06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

95. mál, húsnæðissamvinnufélög

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Um langt árabil hafa Íslendingar beinlínis neyðst til að byggja eigið húsnæði og greiða það upp á örfáum árum. Til að mæta þessum ómannúðlegu kröfum hafa menn orðið að leggja á sig ómælt erfiði, vinna yfirvinnu eða fleira en eitt starf og eyða síðan öllum lausum stundum í hálfbyggðu húsi við naglhreinsun og múrverk og málningarvinnu. Þetta er hin íslenska herskylda.

Til fullnustu þessarar skyldu hafa margir reist sér hurðarás um öxi. Vorum við minnt rækilega á það á s.l. sumri þegar örvæntingarfullir húsbyggjendur og húsnæðiskaupendur bundust samtökum um að knýja fram einhverjar úrbætur í lánamálum sínum sem voru komin í algert öngþveiti. Skuldabyrðir húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda höfðu vaxið langt umfram greiðslugetu þeirra flestra og ástæðan er augljós. Verðlag hafði hækkað meira en launin. Lánskjaravísitalan tók sprett fram úr kaupgjaldsvísitölunni. Afborganir verðtryggðra lána til skamms tíma eru að sliga húsbyggjendur og íbúðakaupendur.

Fyrir löngu var þörf breyttrar stefnu í húsnæðismálum. Sú þörf er nú orðin að brýnni nauðsyn. Fólk verður að eiga fleiri kosta völ en að þræla sér út við að koma þaki yfir höfuðið. Það verður að geta valið um það í reynd hvort það leigir, kaupir notað húsnæði eða byggir sjálft. Um leið og húsnæðislán eru færð til betri vegar verður því að huga að fleiri leiðum í húsnæðismálum en þeirri byggingarstefnu, sem hefur verið nánast einráð hér, að hver byggi fyrir sig og eigi svo allt klárt og kvitt eftir 10–20 ára strit. Nokkrar leiðir hafa verið reyndar til að gera sem flestum kleift að eignast eigið húsnæði. Byggingarsamvinnufélögin hafa t.d. gefið góða raun. Þeim hefur tekist að byggja vandaðar íbúðir á tiltölulega lágu verði miðað við almennan markað og bygging verkamannabústaða hefur einnig leyst vanda margra.

En nú er það alls ekki svo að allir vilji eða geti eignast húsnæðið sem þeir búa í. Þrátt fyrir þá séreignastefnu sem ríkt hefur hér á landi er reiknað með að 30-40 þús. Íslendingar búi í leiguhúsnæði. Þar er vandinn ekki minnstur. Öryggisleysi og réttleysi leigjenda hefur einmitt rekið marga út í byggingar eða íbúðakaup sem þeir réðu í rauninni ekkert við. Hér er mikil þörf á því að snúa við blaðinu. Það þarf að veita auknu fé til byggingar leiguhúsnæðis, einkum á vegum félagasamtaka, og lengja lánstímann verulega.

Húsnæðissamvinnufélög eru rekin víða um lönd og hafa gefið góða raun. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um fyrirkomulag slíkra félaga. Það hefur verið gert svo rækilega í fjölmiðlum auk þess sem 1. flm. þessarar till. gerði svo ítarlega grein fyrir skipulagi slíkra félaga hér áðan. En ég vil ítreka það sem áður er komið fram að húsnæðissamvinnufélög sameina kosti eignakerfis og leigukerfis svo vel viðunandi er. Félagsmenn mundu njóta nákvæmlega sama réttar til ævilangrar búsetu eins og íbúðareigandi hefur samkv. íslenskum lögum og þeir hefðu fullan rétt til breytinga og lagfæringa á húsnæðinu alveg að vild. Gjöldum yrði haldið í lágmarki og við brottflutning fengi félagsmaður greitt til baka verðmæti búseturéttarins en ekki áunninn eignarhluta. Þessi leið er fær þeim mörgu sem vilja njóta öryggis búseturéttar en geta ekki eða kæra sig ekki um að eyða bestu árum ævi sinnar við botnlaust strit til þess að fullnægja kröfum eignarréttarins.

Mjög almennur áhugi hefur komið í ljós á því framtaki sem sýnt hefur verið með stofnun fyrsta húsnæðissamvinnufélagsins. Nálægt 2000 manns hafa þegar skráð sig í þetta fyrsta félag og stefnt er að stofnun fleiri slíkra, t.d. á Akureyri. Það er ekki vafamál að þetta félag og fleiri slík eiga sér mikla lífsvon. Ég tel brýnt að sýna þessu framtaki þann stuðning sem löggjafinn getur veitt.