20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að koma inn í umr. um þáltill. sem hér var mælt fyrir, um könnun á orsökum hins háa raforkuverðs til almennings á Íslandi.

Ég tek undir það með flm., að það er full nauðsyn á því að fara ofan í saumana á jafngildum þætti í þjóðarbúskap okkar og er orkuöflunin og verðlagningin á orku, bæði hinni innfluttu orku og þeirri orku sem við framleiðum í landinu sjálfu. Ég tel að það sé réttmætt að fela tilkvöddum aðilum að fara ofan í þessi efni til þess að draga fram sem gleggstar upplýsingar þar að lútandi — upplýsingar sem hv. Alþingi geti talið trúverðugar og notað við stefnumörkun í þessum málum.

Lagt er til samkvæmt þessari till.ríkisstj. verði falið að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að kanna þessi efni gaumgæfilega og skila skýrslu til Alþingis þar að lútandi og tillögum til úrbóta. Ég hef ekki mótað mér endanlega skoðun á því, til hverra sé eðlilegt að leita í sambandi við verkefni sem þetta. Ég minni á að við höfum stofnun í landinu, sem er lögum samkvæmt ráðgefandi fyrir stjórnvöld og Alþingi um orkumál, þar sem er Orkustofnun. Og hvort sem þeirri stofnun yrði falið að vinna að úttekt sem þessari eða ekki, þá er ljóst að hún hlýtur að koma þar við sögu með einum og öðrum hætti og býr yfir miklum upplýsingum um þessi mál. Það er hins vegar, eins og hér er tekið fram, mikil nauðsyn á því að þær upplýsingar, sem fram eru reiddar, séu það skipulega unnar að þeim megi treysta. Og ég tel eðlilegt að þetta atriði, til hverra verði leitað, hvernig verði staðið að slíkri athugun, verði til skoðunar í þeirri nefnd sem fær till. þessa til meðferðar.

Það er hins vegar ekki svo, að ofan í þessi efni hafi ekki verið farið á undanförnum árum og fram hafi ekki verið reiddar greinargerðir og skýrslur til almenningsnota og fyrir hv. Alþingi varðandi marga þætti sem snerta verðlagningu á raforku í landinu. Ég geri ráð fyrir að hv. alþm. hafi sitt hvað af slíku efni handa á milli. Ég minni t.d. á upplýsingar sem fram koma í skýrslu þeirri sem tekin var saman af starfshópi á vegum iðnrn. og dagsett er í júlí 1982, um athugun á verðlagningu raforku til Íslenska álfélagsins. Skýrslan var birt sem fskj. með frv. til l. sem flutt var í hv. Nd. Alþingis á síðasta þingi, þannig að hún er öllum aðgengileg.

Í þessari skýrslu er ekki aðeins að finna upplýsingar varðandi verðlagningu á raforku til Íslenska álfélagsins sérstaklega, heldur einnig mjög mikið af upplýsingum um verðlagningu á orku erlendis, sérstaklega til stóriðju. Þar er einnig að finna verðmætar upplýsingar um stofnkostnað orkumannvirkja, sérstaklega vatnsaflsvirkjana, í landinu á undanförnum áratugum, reiknað til sambærilegs verðlags. Slíkar upplýsingar lágu ekki fyrir áður en þessi starfshópur skilaði sínu verki, ekki þannig að aðgengilegt væri. En þarna er að finna mjög gilda þætti sem snerta raforkuverðið til almennings á Íslandi.

Það vakti óneitanlega nokkra athygli mína, þegar ég sá þessa þál., þegar hún var lögð fram á hv. Alþingi, og nú þegar hv. 1. flm. mælti fyrir henni, að í grg. með till. og í framsögunni var vikið að nokkrum þáttum sem áhrif hafa á verðlagningu raforkunnar. Nefnd var skattlagning, framleiðslukostnaður, dreifingarkostnaður orkunnar og yfirbygging orkufyrirtækjanna, Landsvirkjunar og fleiri. En einhverra hluta vegna sjá flm. ekki ástæðu til að vekja athygli á því í rituðu eða töluðu orði sem mest áhrif og augljósust hefur á raforkuverðið á Íslandi, sem er orkuverðið til stórnotenda, til stóriðjufyrirtækjanna í landinu. Ég vona að í þessu felist ekki neitt endanlegt mat hv. flm. á einstökum liðum sem snerta orkuverðið eða það að þeir telji að ofan í þennan þátt þurfi ekki að fara. Ég held að þar sé stærstu ástæðina að finna fyrir þeim raforkukostnaði sem almenningur á Íslandi, jafnt atvinnurekstur og heimili, brýr við. Við eigum áreiðanlega eftir að ræða þau efni oftar en í þessari umr. á hv. yfirstandandi þingi. Ég trúi ekki öðru en hv. þm. Alþfl. vilji fremur hvetja til þess en letja að þessi þáttur verði tekinn til athugunar í þeirri úttekt sem þeir eru að leggja til að gerð verði.

