20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

3. mál, sala ríkisbanka

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. þm. BJ til þál. um sölu ríkisbankanna, Landsbanka Íslands, Útvegsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, til almenningshlutafélaga með ákveðnum skilyrðum. Þetta er hluti af tillögum Bandalags jafnaðarmanna um að leggja áherslu á valddreifingu og lýðræði og berjast gegn miðstýringu og flokksræði.

Það er nú svo, að tengsl banka og stjórnmálaflokka hér á landi eiga sér langa sögu, sum eru eldri en orðið sósíalismi, og átök í stjórnmálum hafa tengst bönkunum og tengdust bönkunum á augljósan og opinberan hátt á fyrri áratugum. Á seinni árum hefur færst værð sátta yfir þetta svið, enda hefur samkomulag verið gott milli flokkanna um skiptingu innan þessa kerfis. Þessar sættir taka stundum á sig undarlegustu myndir. T.d. þegar flokksblöðin eru að gera sér mat úr veitingu bankastjóraembætta ríkisbankanna. Þá velta þau því fyrir sér hver úr hópi einhverra nafngreindra manna muni hreppa hnossið og blöðin fitna eins og fjóspúkinn yfir erfiðleikum andstæðinganna við að velja úr gæðingahópnum. Hins vegar líta þessi blöð á það með fullum skilningi og gera engar athugasemdir við, að þeir sem koma til greina í þessi embætti eru allir úr sama flokki.

Þarna birtast angar flokksræðisins og þeir birtast víðar. Við höfum nýlegt dæmi úr Davíðsborg.

Það hafa fallið ýmis orð og mörg þeirra þung um ítök stjórnmálanna í bankakerfinu og alþm. skiptast afar lítið í tvö horn hvað þetta varðar. Þeir eru til sem líta á það sem sjálfsagða þjónustu við kjósendur að vera þeim innan handar við útvegun lánsfjár og segja sem svo, að í þessum hluta lífsbaráttunnar hljóti það að gilda eins og annars staðar að það svelti sú krákan sem situr en fái sú sem flýgur. Til eru líka alþm. sem segja að það sé ekki eðlileg framvinda lýðræðis að fulltrúar á löggjafarsamkundu hafi þannig hönd í bagga með peningagreiðslum — peningagreiðslum utan ramma fjárlaga. Þeir telja það raunar sumir áþján og ógæfu þingmennsku sinnar að vera í þeirri aðstöðu að til þess geti verið ætlast af Pétri og Páli að þeir útvegi peninga á þennan hátt, því að þá sé hætt við að þeir stígi kannske sín verstu víxlspor.

En þarna er ekki einungis um það að ræða að hætta sé á umdeilanlegri íhlutun stjórnmálaflokka hvað snertir fjármuni, bæði til einstaklinga og fyrirtækja og annarra stóraðila. Þarna er líka um að ræða grundvallarspurningu um samskipti valdþáttanna, löggjafarvalds og framkvæmdavalds, er BJ hefur löngum gert að umtalsefni. Þarna er líka um að ræða stærra mál en svo, að það verði leyst með setu annarra en alþm. í bankaráðum. Þessi beinu flokksítök verða að hverfa.

Það er raunar trú mín, að fáar einstakar aðgerðir á sviði efnahagsmála mundu hafa jafngagnger uppstokkunaráhrif og sala ríkisbanka mundi gera. Því mundi fylgja endurskoðun á sjóðakerfi, þessu mundi fylgja endurskoðun á fyrirkomulagi ríkisfjármála og svo mundi verða um mál á fleiri sviðum. Á þennan hátt yrði eignarhaldi og stjórnun bankanna beint til fólksins í landinu úr höndum flokkakerfisins, og það er valddreifing af besta tagi og aukið lýðræði.

Þetta er róttæk aðgerð og hún krefst vandlegs undirbúnings. Það þarf að búa svo um hnútana að hérna verði á ferðinni raunveruleg almenningshlutafélög og það þarf að tryggja að völd og eignarhald safnist ekki á fárra hendur, því að flokkseigendurnir munu vafalaust reyna að tryggja hagsmuni sína með einhverjum hætti ef svona breyting næði fram að ganga og yfirráðin mega ekki lenda í höndum þeirra í annan umgang.

Við álítum að tengsl bankanna og stjórnmálaflokkanna séu orðin svo rótgróin að það sé þörf svo róttækra aðgerða sem hér er mælt með.

Hin pólitísku umsvif bankanna vegna yfirráða stjórnmálamanna birtast okkur í sumum eignum þeirra, t.d. flugvélaflökum, húsatóftum og bryggjustúfum víðs vegar um land. Og í þessum grotnandi minnismerkjum um pólitíska misnotkun á bönkunum liggur sparifé fólksins í landinu. Það fólk þarf svo í ofanálag að greiða endurreisnarkostnaðinn við efnahagsaðgerðirnar í dag.

Beri Alþingi ekki gæfu til að leysa vandamálin á þennan hátt mun BJ flytja aðra till. til þál. Sú mun leggja til að bankaráð þessara sömu banka verði lögð niður, stjórn bankanna verði endurskipulögð og fleiri aðgerðir á því sviði verði gerðar.

Um einstakar greinar þessarar till. þarf lítið að fjalla og ég mun því ekki lengja mál mitt. Greinarnar skýrast með hliðsjón af þeim einarða ásetningi flm. að brjóta niður einokun stjórnmálaflokkanna á þessum bönkum og að færa stjórn þeirra og eignarhald til lýðræðislegri vegar. Ég verð að hryggja hæstv. fjmrh. og þá sölustjóra ríkisins með því að þetta er ekki af oftrú á einkaframtakinu, þetta er nauðvörn fólksins í landinu.

Að lokum legg ég til að till. verði vísað til allshn.