08.12.1983
Sameinað þing: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér er tjáð að máli þessu hafi verið frestað til þess að ég geti borið hönd fyrir höfuð mér. Ég hef lesið þær ræður stjórnarandstæðinga sem um þetta voru fluttar og sé þar ekki margt sem gefur ástæðu til þess. Einkum mun vera vísað til þess að hv. þm. Svavar Gestsson mun hafa sagt að ég hafi átt leynifundi með forstjóra Alusuisse og reyndar var mér tjáð að hann hafi túlkað það sem landráð en hvergi finn ég það í ræðunni. Þetta er mikill misskilningur. Ég átti enga leynifundi með dr. Müller en þegar dr. Müller kom hér heim í nokkur skipti a.m.k. til viðræðna við þáv. iðnrh. óskaði hann eftir því að ræða við einstaka menn hér, m.a. óskaði hann eftir að ræða við mig sem ég taldi sjálfsagt og fór ekkert leynt með það. Enda taldi ég að ég fengi þá tækifæri til þess að leggja áherslu á mikilvægi hækkaðs raforkuverðs sem í mínum huga hefur ætíð verið aðalmálið í þessu.

Ég veit ekki hvort ég á að fara að tala ítarlega um þetta mál. Það er búið að ræða um það lengi en ég vil þó segja það að ég tel mig hafa stutt hæstv. fyrrv. iðnrh. dyggilega í þessu máli allt frá því að hann lagði fram sína ákæru í ríkisstj. í desember 1980. Mér var að vísu legið á hálsi fyrir það og ýmsir töldu að ég væri ekki raunsær í þessum stuðningi og það væru ekki þau heilindi í þessari viðleitni hjá fyrrv. iðnrh. sem vitanlega hlutu og áttu að vera þar en ég tók aldrei undir það. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi orðið ýmis mistök í þessu máli sem hafi orðið okkur Íslendingum ákaflega kostnaðarsöm — upp á hundruð millj. — en ég ætla ekki að ræða það hér nánar; það er búið að ræða það ítarlega. Hins vegar skildu leiðir okkar þegar þáv. iðnrh. taldi ekki fært að taka upp þær hugmyndir sem komu fram í till. Alusuisse ef ég man rétt frá 10. nóv. 1982. Þá urðu þáttaskil í málinu má segja því að þar var stungið upp á hlutum sem mér þóttu aðgengilegir með nokkrum breytingum, þ.e. leggja deilumálin um súrálshækkun í hafi og fleira þess háttar til hliðar í gerð og komast að aðalmálinu, þ.e. hækkun raforkuverðs sem ég hef alla tíð talið að væri aðalmálið og skipti okkur Íslendinga langsamlega mestu. Ég er ekki með því að gera lítið úr því að endurskoða framtal ÍSALs eins og gera bar árlega og því miður var ekki ætíð gert eins og samningar gera ráð fyrir. Engu að síður er það langsamlega stærsta hagsmunamál okkar Íslendinga að fá raforkuverðið hækkað.

Ég var ekki sammála þeim úrslitakostum sem sendir voru til baka til Alusuisse ef ég man rétt 21. des. 1982 og það voru margir fleiri innan þeirrar ríkisstj. ósammála þeim en komu ekki að þeim aths. sem þeir vildu.

Ég stend nú aðeins upp af því að málinu var frestað mín vegna til að leiðrétta að það hafi verið um nokkra leynifundi að ræða. Því fer víðs fjarri og ég tel mig hafa reynt að stuðla að því að fram næðist mikilvægasti þáttur þessara mála, hækkun raforkuverðs.