Hv. 5. landsk. þm. vék í framsögu sinni áðan að ýmsum þáttum sem hann teldi að þyrfti að líta á og því mati að verið gæti að íslensku orkulindirnar væru í rauninni ekki sú auðlind sem við höfum vænst og gert ráð fyrir við áætlanir og ákvarðanir á undanförnum árum. Hann tók þar sem dæmi að veitingastaðir í Reykjavík hefðu tekið það til bragðs að nýta innflutt gas í sínum rekstri í staðinn fyrir að nota innlenda orku. Ég kannast vel við þetta dæmi af viðræðum við hagsmunaaðila, en ég vara við að menn dragi víðtækar ályktanir af þessu dæmi, sem þarna er fram reitt, þó að eðlilegt sé að það veki nokkra athygli. Hér er að mínu mati fyrst og fremst um að ræða gjaldskrárákvörðun og hvernig haldið er á uppbyggingu taxta hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur fremur en að þetta endurspegli stöðu orkulinda okkar sem auðlindar á heildina litið, sem betur fer.

Hins vegar er það svo, að vafalaust eru margir þættir í sambandi við beislun orkunnar og dreifingu hennar allt til notenda, þar á meðal yfirstjórn og meðferð fjár opinberra aðila, þess eðlis að full ástæða er til þess á hverjum tíma að hafa vakandi auga á því hvar sé hægt að draga úr kostnaði, hvar megi lækka kostnaðinn á leiðinni frá orkulindinni til endanlegs notenda.

Vikið var að svokölluðum umframkostnaði vegna þeirrar virkjunar sem framkvæmdir eru nú að hefjast við á þessu ári, Blönduvirkjunar, og hv. 5. landsk. þm. hefur borið hér fram í Sþ. fsp. til hæstv. iðnrh. þar að lútandi. Ég ætla ekki að fara að ræða það mál í einstökum atriðum, aðeins nefna að í þeim efnum ættu hv. alþm. ekkert að koma á óvart þeir þættir sem inn í koma, sem rætt hefur verið um sem umframkostnað við þessa virkjun, því að sá samningur, sem gerður var milli iðnrn. og Rafmagnsveitnanna annars vegar og heimaaðila hins vegar, lá fyrir hv. Alþingi þegar afstaða var tekin til framkvæmda við Blönduvirkjun og kostnaðaráætlanir þar að lútandi. Þó að ég hafi ekki fengið sundurliðun í einstökum atriðum, þá hygg ég að þar sé ekki um að ræða þætti sem komi neitt sérstaklega á óvart eða séu óvæntir fyrir hv. alþm.

Mér kemur það hins vegar nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar jafnvel hæstv. iðnrh. er farinn að telja með inn í dæmið og henda á lofti tölur og kasta þeim fram fyrir þjóðina, að inn í umframkostnað við virkjun komi sköpun aðstöðu til þess að unnt sé að ráðast í hana, lagning vega inn á virkjunarsvæði, uppbygging flutningskerfis raforku til nota við virkjunarframkvæmdir, raflínulagnir og aðrir slíkir þættir. Mér finnst auðsætt að slíkt hljóti að teljast með framkvæmdakostnaði við viðkomandi virkjun, en flokkist ekki undir umframkostnað.

