08.12.1983
Sameinað þing: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er athyglisvert þegar komið er við kaunin á hæstv. ráðherrum Sjálfstfl., að farið er að tala um að varaþm. eigi að hafa sig hæga. Hæstv. fjmrh. sagði hér í gær að varaþm. ættu nú ekki að vera að tala hér um skattamál og hæstv. iðnrh. segir nú að varaþm. ættu ekki að vera að tala um þetta mál hér.

Hverjir eru það sem hafa hafið varaþm. til mestrar virðingar hér á Alþingi? Það eru hæstv. ráðherrar Sverrir Hermannsson og Albert Guðmundsson. Í fyrsta lagi fólu þeir varaþm. Geir Hallgrímssyni að mynda ríkisstj. í sumar og voru ánægðir með það, í öðru lagi kusu þeir varaþm. Geir Hallgrímsson ráðh. og voru ánægðir með það og í þriðja lagi, á litlum klíkufundi sem var haldinn í skoti hérna niðri í húsinu, úthlutuðu þeir varaþm. Geir Hallgrímssyni utanrrh.-embættinu og voru ánægðir með það. Þessir menn ættu því að hætta að tala um varaþm., nema þetta séu allt saman dulbúnar árásir á Geir Hallgrímsson. (Gripið fram í.) Ja, það er að vísu stundum erfitt að átta sig á því hvar alvaran liggur hjá hæstv. iðnrh. Satt að segja minnir margt af því sem hann sagði hér í ræðustólnum áðan og hefur gert í þessu álmáli á ýmsa hótfyndni sem hann flutti á þingum áður og hefur greinilega flutt með sér yfir í ráðherrastólinn.

Hæstv. ráðh. fullyrti hér í ræðustólnum að hann hefði fengið þetta plagg frá Coopers & Lybrand í júní. Hann sagðist muna það vel. Hann hefði verið að koma frá útlöndum þennan dag. Þeir sem þekkja sögu Sjálfstfl. í jan. 1980 muna að hæstv. iðnrh. og þáv. þm. heldur dagbækur, sem hann las upp úr á flokksráðsfundi Sjálfstfl. við það tilefni þegar hann var að rifja upp samtöl sín og skilmála við myndun ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens. Það var sjálfsagt samkvæmt sama góða minninu og dagbókarfærslunum sem hæstv. ráðh. fullyrti áðan og hann myndi vel að hann hefði fengið þessa skýrslu í júní. (Gripið fram í: Hann sagði það áðan.) Ég kallaði fram í og ráðh. brást ókvæða við og leiðrétti sig og sagði: Kannske í júlí. Og ef við hefðum ekki haldið. áfram að grípa fram í fyrir hæstv. ráðh. hefði hann farið héðan úr ræðustólnum með það bókfært í þskj. að hann hefði fengið þetta plagg í júní eða júlí. Og ég spyr: Er hæstv. ráðh. svo illa heima í öllum öðrum þáttum þessa máls að hann hefur það ekki í fingrum sér hvenær hann fékk lykilskjal í þessu máli, heldur heldur því hér fram hvað eftir annað, þótt þm. hér úr stjórnarandstöðunni séu að hjálpa honum til að leiðrétta hann, að hann hafi fengið þetta plagg í júní eða júlí? Það er kannske skiljanlegt að minnið bresti eitthvað hjá hæstv. ráðh. varðandi þetta mál, því að það er mjög algengt eins og áður sagði að menn reyni að týna óþægilegum atburðum í undirdjúpum sálar sinnar. Þessi skýrsla og dagsetningarnar í kringum hana eru nefnilega ærið óþægilegur atburður fyrir hæstv. iðnrh., svo óþægilegur atburður að hann skuldar þinginu skýrari og betri svör varðandi þetta mál.

Þegar loksins var búið að róta aðeins upp í minninu hjá hæstv. ráðh. hér áðan í umr. og leysa þá sálarflækju sem er í kringum þessa skýrslu sagði hæstv. ráðh. að hann hefði fengið þessa skýrslu 14. sept. Ég vil minna hv. alþm. á að seinni hluta ágústmánaðar og fyrri hluta septembermánaðar var lykiltímabil í samningum íslensku ríkisstjórnarinnar við Alusuisse. Það var úrslitatímabilið, þegar þessi hæstv. ríkisstj. var, svo að ég noti nú uppáhaldsorðtæki hæstv. iðnrh., að reyna að ná vopnum sínum í samningum við Alusuisse. Maður skyldi þess vegna hafa haldið að þessar vikur væru hæstv. ráðh. og samstarfsmenn hans svo vakandi yfir öllu málinu að þeir hagnýttu öll gögn sem í hendur þeirra bærust málinu til framdráttar og íslenskum málstað til rökstuðnings. Og nú, herra forseti, ætla ég að fara með nokkrar dagsetningar fyrir hæstv. iðnrh. og biðja hann að útskýra hér á eftir hvernig stendur á því að slíkt aðgerðarleysi var ríkjandi í hans rn. sem þessar dagsetningar bera með sér.

