09.12.1983
Neðri deild: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Sjaldan hafa jafnmargir beðið jafnlengi eftir úrlausn sinna mála eins og marghrjáðir húsbyggjendur í þessu landi hafa beðið eftir húsnæðismálafrv. hæstv. félmrh. og nú er eftir að sjá, svo að maður snúi svolítið út úr fleygum ummælum Winstons gamla Churchills, hvort það ásannast enn einu sinni að sjaldan hafa jafnmargir beðið jafnlengi eftir jafnlitlu.

Það er ekki að ástæðulausu að þúsundir manna hafa mænt vonaraugum eftir að fá að sjá, heyra og kynnast niðurstöðum af starfi félmrh. nú í sumar um endurnýjun og umbætur á húsnæðislánakerfinu. Ástæðan fyrir því er sú að á liðnu kjörtímabili skapaðist algert neyðarástand í húsnæðismálum. Það neyðarástand lýsti sér þannig frá bæjardyrum venjulegs húsbyggjanda að lánshluttallið sem hlutfall af raunverulegum byggingarkostnaði fór sílækkandi. Þegar við gengum hér til kosningar var rætt um að það væri innan við 20% af verði svokallaðrar staðalíbúðar, en þegar betur var að gáð og tekið tillit til þess að langur tími liður frá því að lánsumsókn er afgreidd og þangað til hún er komin í hendur húsbyggjenda komust menn að þeirri niðurstöðu að lánshlutfallið væri í reynd á bilinu 10–12% af byggingarkostnaði. Þetta þýddi auðvitað að greiðslubyrði venjulegs launafólks sem hafði steypt sér út í miklar fjárhagsskuldbindingar var orðin að drápsklyfjum. Þess voru dæmi að fjölskylda sem hafði 250 þús. kr. tekjur á s.l. ári og réðist í það verkefni að byggja sér venjulega þriggja herbergja íbúð í fjölbýlishúsi stæði frammi fyrir því að greiðslubyrðin af þessum lánum var á bilinu 80–90% af slíkum tekjum. Þegar svo var komið var auðvitað augljóst mál að húsnæðislánakerfið sem slíkt var hrunið. Við höfðum það oft á orði að húsnæðismálin yrði að skipuleggja út frá einhverjum félagslegum grundvallarforsendum. Það er alveg augljóst mál að þegar svona var komið var þetta kerfi hrunið í rúst.

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði sem gjarnan er fjárfesting til margra kynslóða er meiri en svo að hún verði fjármögnuð út frá einhverjum markaðsjónarmiðum af launatekjum venjulegs fólks. En þegar svo er komið að það félagslega lánakerfi sem átti að auðvelda fólki þetta verkefni var komið í slíka niðurníðslu, var fullkomlega ófært um að sinna verkefnum sínum má heita að heilum kynslóðum ungs fólks hafi raunverulega verið úthýst af húsnæðismarkaðinum. Við þetta bætast auðvitað ýmsir aðrir annmarkar á þessum húsnæðismarkaði. Þá er ég fyrst og fremst að tala um þau kjör sem íbúðir ganga á kaupum og sölum á venjulegum markaði, ekki nýbyggingar. Raunverulega er til þess ætlast að venjulegt launafólk standi undir útborgun á venjulegri íbúð að upphæð allt að 70–80% af byggingarverði.