Ég tel það líka sérkennilegt ef það mat liggur að baki umræðunni sem endurspeglast hefur nokkuð í fjölmiðlum að undanförnu að það sé ekki eðlilegt að bæta hagsmunaaðilum tjón sem þeir sannanlega verða fyrir í sambandi við slíkar framkvæmdir í almannaþágu, m.a. tjón vegna spillingar eða eyðileggingar gróðurlenda, og að reynt sé að taka á því af samfélaginu með skynsamlegum hætti, eitthvað komi þar á móti. Ég held að það gæti orðið nokkuð torsótt að taka ákvarðanir í friði um mannvirkjagerð eins og vatnsaflsvirkjanir í landinu ef menn ekki ganga fram með opnum huga og því viðhorfi að bæta þeim sem fyrir tjóni verða og verða fyrir röskun heima fyrir eða hið næsta virkjunarstað fyrir það óhagræði sem þeir verða fyrir.

Hins vegar er jafneðlilegt að menn velti því fyrir sér í hvaða röð er ráðist í nýtingu orkulinda okkar með tilliti til umhverfissjónarmiða og þess kostnaðar sem leggja þarf í hverju sinni í sambandi við framkvæmdir og hvernig þeim er hagað, í hvaða röð málin eru tekin. Þar hef ég ákveðin sjónarmið, sem ýmsir hv. alþm. hafa heyrt sem sitja á þessu þingi og hafa setið á fyrri þingum, og ætla ekki að orðlengja það sérstaklega, aðeins undirstrika að umhverfissjónarmiðin og kostnað vegna bóta á spjöllum hljótum við að líta á sem eðlilegan þátt í virkjunarkostnaði og taka það inn í mat á slíkum framkvæmdum.

Í grg. með þessari þáltill. er vitnað til upplýsinga sem fram hafi komið í fjölmiðlum, m.a. í sjónvarpsfréttum fyrir skömmu, um kostnað raforku hérlendis í samanburði við það sem gerist í löndum, sem ekki er óeðlilegt að við berum okkur saman við, austan hafs og vestan. Ég vil vekja athygli hv. alþm. og þeirrar nefndar sérstaklega, sem fær þetta mál til athugunar, á grein sem birtist í fréttabréfi Orkustofnunar frá síðasta mánuði, sept., fréttabréfi nr. 2 á þessu ári. Þar er grein með yfirskriftinni „Innlegg í umræðu um raforkuverð á Íslandi“, þar sem einn af starfsmönnum Orkustofnunar, Gunnlaugur Jónsson deildarstjóri, fjallar sérstaklega um þessa umræðu og þau dæmi, sem rakin höfðu verið í fjölmiðlum um þessi efni. Hann kemst að þeirri niðurstöðu í þeirri grein að sá samanburður sem fjölmiðlarnir, í þessu tilviki sjónvarpið, byggðu á í sínu dæmi hafi ekki verið á traustum grunni byggður. Hann bendir á að það sé mjög erfitt fyrir þá sem ekki eru þeim mun betur inni í uppbyggingu á töxtum og öllu sem að verðlagningu lýtur að fá skýra mynd af þessu og kemst sjálfur að verulega annarri niðurstöðu en sýnd hafi verið í dæminu sem fram var borið af sjónvarpinu í þessu sambandi. Alveg sérstaklega kemur þar fram, að kostnaðurinn við orkuöflunina er að mati Gunnlaugs Jónssonar til muna stærri þáttur að tiltölu en sýnt var í þessu tiltekna dæmi í fréttum sjónvarpsins, bæði hjá Rafmagnsveitum ríkisins og einnig hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Hjá Rafmagnsveitum ríkisins er kostnaðurinn við orkuöflunina yfir 60% að hans mati, milli 61 og 62%, og tæp 40% hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Það koma einnig fram í þessu yfirliti hans þær upplýsingar, að meðalraforkuverð til neytenda árið 1982 hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur umreiknað í mill á kwst., þ.e. þúsundasta úr dollar, hafi verið 77.3 mill á síðasta ári og 58.4 mill hjá Rafmagnsveitum ríkisins á sama ári, miðað við að meðalgengi dollars sé 12 kr. 56 aurar tæpir.

Það er vert að hafa þessa tölu í huga í því samhengi sem ég benti hér á, sem er orkuverðið til stórnotenda í landinu, annars vegar 77 mill, sem meðalverð hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, sem enga stórnotendur hefur sem kaupanda, og hins vegar þau 6.47 mill eða 6.5 tæplega sem álverið í Straumsvík hefur samning um, og breytist sá samanburður ekki ýkjamikið til batnaðar þó tekið sé mið af því bráðabirgðasamkomulagi til árs sem gert var um raforkuverðið af ríkisstj. 23. sept. s.l.

