sé skiljanleg, jafnvel verjanleg. Ég minni á grein sem birtist alllöngu eftir innrásina eða hálfum mánuði síðar í Morgunblaðinu þann 10. nóvember, þar sem skrifað er með eftirfarandi hætti í Staksteinum, með leyfi hæstv. forseta. Ég held að það sé ómaksins vert að átta sig á skrifum af því tagi sem þar birtast, en það er svohljóðandi:

„Í Morgunblaðinu í gær birtist grein eftir Einar Hjörleifsson sem ber yfirskriftina: Innrás og áróðurslygi. Þar er ráðist harkalega að þeim skoðunum, sem Morgunblaðið hefur látið í ljós á innrásinni á Grenada og því sem þar hefur gerst síðan. Höfundur grípur m.a. til samanburðarfræðinnar, sem er jafnan haldreipi þeirra sem reyna að bera blak af ofbeldishneigð heimskommúnismans hvort heldur hún birtist grímulaus eins og í Afganistan eða er í felum eins og á Grenada. Vitnar Einar Hjörleifsson í forustugrein Morgunblaðsins um innrás Sovétmanna í Afganistan í árslok 1979 og ber saman við forystugrein blaðsins um innrásina undir forystu Bandaríkjamanná á Grenada. Síðan segir höfundur: „Morgunblaðið virðist. te1ja það skipta höfuðmáli hver stendur á bak víð hernaðaríhlutunina, ekki hvað í henni felst.“

Þessa setningu Einars Hjörleifssonar er nauðsynlegt að íhuga frekar, hún snertir kjarna málsins. Það hefur nefnilega hvað eftir annað sannast að það fer eftir því hver stendur á bak við hernaðaríhlutun „hvað í henni felst“. Það felst ekki í innrásinni á Grenada að Bandaríkjamenn ætli að svipta íbúa landsins stjórn eigin mála. Bandaríska þingið hefur sett herliðinu.ákveðinn frest til að hverfa á brott frá eyjunni. Íbúar Grenada hafa fagnað komu bandarísku hermannanna og líta fremur á þá sem bjargvættir en hernámslið. Innrásin á Grenada var m.a. gerð í því skyni að uppræta hulduher Sovétmanna í gervi kúbanskra byggingarverkamanna og sovéskra sendiráðsmanna, hulduher sem var að færa. Grenadabúa í fjötra fátæktar og kúgunar í nafni KarIs Marx.

Sé tæplega fjögurra ára blóðbað í Afganistan borið saman við það sem er að gerast á Grenada kemur í ljós, að „gömlu lúnu klisjurnar um ógnanir heimskommúnismans“, svo að vitnað sé til orða Einars Hjörleifssonar, eru enn í fullu gildi; því að þær hafa að geyma þau sannindi að kommúnistar svífast einskis við að ná völdum og halda þeim. Meiri fjöldi fólks hefur flúið frá Afganistan en nokkru öðru landi á síðari tímum. Þær milljónir sem þannig hafa greitt atkvæði gegn heimskommúnismanum með fótunum vita að það ræður úrslitum um það hvað í hernaðaríhlutun felst hver . stendur á bak við hana.“

Þetta var tilvitnun í Staksteina Morgunblaðsins þann 10. nóv. og þar er talað býsna skýru máli. Það skiptir ekki máli að alþjóðalög eru brotin með þeim hætti sem .. hér gerist, það skiptir máli hver stendur að slíku broti. Ég tel að menn séu komnir út á afskaplega hálan ís, þegar farið er að fjalla um alþjóðamálefni með þessum hætti og leggja mat á brot gegn, sáttmála Sameinuðu þjóðanna á þann hátt sem hér er gert. Þetta eru þó tiltölulega meinleysisleg skrif miðað við það sem sést hefur frá nafngreindum aðilum í blaðagreinum, aðilum sem oft láta til sín heyra í blöðum, eins og dæmi eru um þann 4. nóv. í DV, þar sem Haraldur Blöndal skrifar grein sem hann kallar „Réttmætar lögregluaðgerðir“. Ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á skrifum af þessu tagi, þó að þessi rithöfundur sé ekki hér til þess að svara fyrir um mál sitt, en hann hefur alla möguleika á því. Það eru aðeins örfá orð hans sem ég vil vekja athygli á, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir þar m.a.:

„Það var því ekki nema eðlilegt að nágrannaríkin sameinuðust um að skakka leikinn og koma aftur á lögum og reglu. Slíkt er alþekkt í þjóðarétti og hefur nokkrum sinnum komið fyrir.

