07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég held ég fari rétt með þegar ég segi að einokunarfyrirtækin, eins og þau eru nú orðin, sérstaklega Landsvirkjun, af því að hv. þm. Austurl. tók hana sérstaklega til greina, hafi verið búin til af honum sem hæstv. iðnrh. fyrrv. og borgarstjórn Reykjavíkur með miklum andmælum frá mér. Og ég varaði við. Þannig að ég ætla ekki að fara að verja það fyrirkomulag sem er við lýði, ég tel að það sé eins vitlaust eins og hægt er að hafa það og hefði átt að vera búið að breyta því í allt annað form fyrir lifandi löngu. Landsvirkjun sem verktakafyrirtæki átti fyrir lifandi löngu að vera komið af bakinu á orkuframleiðslufyrirtækjunum sem því var falið að byggja á sínum tíma. Þá hefðum við kannske allt annað orkuverð en við höfum í dag. Það er allt annað fyrirkomulag.

En það furðulega við málflutning hv. 5. þm. Austurl. er að þrátt fyrir að hafa verið ráðh. í síðustu ríkisstj. sem fyrir aðeins 6 mánuðum skilaði af sér með 1,2 milljörðum dollara í erlendum lánum, með tæpum 2 þús. milljónum í yfirdrætti í Seðlabanka Íslands og engum öðrum tekjumöguleikum en þessum lántökuleiðum, skuli hann enn þá halda að ríkissjóður geti verið eins konar banki eða tryggingastofnun án þess að hafa nokkrar tekjur til að standa undir. Ég get fullvissað hæstv. fyrrv. ráðh. að enn þá sé ég í botn í ríkiskassanum og ég get jafnvel speglað mig í honum ef ég lít niður. Svo galtómur hefur hann verið síðan ég tók við.

Og hvernig á að fjármagna allt það sem Alþb.-menn ýta svo á að skuli gera fyrir fólkið í landinu? Fólkið í landinu er farið að skilja þetta. Þessi málflutningur nær ekki lengur út fyrir þessa sali, hann nær ekki til þeirra sem eru innan þessara veggja. Fólkið skilur að við erum þjóð í vanda og getum ekki haldið áfram að lofa öllum gulli og grænum skógum. Hv. þm. Alþb. og þá sérstaklega fyrrv. hæstv. ráðherrar verða að fara að skilja þetta líka, koma niður á jörðina og hjálpa til að reisa þjóðfélagið úr þeirri rúst sem þeir skildu það eftir í. Öðruvísi náum við ekki saman. Það þýðir ekki lengur að halda áfram á þessari göngu sem það hafði verið á. Þið verið að fara að skilja hvað er að gerast.