Það er greint frá því í Þjóðviljanum 7. sept., en blaðamaður blaðsins hafði samband við iðnrn. daginn áður, að skýrsla frá Coopers & Lybrand hafi borist stjórnvöldum í fyrri mánuði, í ágúst eða m.ö.o.: hæstv. iðnrh. þurfti ekki annað en lesa dagblöðin til að fá vitneskju um að hans ráðuneyti væri búið að fá þessa skýrslu í ágúst. Engu að síður kemur hæstv. ráðh. hér og segist ekki hafa vitað neitt um þessa skýrslu fyrr en 14. sept. En því hefur aldrei verið mótmælt, hvorki af iðnrn. né hæstv. ráðh., sem stóð í frétt Þjóðviljans 7. sept., að stjórnvöldum hefði borist skýrslan í ágúst. Og ég spyr: Hver tók við þessari skýrslu í ágúst, hæstv. iðnrh.? Hvernig stóð á því að hæstv. iðnrh. var ekki fengin skýrslan - eða er það kannske staðreyndin að hæstv. iðnrh. vildi ekki fá að sjá skýrsluna, hann vildi ekki fá þær sterku röksemdir fyrir málstað Íslands sem í skýrslunni fólust, hann vildi ekki fá sannað á Alusuisse á þessum lykilvikum svikasamninga þessarar ríkisstj. við Alusuisse, að Alusuisse hefði enn á ný stolið undan, hefði enn á ný verið staðið að sekt, yrði enn á ný að færa svikaskuld á reikning Alusuisse hjá íslenska ríkinu? Hæstv. ráðh. vildi ekki fá það upp á borðið og hann dró það þangað til í nóv. að skýra þjóðinni og þinginu frá þessari skýrslu um hin nýju svik. Hvers vegna, hæstv. ráðh.? Hæstv. ráðh. sagði hér áðan að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. iðnrh., hefði getað samið skýrsluna bæði fyrir Coopers & Lybrand og fyrir Alusuisse. (Gripið fram í: Hvað er að þér?) Ef skýrslan var þá svona léttvæg, svona ómerkileg, eins og hæstv. ráðh. lét að liggja áðan, hvers vegna mátti þá ekki segja frá henni? Hvers vegna var þá verið að fela hana þangað til í nóv.? Hvers vegna neitaði iðnrn. að gefa upplýsingar í málinu? Hvers vegna var skýrslunni stungið undir stól? Hvers vegna var neitað langt fram eftir öllum sept. að skýrslan hefði borist til rn. í ágúst? Hvers vegna var verið að fela hana þangað til í nóv.? Hverju var hæstv. ráðh. að leyna? Auðvitað er skýringin sú, að það passaði ekki í kram svikasamninganna, sem þessi hæstv. ríkisstj. var að gera í Zürich að afhjúpa nokkrum vikum áður en átti að undirrita samningana að Alusuisse hefði enn á ný verið staðið að svikum.

Og svo kemur þriðjudagurinn 13. sept., hæstv. ráðh. Það stendur líka í blöðunum, hæstv. ráðh. Hann þarf ekki að fletta upp í neinu minni eða einkadagbókum um það. Það stendur í Þjóðviljanum 13. sept., hæstv. ráðh.: „Mér hefur ekki gefist kostur á að líta á hana, hún er svo nýlega komin fram,“ segir hæstv.iðnrh. við blaðið. Er það virkilega svo, að hæstv. iðnrh. hafi verið svo önnum kafinn helminginn af sept. og góðan hluta af ágúst að hann hafi ekki mátt vera að því að líta á skýrslu um eitt stærsta mál sem hann hafði með að gera þegar yfir stóðu samningar sem gátu skilað íslenska ríkinu millj. dollara, ef rétt var á haldið, í auknar tekjur, sem hefðu getað hjálpað verulega til að létta gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar og styrkja orkureikning landsmanna? Var hæstv. iðnrh. þá svo önnum kafinn að hann mátti bara ekkert vera að því að líta á þessa skýrslu, eins og hann segir hér í blaðinu 13. sept.? Hvað var svona mikið að gerast hjá hæstv. ráðh.? (Gripið fram í: Laxveiði.) Hér segir einhver þm. að ráðh. hafi verið í laxveiði. Við höfum að vísu mátt sjá skemmtilegar myndir af kommissaralaxveiðinni í víðlesnasta dagblaði landsins síðustu daga, en ég trúi því varla að laxveiðin hafi tekið þrjár vikur þó skemmtileg sé. Og þótt hv. þm. Tómas Árnason og ritstjóri Morgunblaðsins séu skemmtilegir veiðifélagar hlýtur það að vera eitthvað annað sem hæstv. iðnrh. var að gera. Hvað var hann að gera? Vill hann ekki fletta upp í hinu góða minni, sem hann var að lýsa hér áðan, eða sínum bókum og skýra hv. Alþingi frá því, hvaða annir voru svo mikilvægar, að ráðh. hafði ekki tíma vikum saman til að skoða þetta lykilgagn í málinu? Og ég spyr á ný: Hvernig stóð svo á því að það er fyrst núna í nóv. sem hæstv. ráðh. kemur til þingsins og þjóðarinnar og segir frá þessari skýrslu? Ef hún var svona ómerkileg, sem hæstv. ráðh. var að láta liggja að áðan, hvers vegna mátti ekki senda hana út sem fréttatilkynningu frá iðnrn. með kærri kveðju, Sverrir Hermannsson? Nei, það varð að bíða, ekki bara í nokkrar vikur ekki bara í nokkra daga, heldur í tvo mánuði, þangað til væri farið að fyrnast yfir Zürich-samninginn, þangað til hæfilegur tími væri liðinn frá Zürich-samningnum, þessum sem hæstv. ráðh. kallaði á blaðamannafundinum sem hann hélt, og fórnaði höndum til himins eins og dagblað hefur sýnt, ótrúlegt afrek.

