07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mikið er nú hægt að fjölyrða um mál og gera það flókið sem í sjálfu sér er einfalt. Markmið þessa frv. er væntanlega að tryggja svipaða greiðslubyrði skatta á næsta ári og verið hefur, og er það út af fyrir sig góðra gjalda vert. Verðbólga undanfarinna ára hefur unnið með skattgreiðendum og létt þeim verulega greiðslubyrðina og hefur það verið einn af hennar fáu kostum. Minnkandi verðbólga og stöðvun launahækkana leiðir að sjálfsögðu til aukinnar skattbyrði, einfaldlega vegna þess að við greiðum skatta af tekjum þessa árs með tekjum næsta árs.

Megintilgangur þessa frv. er sem sagt að vinna gegn þyngingu skattbyrða með því að lækka skatthlutfall af tekjum og hækka barnabætur og persónuafslátt. Um það má svo sannarlega deila hvort hér sé nóg að gert. Úr því getur framtíðin ein raunverulega skorið. Menn geta reiknað og reiknað og sett upp ótal dæmi, allt eftir því hvað þeir vilja fá fram. Það er nú einu sinni háttur stjórnmálamanna þegar þeir vilja marka sér bás. Útkoman er ekki endanleg fyrr en menn fara að þreifa um tómar buddurnar. Útkoman ræðst af þróun verðbólgunnar á næsta ári og hún ræðst ekki af óskhyggjunni einni saman.

En ef launahækkanir verða ekki meiri á næsta ári en forsendur allar eru miðaðar við, þá er ég hrædd um að stjórnvöld geti ekki hreykt sér af því að skattbyrðin hafi ekki aukist, hvað þá að hún hafi lækkað.

Fjh.- og viðskn. mun að sjálfsögðu taka þetta frv. til gaumgæfilegrar athugunar og ég hlýt að lýsa þeirri eindregnu von minni að skatthlutfallið verði lækkað í meðförum n. Ég held að það sé nauðsynlegt ef markmið þessa frv. á að nást.

Það er svo annað mál þessu skylt sem er ekki síðra áhyggjuefni, og það er hvernig útsvarsálagning sveitarfélaganna verður útfærð. Það skiptir raunar enn þá meira máli fyrir hina tekjuminni en það sem hér er verið að leggja til. Mörg sveitarfélög standa vissulega illa fjárhagslega og þau standa nú frammi fyrir þeirri freistingu að nýta til fulls heimildir til álagningar útsvars. Það má ekki verða. Ég hefði talið eðlilegt að ríkisstj. beitti sér fyrir því að útsvarsprósentan yrði lækkuð fyrir næsta ár. Mér finnst mikilvægt að minna á þetta í tengslum við frv. sem hér er til umr.