Aðgerðir þessar er alls ekki hægt að kalla innrás, enda er tilgangur aðgerðanna hvorki að steypa ríkisstjórn landsins né koma landinu undir erlend yfirráð. Því síður er verið að koma í veg fyrir að þjóðarviljinn nái fram að ganga, því að yfirlýst ætlun þeirra sem skökkuðu leikinn er að haldnar verði kosningar að vestrænum hætti, þar sem þegnar Grenada ákveða stjórn sína. Þar við bætist að æðsti maður eyjarinnar, landsstjórinn, sem ríkti í umboði drottningarinnar, óskaði eftir hjálp.“

Þetta segir Haraldur Blöndal, og hann segir síðar í þessari grein: „Það sýnir hins vegar forheimskun hugans, að lýðræðissinnar hér á Íslandi skuli hafa tekið upp hanskann fyrir bófana í stað þess að standa með þeim, sem vilja leggja sitt af mörkum til þess að tryggja lýðræði í heiminum. Afstaða þessara manna sýnir að linnulaus áróður herranna í Kreml skilar alltaf einhverjum árangri.“

Þetta eru tilvitnanir, fáar af mörgum, sem ástæða væri til að minna á í blöðum hér að undanförnu í sambandi við þennan atburð. Það fer ekki hjá því að maður fyllist nokkrum hrolli yfir að sjá slík skrif í íslenskum blöðum og það meira að segja í ritstjórnargreinum fjöllesinna blaða, þar sem með einum eða öðrum hætti er verið að bera blak af Bandaríkjunum fyrir þennan verknað.

Það þarf ekki að fara neitt í grafgötur um það, hvert er viðhorf flutningsmanna þessarar þáltill. til hliðstæðra atburða eins og þeirra, sem að er vikið í þessum skrifum, innrásarinnar í Afganistan, svo dæmi sé tekið. Það hefur komið fram hér mjög ítrekað á undanförnum vikum og lá raunar fyrir, þegar sá verknaður var framinn og þau brot gegn alþjóðalögum sem þar eru á ferðinni.

Þróun mála í Rómönsku Ameríku er vissulega mikið áhyggjuefni um þessar mundir. Innrásin í Grenada er í rauninni aðeins einn þáttur í stærra samhengi atburða, sem þar hafa verið að gerast og eru að gerast, atburða sem full ástæða er til fyrir Alþingi Íslendinga að fylgjast með og ræða. Ég ætla hér ekki að gera það í löngu máli. Ég vil hins vegar aðeins minna á það, sem hefur verið að gerast á undanförnum árum í löndum eins og El Salvadór; svo ekki sé minnst á Guatemala, þar sem steypt var lýðræðislega kjörinni stjórn 1954 og herforingjastjórn hefur ríkt síðan í skjóli Bandaríkjanna.

Það liggur fyrir að síðla á valdatíma Carters forseta sóttu mjög í sig veðrið Þau öfl í Bandaríkjunum, sem töldu að mál væri komið til að skakka leikinn eftir þeirra hugmyndum í Rómönsku Ameríku og koma í veg fyrir þær lýðhræringar til þess að hrista af sér fjötra fátæktar og einræðisstjórna, sem farið var að gæta þar í allmörgum löndum.

Dæmi um ráðagerðir sem nú má segja að fram séu komnar er að finna í áliti nefndar sem kennir sig við Santa Fe, santa Fe-nefndarinnar, sem skilaði gildu áliti til bandarískrar öryggisnefndar eða Councel for Inter-American Security, sem fékk í hendur álit þessarar Santa Fe-nefndar, A new Inter-American Policy for the eighties, eða „Ný Innan-Ameríkustefna fyrir áttunda áratuginn“, þar sem lagðar eru fram áherslur um það, hvernig Bandaríkjunum beri að standa að meðferð mála gagnvart þessum heimshluta.