Enn mætti nefna að sú húsnæðispólitík sem rekin er og varðar kannske fyrst og fremst stefnumótun sveitarfélaga, lóðaúthlutun og einhverja tilraun af hálfu stjórnvalda til að hafa áhrif á sjálfan markaðinn, þ.e. hvers konar íbúðir verið er að byggja, virðist vera mjög í skötulíki líka. Það er eftirtektarvert að á undanförnum áratugum hefur íbúðasamsetning, þ.e.a.s. fjölskyldugerð, ef við lítum hér á höfuðborgarsvæðið, verið að breytast verulega. Nú er svo komið að tæplega 40% af fjölskyldum hér á höfuðborgarsvæðinu eru fjölskyldur einhleypinga, ef hægt er að kalla það fjölskyldur. Hér er um auðvitað gerbreytingu að ræða sem ætti að þýða að eftirspurn eftir litlum íbúðum í fjölbýtishúsum, litlum þjónustuíbúðum ekki hvað síst fyrir aldrað fólk þar sem nú ríkir algjört neyðarástand, ætti að vera mikil og auðvitað er hún mikil. En henni er ekki fylgt eftir með raunverulegum kaupmætti sem þýðir að í reynd er sífellt verið að úthluta lóðum og byggja stórar íbúðir í einbýlishúsum og í raðhúsum. Á bak við þá eftirspurn er auðvitað verulegur kaupmáttur hjá litlum hluta þjóðfélagsþegnanna, þeirra sem komið hafa sér vel fyrir í þjóðfélaginu og eru kannske að byggja í annað eða þriðja sinn. En hin fétagslega þörf sem hrópar á aðgerðir, þ.e. hinna minni fjölskyldna, stendur eftir óleyst þannig að alveg sama hvar á var litið var svo komið á kjörtímabili síðustu ríkisstjórnar að húsnæðismálin voru komin algjörlega í ólestur.

Ástæða til að spyrja: Hvers vegna? Er einhver sérstök skýring á því að húsnæðislánakerfið hrundi með þessum hætti? Skýringarnar eru margar, en meginskýringin er sú að á s.l. kjörtímabili var fallið frá þeirri grundvallarstefnumörkun sem fram kom í húsnæðismálafrv. Magnúsar H. Magnússonar frá árinu 1979 sem þá hafði verið samþykkt í ríkisstjórn, m.a. samþykkt af flokkum núverandi hæstv. félmrh. og fyrrverandi hæstv. félmrh., þar sem kjarni málsins var sá að lánakerfið sjálft, fjárhagur lánasjóðanna, skyldi byggður upp í áföngum á næstu árum með því að tryggja þeim raunveruleg framlög, markaða tekjustofna í því tilviki, þ.e. umsaminn hlut byggingarsjóðanna af launaskatti. En þetta er grundvallarforsendan fyrir því að við getum rekið raunverulega félagslega pólitík í húsnæðismálum. Hæstv. fyrrv. félmrh. lét verða eitt af sínum fyrstu verkum á stóli húsnæðismálaráðh. að breyta þessari stefnu að svipta lánasjóðina ríflegum framlögum af tekjustofnum sínum og vísa þeim í staðinn á óvissa og dýra lánamarkaði. Þar með var fyrsta ógæfuskrefið stigið sem endaði með því að húsnæðislánakerfið sem slíkt hrundi.

Í grg. með þessu frv. er þessi öfugþróun rækilega tíunduð. Þar er sýnt fram á hvernig eigin framlög ríkissjóðs til byggingarlánasjóðanna beggja, og sérstaklega er ég þá með í huga byggingarlánasjóð ríkisins, hafa minnkað ár frá ári. Þar er einnig tíundað hvernig hlutfall lána í fjármögnun sjóðanna sem standa undir útlánagetu þeirra fór sívaxandi ár frá ári. Þar er einnig tíundað hve forsendur þessarar lánsfjáröflunarpólitíkur reyndust feysknar og stóðust ekki. Það liggur ljóst fyrir að því er varðar áætlanir sem gerðar hafa verið um framlög lífeyrissjóða inn í þetta lánakerfi að þær hafa ár eftir ár brugðist, þær hafa hvergi nærri staðist. Ríkisstjórnir hafa haft þann hátt á að áætla þessi framlög mjög rífleg og tryggja þannig að að nafninu til væri hægt að standa við alla útlánaþörf, en í reynd hefur það hvergi nærri tekist.

