07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. virðist enn velkjast í vafa í sambandi við hækkanirnar á hitunartöxtum. Á móti 17.4% hækkun þeirra koma engar greiðslur. Þessi hækkun stendur eftir þegar búið er að taka tillit til niðurgreiðslnanna sem éta upp 150 milljónirnar sem hann greiðir út úr ríkissjóði. Þannig að það er hrein aukning. (Fjmrh.: Þakka þér fyrir.) Mér þætti gott að hæstv. ráðh. rökstyddi það nánar og þá við annað tækifæri ef hér er ekki tími til þess. Það væri ágætt. Allt gjaldið í hitunartaxta hefur hækkað um 38.5% og sjálft orkugjaldið hefur hækkað um rösk 12%, meðattalið út úr þessu eru 17.4%, að teknu tilliti til niðurgreiðslnanna.

Hæstv. ráðh. bendir á að í fjárlagafrv. fyrir 1984 séu 230 millj. kr. til niðurgreiðslna á rafhitun. Þessa tölu hef ég séð. En áttar hæstv. ráðh. sig á að sú upphæð hrekkur tæpast til að standa undir núverandi niðurgreiðslustigi, hvað þá að mæta nokkurri einustu hækkun á töxtum? Hefur hæstv. ríkisstj. gert sér það ljóst? Öll hækkun sem verður á töxtum, hitunartöxtum sem öðrum, á næsta ári kemur skv. þessu bótalaust til neytenda til greiðslu. Ég ætla ekki að vera með neinar fullyrðingar um hvað gerist 1. febr. þegar frelsið kemur til einokunarfyrirtækjanna sem eiga að fá það, einokunarfyrirtækja eins og Landsvirkjunar og rafveitna og hitaveitna sveitarfélaga því að einkaleyfi hafa þau. Við skulum sjá hvernig þau fara með frelsið, það eru ekki tveir mánuðir þangað til á þetta reynir. Það er best að reynslan skeri úr. En ég held að ástæða væri fyrir hæstv. ríkisstj. og þar á meðal hæstv. fjmrh. að átta sig á þessari stöðu sem við blasir.