08.12.1983
Sameinað þing: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Ég vil taka fram að það er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en þetta mál, sem hér er til umr., geti komið fyrir sem þingmál eða mál utan dagskrár síðar. Hvort það kemur utan dagskrár verður metið eins og venja er um mál sem koma utan dagskrár.

Ég vildi núna, og þá segi ég fyrst í trausti þess að hæstv. forseti Nd. sjái af 2–3 mínútum í viðbót, freista þess að ljúka þessari umr. nú. Það eru tveir á mælendaskrá. Annar er hæstv. iðnrh., sem hefur tjáð mér að hann mundi segja aðeins nokkrar setningar eða gera örstutta aths. Hinn er 3. þm. Reykv., sem hefur talað tvisvar, og getur því aðeins gert örstutta aths. Nú biður hv. 7. þm. Reykv. um orðið. Þá sé ég að það verður ekki lengur leitast við að ljúka umr. nú. En ég vil taka fram í tilefni af því, sem ég hef áður sagt hér á þessum fundi, að ég hefði talið eðlilegt að þessari umr. væri lokið á þessu ári. Nú er stefnt í fullkomna óvissu um að slíkt megi verða, gegn von minni. Menn skulu þá gera alveg eins ráð fyrir að framhald umr. verði á árinu 1984, hvort sem menn verða þá hér viðlátnir eða ekki til þess að taka til máls.