Alvarlegast af þessu öllu saman er að um leið og Byggingarsjóðurinn hefur verið sviptur tekjustofnum og vísað á lánamarkaðinn hefur vaxtamunur, munurinn milli inntekinna lána og útgreiddra lána, verið slíkur að í það stefndi innan skamms að síminnkandi framlög ríkisins dygðu varla til að standa undir þessum vaxtamun. Þannig stefndi að því að byggingarsjóðirnir yrðu hreinlega greiðsluþrota. Og það er ekki nóg með að hér sé aðeins um að ræða vaxtamun. Lánin sem Byggingarsjóður ríkisins tekur af lífeyrissjóðunum eru til skemmri tíma og á hærri vöxtum en útlánin sem bæði eru til lengri tíma og á lægri vöxtum. Vaxtamunurinn ásamt síminnkandi framlögum og hækkandi hlutfalli lána, allt var þetta raunverulega að grafa traustum fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins gröf. Enda var svo komið á s.l. ári að byggingarsjóðurinn varð æ háðari yfirdrætti hjá Seðlabanka til að standa við skuldbindingar sínar.

Þetta, herra forseti, er meginskýringin á því hvers vegna húsnæðislánakerfið var að hruni komið þegar hæstv. núv. félmrh., Alexander Stefánsson, fékk þetta verkefni upp í hendurnar á s.l. vori. Sú stefna sem þarna hafði verið fylgt í tíð fyrrv. ríkisstj. var háskaleg og hafði hinar háskalegustu afleiðingar. Það er lítil bót í máli út af fyrir sig þó að ég geti lýst því yfir að hæstv. félmrh. átti að sjálfsögðu óskipta samúð og á enn allra þegar hann tók við þessu hrikalega verkefni. En á það verður þó um leið að minna að sjálfur var hann einn af stuðningsmönnum þessarar ríkisstj., einn af áhrifamönnum í stuðningsmannaliði þeirrar ríkisstj. sem lék húsnæðislánakerfið svona grátt, og átti þess vegna sinn þátt í því hversu hrikalegt þrotabúið var sem hann tók við. Þetta er þeim mun hörmulegra sem það er staðreynd að ef fyrrv. ríkisstj. hefði látið húsnæðismálalöggjöf eins og hún var frágengin í húsnæðismálatíð Magnúsar H. Magnússonar í friði, ef hún hefði látið ógert að breyta því grundvalfaratriði þeirrar stefnu sem þá var mörkuð að tryggja sjóðunum öruggt eigið fjármagn þá hefði hæstv. núv. félmrh. vissulega tekið við mun blómlegra búi. Þá hefði ekki verið þörf á eins hrikalega stóru átaki til að bjarga því sem bjargað verður eins og nú blasir við.

Það var við þessar kringumstæður sem hinn margfrægi Sigtúnsfundur var haldinn. Þar var samankomið það fólk sem orðið hafði fórnarlömb þeirrar röngu stefnu, þeirrar öfugþróunar sem orðið hafði, einkum og sér í lagi í tíð fyrrv ríkisstj. Ástæða er til að minna á það, ekki síst þegar talsmenn Alþfl. ræða um húsnæðismál. Við vorum að sjálfsögðu baráttumenn fyrir því að taka upp verðtryggingu á fjárskuldbindingum almennt og í þeirri baráttu var vissulega undir högg að sækja lengi framan af, en nú er svo komið fyrir löngu síðan að allir viðurkenna að hún er rétt sem grundvallarforsenda í slíkum viðskiptum af mörgum ástæðum.

