08.12.1983
Sameinað þing: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Ég vil taka fram, eins og allur þingheimur veit, að það er misskilningur hjá hv. 7. þm. Reykv. að forseti hafi kveðið upp úrskurð um að hann geti ekki talað frekar í þessum umr. sem hér eru. Það er misskilningur. Það hefur enginn úrskurður verið kveðinn upp.

Hins vegar sagði forseti að stefnt væri í tvísýnu að við gætum haldið áfram þessum umr. á þessu ári. Þessu til áréttingar minni ég á hve knappt við stöndum með tímann.

Ég minni og á að í upphafi þessara umr. fann hv. 3. þm. Reykv., formaður Alþb., að því að þetta mál hefði verið tekið á dagskrá vegna þess að það ryddi í burtu öðrum þýðingarmiklum málum. Þetta var auðvitað rétt. Það var slæmur kostur að þurfa að taka málið á dagskrá. En það eru sömu ástæður fyrir því að það yrði slæmur kostur að þurfa að halda þessum umr. áfram á þessu ári. En enginn úrskurður hefur verið kveðinn upp um það hvort svo verður eða ekki. Þetta mál verður athugað og reynt verður að gera það besta í þessum málum eins og við erum vön að gera öll í sameiningu.