20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég tel að hér sé um að ræða tímabært mál og hugmyndin sem að baki þessari till. liggur er að mínum dómi skynsamleg. Það er alveg óbúandi fyrir fólkið í landinu við það geysiháa raforkuverð sem neytendur verða að greiða nú og við megum einskis láta ófreistað til að reyna að ráða bót á því, finna hvar veilurnar liggja og hvað hægt er að gera til þess að bæta úr þessu ófremdarástandi.

Í till. er lagt til að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga. Þetta er ekki stór nefnd, en samt sem áður sé ég ekki hvar á Íslandi fyndust þrír óháðir sérfræðingar, hvað þá fleiri, því að flestir þeirra sem kallast geta sérfræðingar í þessum málum hafa með einum eða öðrum hætti komið að áætlunum, framkvæmdum eða ákvarðanatöku um einmitt þær framkvæmdir — eða fyrirtæki — sem hér er lagt til að skoða.

Flm. velta fyrir sér nokkrum atriðum sem gætu verið orsakir — og eru það vafalaust að einhverju leyti allar, kannske misjafnlega miklu, en að einhverju leyti eru þetta allt saman atriði sem rétt er að íhuga og sum þeirra þarf áreiðanlega að skoða mjög gaumgæfilega.

Ég skil ekkert í hv. flm. að líta ekki á þann þátt sem hv. fyrrv. iðnrh. benti á. Auðvitað verður að líta á stórnotendurna líka. Rafmagnsmálasaga okkar hefur á seinustu árum verið mikil sorgarsaga og þar hefur ríkt mikil óheillaþróun. Að sumu leyti hefur þetta verið okkur Íslendingum óviðráðanlegt, við höfum verið óheppnir með lán o.s.frv., en að sumu leyti hefur þetta verið sjálfskaparvíti vegna þess að við höfum tekið mislukkaðar ákvarðanir. Sú auðlind sem við héldum að við ættum í vatnsafli og í raforku hefur orðið með einum og öðrum hætti að klyfjum á þjóðina. Það hefur kostað of mikið að beisla orkuna og ráðstafa henni og orkunni hefur verið ráðstafað í sumum tilfellum óskynsamlega til fyrirtækja sem hafa keypt mikið af orku og ekki greitt nægilega fyrir. Sum af þessum fyrirtækjum hafa verið stofnuð beinlínis til að nýta orkuna sem síðan hefur þurft að gefa með til þess að þau gætu staðist.

Hér hefur lítillega borið á góma samninga um Blönduvirkjun og mér skilst að það eigi að vera einhver undanrás í umræðum um þá. Samningar um þessa virkjun eru að vissu leyti meistarastykki, að einu leyti a.m.k., því þeir voru bæði mjög óhagkvæmir fyrir landeigendur og eins fyrir virkjunaraðila. Ég hef áður hvað eftir annað bent mjög ítarlega úr þessum ræðustól á vankanta þessara samninga. Og ég lagði á sínum tíma til að farin yrði önnur leið við virkjunina. Sú leið var kveðin í kútinn af þeim aðilum sem töldu að hún væri of dýr og kusu heldur að verja peningum til skaðabóta og semja um þá virkjunartilhögun sem þeir töldu að væri ódýrust í útfærslu, en gjalda þeim mun meira í skaðabætur. Ég var þessu ósammála á sínum tíma og lagði til að farin yrði önnur leið. En það varð sem sagt ofan á að fara þessa leið og um hana er orðinn sæmilegur friður, a.m.k. í bili, meðan menn ekki fara eitthvað út af sporinu.

En mér þykir nú hæstv. iðnrh., eftir þeim blaðafregnum sem ég hef um hann séð eða frá þeim fundum sem hann hefur haldið, tala nokkuð glannalega um þetta mál. Og mér er nokkur forvitni á að fá að sjá þessa skýrslu, sem Landsvirkjun hefur látið honum í té, og mun fara fram á það við hann að fá hana í hendur, vegna þess að ég held að þarna sé nokkuð orðum aukið og umframkostnaður geti ekki verið orðinn svona mikill og álitamál hvað á að tilheyra bótum og hvað tilheyrir beinum virkjunarframkvæmdum, að umframkostnaðurinn sé eitthvað á skjön.

Ég óttast að ef áætlanir hafa verið svona rangar um þetta atriði, þetta litla atriði sem búið er að vinna við virkjunina, komi til með að verða svolítið krítískt víðar í áætlunum um verkið. Ég hef reyndar lengi haft grun um að framkvæmdin mundi verða dálítið dýrari en sérfræðingar sögðu okkur og lagt var til grundvallar þegar Alþingi tók sína ákvörðun.

Ég legg áherslu á að menn reyni að finna orsakir fyrir því af hverju svona illa er komið í rafmagnsmálum okkar og bæta þar úr eftir því sem þeir hafa vit og getu til. Þess vegna held ég að það sé ekkert of mikið í lagt þó að kosin væri þriggja manna nefnd, eins og hv. Alþfl.-þm. leggja til, eða skipuð, jafnvel þó að lagt yrði í þann kostnað að hafa í nefndinni fleiri aðila en þrjá.