09.12.1983
Neðri deild: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla að skjóta inn í þessa umr. hugleiðingum um orkusparnað, leyfa mér að benda hæstv. iðnrh. á það sem ég tel vera lang hagstæðasta virkjunarmöguleikann í dag, sem er það tiltölulega einfalda atriði að einangra þök og tvöfalda gler í kannske fimmtungi húsa í landinu. Ýmsir útreikningar liggja fyrir um að af öllum þeim virkjunarkostum sem landinn hefur aðgang að í dag er þetta líklega sá sem er af ýmsum ástæðum sá sem er lang hagkvæmastur og eðlilegast að í verði ráðist. Nýlega eru komnar upplýsingar í þessu máli. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. hefur gert mjög merkilega rannsókn á húshitun, einangrun og orkunotkun húsa í Grundarfirði. Verkefnið er unnið fyrir Samtök sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi og er ágætt dæmi um árvekni og frumkvæði á þessum vettvangi. Ég vil endilega hvetja þm. til að kynna sér efni þessarar skýrslu, en í henni segir m.a., með leyfi forseta:

„Hins vegar skal á það bent að meðaltalsorkunotkun húsanna er 97.6 kw-stundir á ári á hvern fasteignamatsrúmmetra, en reiknuð orkuþörf húsanna ef þau væru einangruð í samræmi við nýja byggingareglugerð er aðeins 58.2 kw-stundir á hvern fasteignamatsrúmmetra eða aðeins 60% af núverandi orkukaupum. M.ö.o. húsin eyða um 66% meiri orku en þau ættu að gera skv. reglugerð. Alls eru þetta um 11 400 rúmmetrar. Sé miðað við gjaldskrár RARIK er því árlegur aukakostnaður húseigendanna um 320 þús. kr. eða um 12 þús. kr. á hvern húseiganda, nánar tiltekið 11 800. Og árlegur aukakostnaður ríkisins er því, ef miðað er við niðurgreiðsluhlutfall í gjaldskrá RARIK, um 8 þús. kr. á hvern húseiganda ef allir kyntu með rafmagni.“

Þarna erum við að tala um aukakostnað sem er 12 og 8 þús. kr. á húseiganda sem kemur síðan í hlut ríkisins. Og þarna er um svo umtalsverða fjármuni að tefla, bæði fyrir húseigendur og ríkissjóð, að ég held að það sé í raun og veru slys hvert misseri sem liður án þess að gripið sé til róttækra aðgerða á þessu sviði. Og fyrir hv. Alþingi liggur þáltill. um að innan ákveðins tíma verði einangrun húsa gerð að skilyrði fyrir niðurgreiðslu orku. Og ég tel það vera eitt mesta þjóðþrifamál á þessum vettvangi sem við getum snúið okkur að.