Það voru þau einkunnarorð sem hæstv. iðnrh. gaf þessum samningi 13. sept.: Ótrúlegt afrek. En hvað sagði hann hér og nú um þennan sama samning, sem var afrek í sept.? Jú, hæstv. ráðh. sagði hér fyrir skömmu: Hann gekk allt of skammt. Hógvær og lítillátur sagði hæstv. ráðh.: Hann gekk allt of skammt. En það var afrek í sept., meira að segja ótrúlegt afrek. Hvað hefur gerst á þessum tveimur mánuðum, hæstv. iðnrh., úr því að það sem ráðh. taldi þjóðinni trú um í sept. að væri ótrúlegt afrek er nú allt í einu orðið samkomulag sem gengur allt of skammt? Er þetta kannske orðið eins og hjá fjmrh., að hlutirnir hlaupi upp og niður eftir því hvernig árar? Vill ekki hæstv. ráðh. koma upp í ræðustólinn og útskýra fyrir þinginu það sem hann sagði þjóðinni í sept., þegar ekkert þing var, í hverju þetta ótrúlega afrek fólst? Þingið hefur ekki fengið neina skýringu á því. Það var hins vegar reynt að telja þjóðinni trú um það. En ráðh. hefur ekki treyst sér hér á hinum lýðræðislega vettvangi þjóðarinnar að rökstyðja það, heldur kemur núna og segir: Allt of skammt.

Nei, hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson. Þessar dagsetningar skera í augun. Þessar dagsetningar krefjast rækilegra útskýringa. Og þessar dagsetningar vekja grunsemdir um að það sé eitthvað annað en fjárhagslegir hagsmunir Íslands og almennings í landinu sem stýri gjörðum hæstv. ráðh. í álmálinu, hæstv. ráðh. sé svo fjötraður af eigin pólitískum leikfléttum með forustu Framsfl. fyrr á þessu ári — á síðasta þingi — að hann geti í raun og veru ekki sinnt raunverulegum hagsmunum íslensku þjóðarinnar í þessu máli, en þurfi sífellt að vera að setja á svið pólitískar leiksýningar, kryddaðar orðatiltækjum úr fornsögum og hástemmdum yfirlýsingum til að dylja að hann er sjálfur orðinn fangi eigin orða, hann er sjálfur fangi þeirrar sögu sem hann óf með núv. hæstv. sjútvrh. og núv. hæstv. forsrh. fyrr á þessu ári.

Og svo segir hæstv. ráðh. hér að hann hafi auðvitað sent Alusuisse þessa skýrslu, — sem lög gera ráð fyrir, sagði hæstv. ráðh. í stólnum. Og ég spyr: Hvaða lög, hæstv. ráðh.? Vill ekki hæstv. ráðh. lesa upp þá samningsgrein sem knúði ráðh. til að senda þetta til Alusuisse, þannig að þingheimur megi fá að heyra þann lagabókstaf sem ráðh. var að vitna til áðan? Er hann til, hæstv. ráðh.? Ég held ekki. Ég held að hann sé hvergi til. Hæstv. ráðh. er kannske svo illa heima í þessu máli, eins og dagsetningatal hans gaf til kynna hér áðan, að hann viti ekki að samkv. þeim samningi sem gerður hefur verið hefur Alusuisse allan aðgang að endurskoðuninni meðan hún fer fram, þannig að það þurfti ekkert að senda þetta sérstaklega til Alusuisse. Það vár bara yfirskin hæstv. ráðh., afsökun til að dylja fyrir þjóðinni hvað fólst í þessari skýrslu. Það var áframhald á sama feluleiknum. Og dagsetningaleikurinn sem ég var að rekja áðan gaf til kynna lítillætið og hógværðina, að hafa ekki séð skýrsluna, að hafa ekki lesið skýrsluna, vita ekki af skýrslunni og nú væri skýrslan komin til Alusuisse og yrði að vera þar o.s.frv., af því samningurinn, sem hæstv. ráðh. gerði við Alusuisse, stóðst ekki það að á sama tíma væri þjóðinni sagður sannleikurinn um hin nýju svik.

