07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

Um þingsköp

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að biðja um orðið vegna þess að klukkan er orðin fjögur og ég var næstur á mælendaskrá og ætlaði í minni ræðu að leiðrétta mjög alvarlegan misskilning, ef ekki fölsun í málflutningi tveggja hv. þm. Alþb. Ég sé mig tilknúinn til þess að benda á að þeir hafa nú haldið uppi ræðuflutningi hér um nokkurt skeið um efni sem þegar hafa verið rædd á fundum þingflokksformanna og forseta þingsins. Auk þess þykir mér rétt að minna á að þegar komið hefur verið fram í desembermánuð á ári hverju undanfarin ár, þegar þessir hv. þm. báðir tveir voru hér á Alþingi og sáu um stjórn mála hér, var mjög algengt að fundir væru tvisvar í viku að kvöldi til og stundum langt fram eftir nóttu. Þetta tel ég ástæðu til að láta koma hér skýrt og greinilega fram.