12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

7. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um viðauka við lög nr. 44 25. maí 1976 um Fiskveiðasjóð Íslands. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 5. apríl s.l. en þau voru gefin út vegna mikilla vandamála, sem þá voru í sjávarútvegi. Var þá tekin ákvörðun um það að taka ábyrgð á allt að 120 millj. kr. til að lána fyrirtækjum í sjávarútvegi.

Þessi lán hafa þegar verið veitt og var það gert samkv. tillögum sérstakrar nefndar, sem í voru Benedikt Bogason formaður, Bogi Þórðarson, Karl Bjarnason og Svavar Ármannsson. Úthlutunin var fyrst og fremst byggð á skýrslu nefndar um stöðu útgerðar og fiskvinnslu, en sú skýrsla var unnin af nefnd, sem í sátu þeir Benedikt Bogason, Bogi Þórðarson, Helgi Backman, Svavar Ármannsson, Ólafur Helgason og Garðar Ingvarsson.

Ég sé því ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál. Það hefur þegar verið afgreitt frá Nd., en þar liggja ýmis gögn fyrir um hvernig frá málinu var gengið. Tel ég réttara að hv. nefnd fái þau til umfjöllunar og sé ekki ástæðu til að fara nákvæmlega yfir það hér.

Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.