Hæstv. ráðh. Sverrir Hermannsson stendur ber að því að hafa falið fyrir þjóðinni vikum og mánuðum saman þessa skýrslu. Og ég spyr til viðbótar: Faldi hæstv. ráðh. þessa skýrslu líka fyrir samningamönnum Íslands? Fengu þeir menn sem hæstv. ráðh. hafði skipað í sumar til að semja við Alusuisse ekki heldur þessa skýrslu í hendur, þó að hún hafi komið í rn. í ágúst? Var kannske þannig haldið á málum af hálfu hæstv. ráðh. að þeim sem áttu að nota öll vopn sem tiltæk væru til að þrýsta á Alusuisse í samningunum væri meinað að vita af þessari skýrslu, þeim væri meinað að fá þessa skýrslu í hendur til að geta notað hana á lokastigi samninganna í ágúst og sept.? Það er sú spurning sem hæstv. ráðh. hefur ekki svarað enn. Hvenær fékk samninganefndin þessa skýrslu? Og hvers vegna var verið að leyna samninganefndina því að ný svik hefðu verið afhjúpuð hjá Alusuisse?

Það eru margar spurningar sem hæstv. ráðh. á enn eftir að svara í þessu máli. Og illt hefur það upphaf verið sem hæstv. ráðh. hefur staðið að í einhverju mesta fjárhagslega hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar, þegar það kemur í ljós nú í nóv. að í samskiptum sínum við þjóðina hefur hæstv. ráðh. fyrst og fremst kappkostað að leyna því að ný gögn væru komin fram í málinu. En hæstv. iðnrh. ætti að hugleiða að það sækir enginn ráðh. sigursamning í hendur Alusuisse nema með þjóðina á bak við sig, nema með Íslendinga svo sameinaða í þessu máli að hinn erlendi auðhringur sjái sig knúinn til þess að gera samning sem Íslendingar geta með réttu kallað sigursamning. En hæstv. ráðh. hefur brugðist þeim trúnaði. Hæstv. ráðh. hefur ekki sýnt þjóðinni það traust að deila með henni gögnum í málinu fyrr en um seinan.

Það getur vel verið að hæstv. ráðh. telji að hann geti sótt sigursamning í hendur Alusuisse án þess að njóta slíks trúnaðar hjá íslensku þjóðinni og slíks stuðnings, en það gerir hann ekki. Og við sem teljum að deilan við Alusuisse sé eitt stærsta hagsmunamál og sjálfstæðismál íslensku þjóðarinnar höfum alveg verið reiðubúnir að eiga við hæstv. ráðh. eðlilega samvinnu, veita honum eðlilegan stuðning, vera hluti af því baklandi sem sérhver fulltrúi íslensku þjóðarinnar þarf á að halda ef hann á að geta náð slíkum sigursamningi. En hæstv. ráðh. hafnaði því að fyrra bragði að fá þann stuðning Hann hafnaði því fyrst með því að velja samninganefnd sem eingöngu var skipuð trúnaðarliði ríkisstjórnarflokkanna. Þátttöku stjórnarandstöðunnar í samningunum var algerlega hafnað. Aðgangi stjórnarandstöðunnar að gangi samninganna var algerlega hafnað. Hæstv. ráðh. hefur hafnað þjóðarsátt um hvernig á álmálinu væri haldið. Hann átti kost á því. Alþb. fyrir sitt leyti útilokaði alls ekki að eiga slíkt samstarf við hæstv. iðnrh. Alþb. útilokaði alls ekki að leggja fyrir ráðh. í fullum trúnaði, í fullri einlægni, þá reynslu, þá þekkingu sem aflað hafði verið af þeim sem báru fyrst og fremst ábyrgðina á þessari glímu á undanförnum árum.

Menn geta deilt um hvernig haldið hefur verið á málum í það og það sinn. Það er alltaf hægt. En það verður ekki um það deilt að á undanförnum árum hefur verið safnað mikilli þekkingu, mikilli reynslu, miklu forðabúri, sem gæti hafa komið ráðh. að góðu gagni til viðræðna, til íhugunar og til samráðs, en hæstv. ráðh. hafnaði því. Hæstv. ráðh. vildi ekki þjóðarsamstöðu í álmálinu. Hvorki við þá fulltrúa, sem tæpur helmingur þjóðarinnar hefur kosið á Alþingi og skipa bekki stjórnarandstöðunnar, né heldur við þjóðina sjálfa, almenning í þessu landi. Ráðh. hefur í tvígang brugðist trúnaði sínum við þjóðina sjálfa í þessu máli, fyrst með því að gefa þjóðinni rangar upplýsingar um eðli samningsins sem gerður var í Zürich og reyna í áróðurstilgangi að stimpla hann sem ótrúlegt afrek og svo með því að fela þá skýrslu sem hér hefur verið gerð að umræðuefni.

Það væri æskilegt að hæstv. iðnrh. svaraði ýmsum af þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram. Það væri æskilegt að hæstv. iðnrh. upplýsti í heild þetta skýrslumál vegna þess að það er lykillinn að tökum ráðh. á málinu, einkum og sér í lagi með tilliti til þess að þessir atburðir áttu sér stað á þeim vikum sem voru úrslitavikur í samningalotunni sem leiddi til samkomulagsins í Zürich.