En ástæða er til að minna á að í margfrægum Ólafslögum frá því í apríl 1979 var ákvæði þar sem kveðið var á um að jafnhliða verðtryggingunni skyldi um leið þannig frá hlutunum gengið að lánstími, ekki hvað síst lánstími húsnæðismála, skyldi lengdur og jafnframt ákvæði um að þau ættu að vera afturvirk, þ.e. að því er varðaði skuldbreytingu. Þessi ákvæði voru því miður aldrei annað en dauður bókstafur í tíð fyrrv. ríkisstj. Það er ástæðan fyrir því að sá hópur fólks sem kom inn á húsnæðismarkaðinn á þessum tíma stóð frammi fyrir því að fjárskuldbindingar hans voru að fullu verðtryggðar. Hann stóð síðan frammi fyrir því að óðaverðbólgan var takmarkalaus á s.l. tveimur árum undir lok stjórnartíma fyrrv. ríkisstj. þannig að þar fór allt saman, botnlaus óðaverðbólga, verðtrygging og síðan það að fyrrv. ríkisstj. stóð þannig að málum að með margítrekuðum skerðingum á vísitölukerfi launa og með meiri háttar niðurgreiðslusvindli að því er varðaði vísitölur, var svo komið að lánskjaravísitalan sem mældi verðtrygginguna var orðin mun hærri en kaupgjaldsvísitalan. Þannig fór þarna allt saman, verðtrygging, óðaverðbólga og vísitölusvindl sem lagðist á eitt um að gera þessum hópi fólks lífið nánast óbærilegt.

Það var við þessar kringumstæður sem Sigtúnshópurinn kom saman og setti fram sínar einföldu kröfur í húsnæðismálum. Þær voru í stuttu máli á þá leið að óhjákvæmilegt væri að hækka lánið sem hlutfall af byggingarkostnaði. Í öðru lagi að lengja lánstímann til að létta greiðslubyrðina og í þriðja lagi að sá hópur sem verst hafði farið út úr þessum málum á tímabilinu frá 1980 til 1983 fengi einhverja leiðréttingu sinna mála með afturvirkum hætti.

Í þeim umr. sem hér hafa þegar orðið um þetta mál hafa menn vikið nokkuð að þeim loforðum sem gefin voru þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við. Það er fljótsagt að þau loforð vöktu miklar vonir. Hver voru þessi loforð? Með leyfi forseta langar mig til að rifja hér upp nokkur þeirra. Samkv. blaðafrásögnum í septembermánuði er þetta haft eftir hæstv. forsrh.:

Ríkisstj. stefnir að því að veita 50% lán af kostnaði staðalióúðar til húsbyggjenda og íbúðarkaupenda og munu þær nýju reglur taka gildi um næstkámandi áramót.“

Eftir hæstv. félmrh. er þetta haft samkv. heimild Dagblaðsins frá 20. sept.:

„Alexander Stefánsson félmrh. stefnir að því að leggja fram stjfrv. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins strax í þingbyrjun.“

Því næst segir þegar búið er að skýra frá störfum nefndar:

„Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar á hún að athuga sérstaklega á hvern hátt mögulegt er að auka fjármagn til byggingarsjóðanna, m.a. með tilliti til þeirrar ákvörðunar ríkisstj. að koma lánshlutfalli af staðalíbúð upp í 50% af byggingarkostnaði á næsta ári fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta skipti.“

Hér er ekki töluð nem tæpitunga. Hér er sagt fullum fetum í fyrsta lagi að koma eigi þessu lánshlutfalli upp í 50% af byggingarkostnaði staðalióúðar og í annan stað — og þetta er gert samkv. ákvörðun ríkisstj. — er meginverkefni hennar að kanna möguleika á að auka fjármagn til byggingarsjóðanna.

Að sjálfsögðu er hægt, herra forseti, að tíunda þessi loforð í lengra máli. Ég ætla þó að láta það ógert umfram eitt. Menn hafa stundum verið að rifja upp hver voru loforð hinna ýmsu stjórnmálaflokka í kosningabaráttunni að því er varðaði úrlausn í húsnæðismálum enda voru húsnæðismálin eitt helsta umræðuefnið í sjálfri kosningabaráttunni. Ástæða er til að rifja upp að Sjálfstfl. gekk þar kannske einna lengst þar sem hann gaf í stefnuyfirlýsingu sinni afdráttarlaus loforð um að lánshlutfall, hlutfall lána af byggingarkostnaði, skyldi hækka — og það var fyrirvaralaust í stefnuyfirlýsingunni — upp í 80% af byggingarkostnaði. (Gripið fram í: Á kjörtímabilinu.) Það stendur ekki í stefnuyfirlýsingunni, en það kom síðar fram. En ástæða er til að rifja upp að undir lok seinasta þings var af hálfu fyrrv. félmrh. flutt frv. til l. um húsnæðismál og þar voru fluttar brtt. Að einni af þeim brtt. sem var flutt var 1. flm. hæstv. forseti Sþ., Þorv. Garðar Kristjánsson, 4. þm. Vestf. Og hverjar voru tillögur hans í nafni þeirra sjálfstæðismanna á s.l. vori áður en þingi lauk og sem vegarnesti út í kosningabaráttuna? Ástæða er til að rifja það upp. Á þskj. nr. 501, 143. mál, árið 1982–83 þar sem verið er að fjalla um Byggingarsjóð verkamanna segir:

„Fjár til hans skal aflað sem hér segir: Með árlegu framlagi úr ríkissjóði á fjárlögum sem nema skal 80% af áætlaðri fjármagnsþörf sjóðsins.“

Og í annan stað segir:

„Lán skal að jafnaði veitt með 1. veðrétti og skal lánstími vera 42 ár.“

Látum nú vera að fjalla frekar um loforðin, en snúum okkur heldur að því að spyrja m.iðað við það ástand sem ríkti í húsnæðismálunum á s.l. vori. Hvað var það sem þurfti að gera burtséð frá loforðum? Hvað var það í raun og veru sem þurfti að gera til að koma fjárhag byggingarlánasjóðanna á traustan grundvöll og til að hægt væri að standa við þau fyrirheit sem yfirleitt höfðu verið gefin og voru síðan áréttuð eftir kosningar? Ég held að ekki fari á milli mála að grundvallaratriðið í því sem þurfti að gera var að endurreisa sjálfan fjárhagsgrundvöll byggingarsjóðanna, ekki síst Byggingarsjóðs ríkisins. Hverfa þurfti frá þeirri stefnu að vísa lánasjóðunum áframhaldandi í stórum dráttum og að mestum hluta á lánamarkaðinn og tryggja að í staðinn kæmu framlög ríkisins, annaðhvort með mörkuðum tekjustofnum eða með öðrum hætti, vegna þess að fyrirsjáanlegt er að á næstu árum er um slíkan hala að ræða að meiri háttar átak er framundan í að byggja upp traustan eigin fjárhag sjóðanna til að þeir geti staðið við það fyrirheit að fram í tímann verði hægt að hækka lánshlutfallið stig af stigi eins og t.d. var gert ráð fyrir í frv. Magnúsar H. Magnússonar á sínum tíma.

Í öðru lagi þurfti auðvitað að hækka lánin og um það voru gefin ákveðin fyrirheit. Í þriðja lagi þurfti að lengja lánstímann til að létta greiðslubyrðina. Í fjórða lagi þurfti að gera ráðstafanir til að leysa vandamál þess fólks aftur í tímann sem hvað harðast hafði orðið úti á húsnæðismarkaðinum í tíð fyrrv. ríkisstj. Í fimmta lagi var nauðsynlegt að taka húsnæðisstefnuna, sjálfa grunngerð sjóðakerfisins og ýmsa þætti húsnæðismálastefnunnar til athugunar. Þá á ég við hluti eins og áð lagfæra það ástand sem ríkir á fasteignamarkaðinum þar sem er hið háa hlutfall útborgunar við kaup á eldra húsnæði. Þá á ég einnig við aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að hægt sé að tryggja nægilegt framboð af minni íbúðum til að mæta þeirri miklu og sívaxandi þörf sem er fyrir íbúðir af því tagi, ef aðeins er litið á íbúasamsetningu, t.d. hér á þéttbýlustu svæðunum. (Forseti: Ég vildi spyrja hv. þm. hvort ekki sé kominn tími til að ljúka þessu? Það er nú greinilegt að hv. þm. hafa áhuga á að þessum fundi ljúki vegna annars verkefnis sem fyrir liggur og við tökum til við á næsta fundi). Hæstv. forseti ræður því að sjálfsögðu og hefur það að vild sinni.