Ég held, herra forseti, að það sé fátt brýnna fyrir hv. Alþingi en að fjalla um orkumálin og verðlagningu á orku, jafnt til atvinnurekstrar og almennra notenda í landinu, og ekki síður þann geysilega mikla mun sem menn búa við í þessum efnum og mjög hefur verið til umr. sem eðlilegt er á undanförnum árum, þ. á m. varðandi húshitunarkostnað til einstakra notenda, hinn stórkostlega mismunandi húshitunarkostnað eftir veitusvæðum. Og það er fyllilega réttmætt að við lítum til nágrannalanda um samanburð á þessum þáttum. Ég hef séð um það tölur alveg nýlega frá Orkustofnun, að hún meti meðalverð á raforku hérlendis til notenda miðað við síðasta ár, allra notenda, 41 mill um það bil, í Bandaríkjunum rösklega 60 mill og í Englandi 75 mill. Miðað við þessar tölur stendur Ísland ekkert sérlega illa að vígi í heildarsamanburði varðandi meðalverð. En þegar við lítum á hvernig kostnaðurinn skiptist á kaupendurna, á notendurna, verður annað uppi, einnig þegar litið er á kostnaðardreifingu í öðrum löndum. Þar kemur það fram, að til heimilisnota hérlendis borga menn ekki meðalverðið 41 mill sem kaupendur orkunnar, heldur greiða um 100 mill fyrir raforku til heimilisnota á sama tíma og þeir sem taka meira en helminginn af orkunni, stórnotendurnir, ÍSAL og Íslenska járnblendifélagið, borga innan við 10 mill fyrir sama orkumagn. Ég er ekki að segja með þessu að það sé sjálfgert að orkueiningin sé á nákvæmlega sama verði til þessara aðila, en ég fullyrði að sá munur sem þarna er á ferðinni er svo hrikalegur, fer svo langt út fyrir öll þau mörk sem nokkur skynsemi er í hvað þá sanngirni, að ekkert er brýnna fyrir okkur í sambandi við orkumálin í landinu en leiðrétta það dæmi sem þar blasir við.

Við kostum miklu til orkuöflunar á Íslandi og höfum gert það á undanförnum árum. Menn geta rætt það og eiga eflaust eftir að ræða, hversu réttmæt sé sú orkustefna sem Alþingi hefur mótað á síðustu árum, hvort það séu einstakir þættir sem endurskoðunar þurfi við, og ekki hef ég á móti því að yfir það sé farið. Ég tel hins vegar að margt af því sem við höfum gert í orkumálum okkar, Íslendingar, t.d. síðasta áratuginn horfi tvímælalaust til réttrar áttar, það stóra átak sem gert hefur verið til þess að útrýma innfluttri orku úr okkar orkubúskap, og það muni á heildina litið vera hægt að fullyrða að við höfum hagnast á því sem þar hefur verið framkvæmt. Það væri líka slæmt ef svo væri ekki miðað við þær stóru fjárhæðir sem varið hefur verið til þessara framkvæmda. Af um 1200 millj. dollara erlendum skuldum þjóðarinnar í lok síðasta árs var um helmingur eða um 600 millj. lántökur vegna orkuframkvæmda, og það er að sjálfsögðu miklu til kostað að standa undir þeim lántökum og þeirri fjárfestingu sem lánin hafa verið notuð til þess að ráðast í. Það hefur verið metið af Orkustofnun að sparnaðurinn miðaður við húshitunarþáttinn á síðustu 10 árum af þessum framkvæmdum, vel að merkja brúttósparnaðurinn, brúttóávinningurinn, sé um 120 millj. dala, sem hefði þurft til að greiða meira fyrir orkuna ef við ekki notuðum innlenda orku til húshitunar, og sparnaðurinn af framkvæmdum síðustu ára sé um 50 millj. Bandaríkjadala. Auðvitað mun þetta dæmi líta öðruvísi út ef farið er að reikna nettóhagnaðinn af þessu og það er eitt af því sem ástæða er til að gert verði í sambandi við þá greiningu á orkuverði, könnun á einstökum þáttum þess, sem þáltill. sem hér er til umr. gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að segja fleira hér að þessu sinni um þetta stóra mál, sem hér er til umr. Við eigum áreiðanlega eftir að ræða það oft á yfirstandandi þingi, svo sem verðugt er.