Hæstv. ráðh. notaði það orðatiltæki hér áðan að Alþb. hefði af ráðnum hug, eins og hæstv. ráðh. sagði, sett málið í hnút. Það eru auðvitað ómerkilegar ásakanir, léttvægar ásakanir. En það er sérkennilegt að hæstv. ráðh. skuli detta það í hug og ég spyr þess vegna hæstv. ráðh.: Var það, svo að notað sé hans orðalag, af ráðnum hug sem hann kynnti sér ekki innihald þessarar skýrslu? Var það af ráðnum hug í öðru lagi, hæstv. ráðh., sem samninganefndin, sem stóð í hinni miklu glímu í ágúst og fyrstu viku í sept., fékk ekki heldur að sjá þessa skýrslu? Og var það í þriðja lagi af ráðnum hug, hæstv. ráðh., sem þjóðin fékk ekki að vita um þessa svikaskýrslu fyrr en nú í nóvembermánuði? Eða var þetta allt saman aumingjaskapur og hreinar tilviljanir, ruglandi í dagsetningum, júní, júlí, ágúst, september? Hæstv. forsrh. hóf þessar umr. hér í dag. Það er stundum gott að hafa verið í Framsfl. (Gripið fram í: Finnst þér það?) Já, það var góð reynsla. Það var dýrmæt reynsla. Og ég er viss um að ýmsir hér inni litu veröldina öðrum augum ef þeir hefðu verið í Framsfl. (TÁ: Það er enginn vafi.) Nei, það er alveg rétt, hv. þm. Tómas Árnason, það er enginn vafi. Og við munum báðir, hv. þm. Tómas Árnason, þann mikla slag sem stóð í Framsfl. á miðjum áratugnum 1960–1970 um samninginn við Alusuisse. Við munum það vegna þess að þá stóðum við, ég og hv. þm. Tómas Árnason, saman. Þá vorum við ásamt ýmsum öðrum góðum mönnum í þeirri fjölmennu og traustu bakvarðasveit sem stóð á bak við þáv. formann flokksins, Eystein Jónsson, og studdi hann ötullega og drengilega í því að hafna þessum samningi. Þá vorum við í þeim yfirgnæfandi meiri hluta innan Framsfl. sem hafnaði þessum samningi og sem hafnaði honum nánast á þeim forsendum að hann væri landráðsamningur, hv. þm. Tómas Árnason, hann væri landráðasamningur í þeim skilningi að það væri verið að selja auðæfi íslenskrar þjóðar á svo lágu verði og gefa erlendum auðhring slík ítök í íslensku efnahagslífi að sjálfstæði íslenskrar þjóðar yrði aldrei hið sama eftir sem áður.

En það var einn maður innan Framsfl., sem hægt var að telja til þess stóra hóps — 100–200 manna — sem kom saman til að móta stefnu flokksins, sem var á annarri skoðun. Hann var einn í stuðningi sínum við Alusuisse. Hann var einn í því að reyna að telja Framsfl. trú um að þetta væri góður samningur, það yrði að selja útlendingum auðæfin, þetta væri fínt verð, þetta væri sjálfsagt mál og Framsfl. ætti að styðja þennan samning. Hver var þessi eini, sem fyrir 20 árum eða svo var þá þegar farinn að flytja rök Alusuisse inn í íslensk stjórnmál? Það var Steingrímur Hermannsson, hæstv. núv. forsrh. Við sem munum þá sögu í Framsfl. skynjuðum þá strax hið undarlega kapp, hinn mikla þunga sem núv. hæstv. forsrh. lagði á að vinna hagsmunum Alusuisse brautargengi innan Framsfl. En þá hafnaði flokkurinn þeim sjónarmiðum nánast allur. Og það sýnir betur en nokkuð annað þá breytingu sem orðið hefur á Framsfl. að nú skuli ekki heyrast ein einasta rödd sömu ættar og það andóf sem við stóðum að þá, 1965 og 1966, hv. þm. Tómas Árnason og ég, hæstv. ráðh. Alexander Stefánsson, hv. þm. Páll Pétursson, hv. þm. Stefán Valgeirsson, hv. þm. Guðmundur Bjarnason o. fl.

Það verður að segja núv. hæstv. forsrh. til hróss, að ég efast um að hægt sé að finna nokkurt dæmi í íslenskum stjórnmálum um að einum manni skuli hafa tekist, með hjálp Alusuisse að vísu, að gera Framsfl. jafnalgjörlega og gert hefur verið að herfangi hins erlenda auðhrings. Eftir þessi 20 ár stendur fulltrúi Alusuisse innan Framsfl. 1965–1966 sem sigurvegarinn í þessu máli. Og öll hjörðin sem fylgdi Eysteini Jónssyni þá, Þórarni Þórarinssyni og reyndar Ingvari Gíslasyni forseta neðri deildar Alþingis nú, fylgdi þeim í þjóðfrelsisbaráttunni, hinni efnahagslegu sjálfstæðisbaráttu, situr nú þögul þegar hin nýja forusta Framsfl. gengur braut Alusuisse. Og okkur sem þekktum innviðina í Framsfl. — þess vegna sagði ég áðan að gott væri að hafa þekkt þá — sýnir þetta betur en nokkuð annað hvers konar breyting hefur orðið á þessum flokki, hvers konar hægri umturnun, hvers konar afneitun á efnahagslegri sjálfstæðisstefnu og baráttu gegn erlendu valdi hefur orðið í þessum flokki.

