07.12.1983
Efri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Að vísu stendur þann veg á fyrir mér, að ég hef ekki aðstöðu til þess að rekja það nákvæmlega í hverju breytingar á skipulagi og starfsháttum og rekstri Rafmagnsveitna ríkisins verða fólgnar. Ég hafði gert ráð fyrir því að geta upplýst um það í byrjun næsta árs.

Endurskoðun hefur farið fram á rekstri fyrirtækisins og athugun og úttekt á rekstrarstöðu þess. Mér virðist, eins og mál standa nú, að það eigi að geta leitt til verulegra breytinga eða sparnaðar í rekstri fyrirtækisins. Hversu mikinn sparnað verður um að tefla get ég ekki sagt til um á þessu stigi máls.

Um skipulag raforkuframleiðslunnar, raforkusölunnar og skipulag rafmagnsmálanna í heild er það að segja að ég tel að þar sé víða pottur brotinn. Það er unnið fullum fetum að endurskipulagningu í þessum efnum.

Fyrsta skrefið var að gera úttekt á rekstri fyrirtækjanna, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubúsins. Þess má geta hér að ég hef enda tekið ákvörðun um að gera úttekt á rekstri Landsmiðjunnar sem er á vegum iðnrn. og Sementsverksmiðju ríkisins. Þannig verður haldið áfram að gera athugun á rekstri hinna ýmsu stórfyrirtækja, sem á vegum iðnrn. eru, og einnig, þótt um það hafi ekki verið tekin endanleg ákvörðun eða tímasett, verður haldið áfram rannsóknum á raforkumálunum, þar með er talin Landsvirkjun.

Um skipulag raforkumálanna er það að segja, ef á heild er litið, að ég tel þar ýmsu ábótavant, of eða van, eins og gengur. Ef ég má nefna sem dæmi Suðurnes, þá hef ég nýlega lýst því yfir á fundi með sveitarstjórnum þar syðra að ég væri reiðubúinn til þess að setjast niður með þeim og semja um yfirtöku þeirra á rekstri Rafmagnsveitnanna á Reykjanessvæðinu. Ég vænti þess að fljótlega verði gerð gangskör að framkvæmd þess mál, og er reyndar unnið að samningu lagafrv. um Orkuveitu Suðurnesja. Ég held að eftir að sveitarfélögin hafa sameinast eins og raun ber vitni um aðalorkuveitu sína, sem er hitaveitan í Svartsengi, þá eigi eftirleikurinn að vera auðveldur.

Ég vil fá tillögur um úttekt á og síðan tillögur um skipulag raforkumálanna. Ég get nefnt sem dæmi Borgarfjörð, þar sem Andakíll er og þar sem Rafmagnsveitur ríkisins eru, um Eyjafjörð og austur um, þar sem Rafveita Akureyrar er og allt um kring Rafmagnsveitur ríkisins. Til hvers það leiðir er of snemmt að segja til um, en ég mun a. m. k. gera tilraun til að fá fangs á þessum málum í þá veru að rekstrinum verði breytt til meira hagræðis, til meiri hagkvæmni í sparnaðarskyni, og á nýtt skipulag brugðið ef niðurstöðurnar benda til þess að leiða muni til aukins sparnaðar og hagkvæmni fyrst og fremst.

Ég vænti þess sem sagt að skipulagsbreytingar, rekstursbreytingar sem menn eru að velta fyrir sér hjá Rafmagnsveitum ríkisins, muni leiða til allverulegs sparnaðar. Ég bendi hins vegar á að samkv. úttekt og áætlunum eins og þær standa í dag er gert ráð fyrir allverulegum halla á rekstri Rafmagnsveitnanna á árinu 1983, eða rúmlega 35 millj. kr. Og fyrst er nú að jafna þann halla áður en við getum byrjað að ræða um með hvaða hætti skipulagsbreytingarnar og sparnaðarráðstafanirnar verða til þess að draga úr orkuverðinu.

Ég get enn fremur í þessu sambandi upplýst að ég hef alveg nýverið fengið í hendur drög að frv. til laga um orkuverð, sem samin hafa verið af sérstakri nefnd sem til þess var skipuð á vordögum. Þau eru í athugun nú og vænti ég þess að fljótlega upp úr áramótum takist að koma nýrri og betri skipan á þau mál öll sömul.

Þetta er það sem ég hef að segja um þessi mál. En ég ítreka það að öll eru þau í vandlegri athugun og ég vænti þess fastlega að í einhvern bærilegan stað komi niður.