07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég held að nú sé svo komið eftir svo langar umr. að ég hljóti að gera grein fyrir atkv. mínu, sem verður á þann veg að ég mun að sjálfsögðu ekki styðja þetta frv. Það er ekki vegna þess að ég sé á móti hækkun skatta, ef allt væri með eðlilegum hætti hér í þjóðfélaginu, heldur er ég á móti því að fyrst séu skert stórlega kjör manna í landinu og síðan séu hækkaðir skattar til að færa fjármagn atþýðu manna yfir til fyrirtækjanna. Það er verið að gera hér. Málflutningur stuðningsmanna stjórnarinnar er gersamlega fráleitur hér í dag. Þeir ganga út frá þeim forsendum að menn séu að greiða skatta af hliðstæðum launum og þeir höfðu á s.l. ári. Það er rangt. T.d. nægir að benda hér á, að í 5. gr. frv. er talað um að barnabætur með börnum einstæðra foreldra skuli þó vera 12 þús. kr. með hverju barni o.s.frv. Í grg. segir síðan með sömu grein: „Hér er gerð till. um hækkun barnabóta. Til að þær haldi raungildi sínu“ — og takið eftir, hv. þm., — „sem hlutfall af tekjum milli áranna 1983 og 1984 þurfa þær að hækka um 20%.“

Þetta er blekking. Ég vil nota sterkari orð: Þetta er lygi. Þær halda auðvitað ekki raungildi sínu þegar þær hækka um 20%, þegar laun þessara sömu einstæðu foreldra hafa lækkað um 30%. Það er auðvitað engan veginn boðlegt að skila grg. með svona bulli og það ættu menn að leggja hér áherslu á.

Svona mætti auðvitað tæta þetta niður, vegna þess að hér hefur satt að segja lítið verið sagt í dag sem er sannleikanum samkvæmt. Það sem blasir við er að kjör launamanna í landinu hafa verið rifin niður og síðan bætist það við, að af þessum skertu launum er verið að hækka skatta.

En annað er enn þá fáránlegra: Hér hef ég setið á fyrri árum sem stuðningsþm. við ríkisstj. sem árlega lagði á menn svokallað sjúkratryggingagjald, sem ég hef ævinlega stutt og mun að sjálfsögðu gera áfram. Þá voru sömu menn og nú koma með frv. til l. um sjúkratryggingagjald að rífa sig hér yfir álögum og skattpíningu þeirrar ríkisstj. Hvað á svona málflutningur að þýða? Hvernig er hægt að bjóða okkur þm. upp á svona vitleysu?

Ég er alveg sannfærð um að það eru líka ósannindi sem segir í frv. á bls. 3 í grg.:

„Skatthlutföll tekjuskatts lækka bæði hjá einstaklingum og félögum.“

Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir í framsögu fyrir frv. til fjárlaga vegna fsp. minnar, þar sem ég gat ekki orðið honum sammála um að álagning á félög hækkaði, að það væri miðað við þau gjöld sem greidd voru, en ekki þau sem álögð voru. Það vill svo til að félögin stóðu verr í skilum en einstaklingar vegna þess að það er erfiðara að ná til þeirra. Það er auðvitað ekki hægt að halda uppi svona málflutningi. Þetta er allt saman eintóm vitleysa. Hins vegar á núv. ríkisstj. að bera þetta frv. fram, standa við það og segja í hverju það er fólgið. Þá geta menn svo gert upp við sig hvort þeir ætla að styðja það eða ekki. En það er ekki hægt að bjóða okkur þm. upp á að halda fram svona endemis vitleysu.

Hitt er svo annað mál og það má kannske segja hæstv. fjmrh. að lokum því að ég ætla ekki að halda hér mjög langa og skemmtilega ræðu: Auðvitað er einhver allra vonlausasta aðferð við að ná niður verðbólgu til einhverrar frambúðar að lækka í sífellu laun manna í landinu. Laun hafa hér verið skert meira, eins og ég hef sagt hér áður, en í nokkru öðru landi Vestur-Evrópu, þó að hér hafi ríkt minni kreppa en í nokkru öðru landi Vestur-Evrópu. Þetta felur í sér að það er verið að taka peninga af launþegum í landinu og færa yfir til fyrirtækja og eignamanna. Allt annað eru ósannindi. Kjarkmaðurinn hæstv. fjmrh., sem hér hefur þó hert sig upp og svarað ýmsu játandi sem aðrir hafa ekki þorað að gera, á líka að svara þessu játandi. Þetta liggur á borðinu og hver meðalgreind manneskja sér þetta.

Ég skal ekki vera að tefja tímann. Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir og ég ætla þess vegna að lýsa því yfir að ég mun ekki greiða þessu frv. til l. um breytingu á sköttum atkv. mitt, ekki vegna þess að ég sé andvíg skattaálagningu. Ég er einfaldlega stuðningsmaður samneyslumanna í þjóðfélaginu, en nota bene: þegar allir borga sinn hlut og taka sama þátt í rekstri þjóðfélagsins. Ég get hins vegar ekki með nokkru móti stutt frv. sem vinnur að því að ríku eignamennirnir greiði minna, en launamennirnir meira á sama tíma og laun þeirra eru skert. Það er alveg ljóst að þeir sem hafa fjármagnið í þessu landi hafa ekki orðið fyrir neinni kjaraskerðingu. Þeir steppa. Það get ég alveg sagt ykkur, hv. þm.