Auðvitað vita það allir sem vilja vita, að Alusuisse hefur kappkostað öll þessi ár að koma upp hópi manna sem forstjóri Alusuisse hefur kallað á aðalfundi fyrirtækisins „vini okkar á Íslandi“. Það er ekkert leyndarmál af hálfu Alusuisse á aðalfundum fyrirtækisins úti í Zürich að þegar flutt er skýrsla fyrir hönd stjórnar getur stjórnarformaðurinn sérstaklega um vini sína á Íslandi, — ekkert feimnismál, m.a.s. talinn einn helsti kostur fyrirtækisins að hafa komið sér upp slíkri vinahjörð innan þessa litla ríkis. Sá sem var meðal hinna fyrstu í þeirri vinalijörð er núv. hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson. Það er heldur ekki neitt leyndarmál fyrir þá sem fylgdust með álmálinu á s.l. árum að Alusuisse kallaði hvað eftir annað eftir þessari vináttu. Alusuisse lagði hvað eftir annað prófraun fyrir vini sína. Og prófið fólst í því, hverjir væru reiðubúnir að gera fyrrv. hæstv. iðnrh. Hjörleifi Guttormssyni svo erfitt fyrir í álmálinu að hann gæti ekki náð samningum. Það var prófið. Framsfl. stóðst þetta próf með glæsibrag — slíkum glæsibrag að það yfirskyggði nánast þjónustu sjálfstfl. við Alusuisse. Hvernig framkvæmdi Framsfl. þetta próf? Jú, núv. hæstv. forsrh. sat á sérfundum með forstjórum Alusuisse þegar þeir komu hingað til lands. (Forseti: Má ég spyrja hv. ráðamann hvað hann álítur að hann muni þurfa langan tíma í viðbót nú fyrir ræðu sína. Ég vil láta þess getið að ég hugði að hægt væri að ljúka umr. fyrir klukkan fjögur, en tveir eru enn þá á mælendaskrá. Við höfum þegar rætt þetta mál í fjóra daga og a.m.k. yfir tíu klst., þannig að það hafa óvenjumiklar umr. farið fram.)

Herra forseti. Fyrirrennari hæstv. forseta í forsetastól á Alþingi taldi þetta mál svo mikilvægt fyrr á þessu ári að hann hélt lengsta næturfund í allri forsetasögu sinni á undanförnum árum til að fjalla um þetta mál. Og fyrirrennari hæstv. forseta, núv. dóms- og kirkjumrh. Jón Helgason, gerði sér sérstakt far um að halda fram fundi til kl. 6 að morgni laugardags til þess að hægt væri að tala um þetta mál. Og voru þó aðeins þrír búnir að tala, herra forseti. T.d. komst ég ekki að í þeirri umr., þó löng væri. Ef ætti að svara hæstv. forseta af fullri hreinskilni er ljóst að um þetta mál má tala lengi dags, ef vilji ræðumanns væri að láta allt það koma fram sem ræðumaður vill láta koma fram í málinu. Hins vegar getur vel verið að ég geti annaðhvort gert hlé á ræðu minni nú eða gert hana styttri í trausti þess að umr. fái að halda áfram, herra forseti. (Forseti: Hv. þm. hefur ekki svarað minni spurningu. Spurningin var aðeins, hvort hann gæti gefið mér hugboð um hvað hann mundi tala lengi. Það hentaði mér að vita það vegna stjórnar á fundinum. Það er misskilningur hjá hv. ræðumanni, ef hann hefur haldið að það vekti fyrir mér að takmarka hans ræðutíma. Allt sem hann sagði af þessu tilefni á því ekki heima sem svar við spurningu minni.) Herra forseti. Ég var eingöngu að gefa til kynna að ég gæti verið til samkomulags við forseta um að stytta ræðu mína nú í trausti þess að umr. héldi þá áfram síðar. Það var eingöngu það sem ég var að gefa til kynna. Ég er alveg reiðubúinn í ljósi þess að reyna að ljúka ræðu minni einhvern tíma á tímabilinu 10 mín. í fjögur til kl. fjögur. (Forseti: Hér er ekki um það að ræða að gera neitt samkomulag við hv. ræðumann um þetta. Ræðumanni er frjálst að tala og hann hefur orðið.) Já, ég þakka hæstv. forseta fyrir það.

Ég var kominn að því í þessari umfjöllun að gera grein fyrir því hvernig Framsfl. hefði fyrr á þessu ári hrundið í framkvæmd samkomulagi sínu við Alusuisse. Og ég segi samkomulagi Framsfl. við Alusuisse vegna þess að það var alveg ljóst á allri meðferð Framsfl. á þessu máli að samkomulag hafði verið gert milli forustumanna flokksins og forráðamanna Alusuisse og ÍSALs. Þetta samkomulag átti að fela í sér að taka málið úr höndum þáv. hæstv. iðnrh. og koma því í hendur einhverra úr þeim hópi sem forstjórar Alusuisse hafa kallað „vini okkar á Íslandi“.

