06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

95. mál, húsnæðissamvinnufélög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi þáltill. er hér komin fram. Þó að nú sé búið að leggja fram lagafrv. sem taki á sama málinu, þá breytir það engu um það, að söm er þeirra gerð sem leggja þetta til. Ég vildi gera hér að umræðuefni það sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., þegar hann vék að því að það gæti reynst fólki erfitt að greiða þau 20% sem það þarf að greiða, þegar um verkamannabústaðakerfið er að ræða og þegar sú ákvörðun er tekin, að hækka það úr 10 í 20. Ég hygg þó að ef það mál er skoðað, þá sé það fyrst og fremst eitt atriði sem hafi valdið þessu fólki allverulegum vanda. Þetta segi ég sem fyrrv. sveitarstjórnarmaður, en það er að þetta fólk á undir mjög mörgum kringumstæðum rétt á lífeyrissjóðsláni eða lánum, ef um hjón er að ræða, en það hefur ekki veðheimild. Það hefur ekki möguleika á að veðsetja neina fasteign fyrir láni. Og þarna kemur að því að bankastofnanir líta ekki á þessi 20% sem eftir eru sem veðhæfa möguleika til að tryggja þessa greiðslu.

Í sumum tilfellum eru lán tryggð á annan veg. Það mætti hugsa sér í þessu sambandi hvort ekki væri hægt að fara þá leið að sveitarfélögin hefðu rétt til að taka lífeyrissjóðslánið, og endurlána það viðkomandi aðila gegn t.d. kvöð um að því væri heimilt að halda eftir af launum í gegnum atvinnurekendur þeirri upphæð sem þyrfti til að standa skil á láninu. Nú gæti þetta út af fyrir sig haft í för með sér að það yrðu einhver töp, sveitarfélögin gætu lent í einhverjum töpum. En ég hygg samt sem áður að ávinningurinn væri svo miklu meiri sem af þessu yrði að þessi leið gæti verið hugsanleg til að leysa þetta vandamál, því að það er náttúrlega ákaflega þungskilið að það gæti verið skynsamlegt að byggja upp þannig kerfi, að annars vegar eigi menn rétt á lánum, en hins vegar sé þeim gert ómögulegt að taka þau. Ég hygg að það verði ekki vandamál hjá fólki að fjármagna sín 20% ef þetta vandamál er leyst í þeirri stöðu. Þetta er nú dálítið á skjön við það sem hér er rætt um í þáltill., en það er ákveðið að fara í 80%, eins og talað hefur verið um í lögum um húsnæðissamvinnufélög, og ég held að það sé alveg nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að annaðhvort verður að gera þetta af fullri alvöru eða koma ekki nálægt því. Því að það væri verra en nokkuð annað ef menn stæðu að þessu af slíku hálfkáki, að það kæmi óorði á þá kerfisbreytingu sem hér er verið að leggja til og hefur skilað mjög jákvæðum árangri á Norðurlöndum og á öðrum stöðum í Evrópu.