Ég held það væri fróðlegt fyrir hv. alþm. að kynna sér þessa álitsgerð, sem Reagan-stjórnin hefur að verulegu leyti gert að sinni í sambandi við samskipti við ríki Mið-Ameríku, eins og glöggt kemur fram í þeim stuðningi, sem Bandaríkjastjórn hefur veitt ógnarstjórninni í EI Salvador á undanförnum árum. Málefni El Salvador hafa verið á dagskrá hér á hv. Alþingi og þau hafa verið rifjuð upp núna síðustu daga, þegar formaður mannréttindanefndar El Salvadors var hér í heimsókn í síðustu viku, Patricio Fuentes, sem hingað kom og ræddi við fulltrúa stjórnmálaflokka og gerði grein fyrir þeirri ógnaröld sem áfram ríkir þar í landi. Hann tekur við sem forseti þessarar nefndar af Maríanellu Garcia-Villas sem okkur heimsótti hér en var drepin skömmu síðar með ógnvænlegum hætti.

Það kemur fram í grg. þessa forseta mannréttindanefndar El Salvador að ekki hefur ástandið batnað nema miklu síður sé, og hefur það verið rakið skilmerkilega í íslenskum blöðum að undanförnu. Það kemur m.a. fram í þeirri frásögn sem rakin er í Alþýðublaðinu í dag, þar sem eftir honum er haft m.a.: „Nú síðast fyrir tveimur vikum urðum við fyrir enn einu áfallinu, þegar síðasti lögfræðingurinn á vegum nefndarinnar var drepinn fyrir utan skrifstofur nefndarinnar í San Salvador.“

Það mætti margt rekja úr frásögnum þessa forseta mannréttindanefndarinnar, en menn hafa haft tækifæri til að kynna sér ummæli hans í blöðum og í viðræðum nú mjög nýlega svo að ég sé ekki ástæðu til að rekja það frekar.

Ég minni hins vegar á það sem fram hefur komið í blöðum að undanförnu, að Bandaríkjastjórn styður þessa ógnarstjórn með háum fjárupphæðum, eða eins og segir í grein um utanríkismál í DV þann 7. nóv., ritaðri af Herdísi Þorgeirsdóttur, svo ég vitni örstutt í hana. Þar segir:

„Fjárhagsaðstoð Bandaríkjanna við El Salvador hefur undanfarin ár númið um 50% af því sem kostnaðurinn var á dag í Víetnam. Reagan-stjórnin hefur talið sig best geta þjónað hagsmunum sínum í stríðinu gegn vinstri skæruliðum með því að „fjárfesta“ í stjórnarhernum. Hugmyndin hefur verið að koma á fót atvinnuhermennsku, þ.e. að stjórnarhermenn gangi ekki um rænandi, nauðgandi og skjótandi fanga.“

En það kemur fram síðar í þessari grein að svo sé komið að það séu að renna á Bandaríkjastjórn tvær grímur vegna almenningsálits í heiminum að styðja þessa ógnarstjórn með svo opinberum hætti sem raun ber vitni.

Ég taldi ástæðu til þess, herra forseti, að minna á það ástand sem nú ríkir í Mið-Ameríku í tengslum við innrásina í Grenada til þess að undirstrika þá skoðun mína, að sú þróun sem þar er í gangi og sem fyrr en varir getur leitt til hliðstæðra óhæfuverka eins og gerðist með innrás Bandaríkjanna í Grenada, að slík þróun gerir það enn sjálfsagðara að mínu mati að Íslendingar láti fram koma með skýrum og skorinorðum hætti fordæmingu sína á verknaði af þessu tagi. Það á að gilda hver sem í hlut á, þegar brotinn er alþjóðaréttur og sáttmáli Sameinuðu þjóðanna, eins og gerðist þegar Bandaríkin hertóku þetta smáríki í Karíbahafi.