Fyrsta skrefið á þessari braut opinberlega var þegar Guðmundur G. Þórarinsson, þáv. hv. þm., sagði sig úr álviðræðunefndinni. Sú afsögn kom þingflokki Framsfl. þá á óvart. Það var enginn í þingflokki Framsfl. þá sem vissi af þeirri afsögn. Þannig er ljóst að upphafsskref þessa samkomulags hafa greinilega verið tekin innan innsta hrings flokksins í þessum efnum, af því þríeyki sem myndaði forustu flokksins þá í reynd, hæstv. ráðh. Steingrími Hermannssyni, hæstv. ráðh. Halldóri Ásgrímssyni og fyrrv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni. Það kom þó í ljós á fáeinum dögum að Framsfl. sætti sig við og studdi þessa ákvörðun.

Næsta skrefið var að varaformaður Framsfl., þáv. þm. Halldór Ásgrímsson, gerði samkomulag um það við stjórnarandstöðuna á Alþingi, að flytja tillögu sem fól í sér að taka málið úr höndum iðnrh. Svo mikið kapp var á það lagt að fá þessa tillögu samþykkta, að haldinn var hér lengsti næturfundur síðasta kjörtímabil, herra forseti, til að reyna að knýja fram umr. um það mál. Það var ekki fyrr en ég tilkynnti fyrirrennara hæstv. forseta að við Alþb.-menn óskuðum eftir því að morgunverður yrði fram borinn hér í þinghúsinu, svo að hægt væri að halda umr. áfram, að þáv. hæstv. forseti sá að sér og lauk umr., þegar dagaði hér á Austurvelli þann laugardagsmorgun.

En engu að síður var ljóst að Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu og forusta Framsfl. höfðu svarist í bræðralag til að tryggja að hagsmunagæslan gagnvart Alusuisse kæmist í hendur vina Alusuisse.

Þriðja skrefið var fólgið í því að mynduð var sú ríkisstj. sem nú situr. Forsrh. þeirrar ríkisstj. var traustasti, elsti og besti vinur Alusuisse innan Framsfl. í tvo áratugi og sjútvrh. þeirrar ríkisstj. var sá maður sem hér á þingi hafði gert bandalag við stjórnarandstöðuna til að ná fram tillögu til stuðnings málstað Alusuisse. Hefur reyndar síðar verið bætt um betur í þeim efnum með því að tengja stækkun álversins sérstaklega vanda íslensks sjávarútvegs.

Það kom fram fyrr í umr. á Alþingi að hæstv. núv. forsrh., þáv. hæstv. sjútvrh., hafði átt fund með fulltrúa Alusuisse áður en boðað var til formlegs fundar um málið. Það var ekki í eina skiptið. Og það verður að segjast að það eru nokkuð sérkennileg vinnubrögð ríkisstj. sem á í samningum við erlenda aðila að ráðh. láti hafa sig í það að vera að hitta viðræðuaðilana á fundum sitt í hvoru lagi og leyfa hinum erlenda auðhring þess vegna að beita hinu gamla rómverska vopni að deila og drottna. Það var það sem Alusuisse var að gera. Það var að deila og drottna í ríkisstj. Núv. hæstv. forsrh. tók manna mest þátt í þeim leik, á nákvæmlega sama hátt og hann hafði á áratugnum 1960–1970 reynt að stuðla að því innan Framsfl. að Alusuisse tækist að deila og drottna í álmálinu innan þess flokks. Þá bar það að vísu ekki árangur innan Framsfl., m.a. vegna þess að hv. þm. Páll Pétursson og hv. þm. Stefán Valgeirsson og allur þorri flokksins höfnuðu algjörlega leiðsögn og ráðleggingum Steingríms Hermannssonar í álmálinu, en hafa nú hins vegar sætt sig við það — hljóðir og hógværir — að lúta þeirri leiðsögn.

Herra forseti. Þau eru mörg gögnin í álmálinu, en eitt er þó merkilegra en mörg önnur, það sem ég hef hér ljósrit af, dags. 25. mars 1982, skjal sem lagt er fram af fulltrúum Alusuisse. Á þeim fundi þegar þetta skjal var lagt fram fór hæstv. sjútvrh. þáv. og núv. hæstv. forsrh. að gera á því breytingar á hné sér. Þessar breytingar eru skráðar hér inn á skjalið. Það væri vel þess virði, þegar búin væri til handbók um hvernig erlendir auðhringir eigi að fara að því að deila og drottna í smáum þjóðríkjum, að birta ljósrit af þessu skjali með rithönd hæstv. forsrh., þar sem inn á eru færðar þær breytingar sem hann vildi samstundis fallast á og gera á málinu til þess að þjóna Alusuisse, strika út allar grunnkröfur Íslendinga, eins og hann hefur strikað þær út hér, og verða við óskum fyrirtækisins.

Þess vegna þýðir ekkert fyrir hæstv. forsrh. að reyna að bera það af sér að hann hafi í þessu máli lengi þjónað hagsmunum Alusuisse. Það er skjalfest, m.a.s. með rithönd hæstv. ráðh. sjálfs, í þessu skjali hér. Og það var nokkuð merkilegt að heyra muninn á ræðum hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. hér í dag. Hæstv. forsrh. kom hér upp, vel sjóaður í 20 ára aðild sinni að vináttufélagi Alusuisse á Íslandi, hafandi staðist fyrstu prófin í Framsfl. á áratugnum 1960–1970 og staðið sig vel af hálfu Alusuisse, brást ekki þó allir aðilar væru á móti hann kom hér upp í ræðustólinn og sagði að hann kippti sér nú ekkert upp við það þó að menn væru að nefna landráð eða eitthvað slíkt í þessum efnum. Hann sagðist nú hafa lesið þessar ræður, sem hér hefðu verið fluttar, og hann sæi ekkert athugavert sérstaklega í þeim. En svo kom upp hæstv. iðnrh., Vestfirðingurinn, hinn sanni Vestfirðingur, hinn upprunalegi Vestfirðingur. — Hæstv. forsrh. er bara aðfluttur fulltrúi Vestf. héðan úr vesturbænum. — En hinn sanni Vestfirðingur sá auðvitað muninn. Hinn sanni Vestfirðingur sá auðvitað að málið var alvarlegra en hæstv. forsrh. hafði séð. Hæstv. iðnrh. sá að þessu yrði að svara. Þrátt fyrir allt er það mikið eftir af þjóðlegu stolti, Vestfirðingseðlinu, í hæstv. iðnrh. að hann skilur hvað hér er á ferðinni, hann skilur hvað hér er í húfi.

Það vakti satt að segja nokkra von í brjóstum okkar hinna að þessi umr. skyldi þó snerta þessa strengi hjá hæstv. iðnrh., hann væri ekki orðinn jafnforhertur í vináttufélaginu og hæstv. forsrh. sem ekki kippir sér neitt upp við svona tal frekar en stökkt sé vatni á gæs. Þess vegna vil ég nú ljúka þessari ræðu minni, herra forseti, með því að ítreka það, sem fyrr var sagt, að Alþb. hefur ávallt verið reiðubúið að stuðla að þjóðarsamstöðu í þessu máli. Alþb. hefur ávallt verið reiðubúið að standa að baki þeim sem af heilum hug, djörfung, festu og þekkingu vilja halda þannig á málstað Íslands að Ísland sæki sigur í hendur Alusuisse. Og þótt hæstv. iðnrh. hafi í sumar hafnað að fyrra bragði slíku liðsinni með því að velja sér eingöngu samstarfsmenn úr liði stjórnarstuðningsmanna, og þótt honum hafi orðið á þau miklu mistök sem rakin hafa verið hér varðandi síðustu skýrslu Coopers & Lybrand skulum við engu að síður vona að Vestfirðingurinn, sem situr nú í stóli iðnrh., beri gæfu til þess að snúa við blaðinu í þessum efnum, beri gæfu til þess að sýna þjóð sinni trúnað og hætta að leyna fyrir henni gögnum í málinu, beri gæfu til þess að leita eftir samstarfi við þingið allt og þjóðina alla í þessu máli.

Það get ég sagt núv. hæstv. iðnrh. af heilum hug, að sú reynsla sem ég fékk af því að fylgjast með glímunni við Alusuisse á undanförnum árum, þeirri löngu glímu, kennir mér eina lexíu umfram aðra, að Alusuisse mun aldrei láta neitt af hendi sem umtalsvert er til Íslendinga fyrr en hinn erlendi auðhringur sér að íslenska þjóðin stendur sameinuð gegn honum. Daður við fulltrúa fyrirtækisins mun ekki skila neinum árangri. Kurteisleg glíma mun ekki heldur skila neinum árangri. Jafnvel verk ýmissa þjálfuðustu samningamanna íslenska ríkisins mun ekki heldur skila neinum árangri ef þetta skortir. Alusuisse hugsar fyrst og fremst um sína fjárhagslegu hagsmuni. Það er skilgetið afkvæmi hins alþjóðlega auðmagns að þessu leyti. Og við skulum ekki blekkja okkur neitt hvað það snertir. Við erum að fást við harðan og óvæginn auðhring, þar sem hluthafarnir meta afrek forstjóranna fyrst og fremst á grundvelli þess hvað þeir skila þeim — hluthöfunum — miklum tekjum, hve gróðinn er stór, hve hagstæðir samningar eru gerðir fyrir Alusuisse. Það er það bakland sem viðmælendur okkar hafa hjá sér og það bakland er hert í áratuga markaðsglímu hins alþjóðlega auðmagns um arðinn af fjármagni sínu og framlagi. Við sækjum aldrei sigur í hendur þessarar sveitar fyrr en þeir finna að íslenska þjóðin er staðráðin í því að beita ríkisrétti sínum gegn fyrirtækinu. Engin önnur aðferð mun skila sigri í þessu máli.

Ég ætla að vona að vegna uppruna síns, vegna þess lærdóms sem núv. hæstv. iðnrh. hefur dregið af bestu bókmenntum íslenskrar þjóðar, vona það í einlægni og af fullri alvöru, að honum muni fljótlega skiljast þessi sannleikur, að þá fyrst, þegar hann hefur þjóðina alla á bak við sig, staðráðna í því að beita ríkisrétti Íslendinga gegn hinum erlenda auðhring, getur hann náð sigri. Við yrðum reiðubúnir til samstarfs við hæstv. ráðh. um það.