12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1984. Þetta frv. er reist í öllum meginatriðum á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1984 sem lögð var fyrir Alþingi í byrjun nóv. Að auki byggist heimild til innlendrar fjáröflunar að hluta til á því að frv. til l. um innlenda fjáröflun, sem nú er til meðferðar á Alþingi, hljóti afgreiðslu. Í því frv. er leitað heimilda til innlendrar fjáröflunar með nýju og fjölbreyttu sniði verð- og gengistryggðra skuldabréfa.

Lánsfjárlagafrv. fyrir árið 1984 er í öllum meginatriðum með hefðbundnu sniði. Í 1. kafla frv. er leitað heimilda til 1ántöku fyrir ríkissjóð á árinu 1984 auk heimildar til lántöku Framkvæmdasjóðs Íslands, fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs og sveitarfélaga.

Í II. kafla frv. er ákvæði um skerðingu framlaga til ýmissa sjóða.

Í III. kafla frv. eru síðan ýmis ákvæði sem varða lánsfjáröflun á árinu 1983, fjármögnun á greiðsluhalla ríkissjóðs 1983 og ákvæði um ábyrgðarheimildir vegna skipasmíða.

Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1984 kemur fram að heildarlánsfjárþörf A- og B-hluta ríkissjóðs nemur 2 milljörðum 669 millj. kr. Þar kom einnig fram að á vegum utanrrh. væri unnið að endurskoðun á fjárþörf fyrir byggingarframkvæmdir við flugstöð í Keflavík og lækka lántökur til þessa verkefnis um 15 millj. kr. frá því sem lánsfjáráætlun gerði ráð fyrir. Samkv. þessari grein lækkar heildarlánsfjárþörf A- og B-hluta sem þessu nemur og er því leitað heimildar til 2654 millj. kr. lántöku á árinu 1984. Lánsfé skiptist þannig að alls er fyrirhugað að afla 1709 millj. kr. erlendis og 945 millj. kr. á innlendum lánsfjármarkaði.

Gert er ráð fyrir að erlendar lántökur Landsvirkjunar nemi alls 500 millj. kr. á árinu 1984 til fjármögnunar á raforkuframkvæmdum. Fyrirhugað er að verja 200 millj. kr. til framkvæmda við Blönduvirkjun og 700 millj. kr. til annarra framkvæmda, þ.e. við Kvíslaveitur, Suðurlínu og önnur brýn verkefni.

Erlendar lántökur á vegum annarra fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs, Orkubús Vestfjarða og hitaveitna nema alls 247 millj. kr.

Þá er að nefna að Framkvæmdasjóði hefur verið heimiluð 652 millj. kr. erlend lántaka en það er 35 millj. kr. hærri fjárhæð en fram kemur í lánsfjáráætlun. Um einstaka liði og ráðstöfun þeirra vísa ég til grg. frv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar.

Fyrirhugaðar erlendar lántökur nema alls 4 538 millj. kr. Stjórnarflokkarnir eru einhuga um að mjög mikið verði að stemma stigu við aukinni erlendri skuldasöfnun. Skuldir þjóðarinnar út á við nema nú um 60% af þjóðarframleiðslunni. Hér eru landsmenn komnir í ógöngur. Um það bil fjórða hver króna, sem við öflum í erlendum gjaldeyri, rennur til þess að greiða vexti og afborganir af erlendum skuldum. Í ljósi nýjustu viðhorfa til þorskafla á árinu 1984 og þjóðarframleiðslu er deginum ljósara að það verður enn brýnna en ella að takmarka erlendar lántökur á árinu 1984. Mörg þörf verkefni verða því að bíða þess að þeim verði hrundið í framkvæmd þar til efnahagurinn réttir við.

Vegna þess hvað þjóðarbúinu er sniðinn þröngur stakkur í erlendri lánsfjáröflun auk þess sem óverjandi er að taka erlend eyðslulán ár eftir ár er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að efla innlendan sparnað. Innanlands er fyrirhugað að taka að láni umtalsvert fé. Alls eru lántökur hjá lífeyrissjóðum fyrirhugaðar um 1000 millj. kr., þar af renna um 690 millj. kr. til húsnæðislánakerfisins, 110 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs og 120 millj. kr. til ríkissjóðs. Það er ætlað að hér sé um raunhæfar fjárhæðir að ræða og ríkisstj. hefur ákveðið að gildandi lögum um kaup lífeyrissjóða á skuldabréfum af Byggingarsjóði, Framkvæmdasjóði og ríkissjóði verði ekki breytt að svo komnu máli a.m.k. Önnur innlend fjáröflun, þ.e. með útgáfu ríkissjóðsvíxla, spariskírteina, happdrættisbréfa og gengisbundinna bréfa, er alls áætlað að muni gefa um 758 millj. kr. Þar af eru 200 millj. kr. sem sérstaklega er ætlað að endurlána til Byggingarsjóðs ríkisins.

Í 6. gr. frv. til fjárlaga er leitað heimildar til 200 millj. kr. útgáfu spariskírteina og happdrættislána. Í 1. gr. þessa frv., sem hér er til umr., er leitað heimilda til 478 millj. kr. lántöku innanlands, þar af 128 millj. kr. hjá lífeyrissjóðunum. Bregðist lánsfjáröflunaráform ríkisstj. hvort heldur er hjá lífeyrissjóðum eða á innlendum lánsfjármarkaði eða að öðru leyti mun nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að endurskoða útlánaáform en skilningur ríkir á því að ekki megi bjarga málinu með enn aukinni erlendri lántöku og skuldasöfnun.

Í 28. og 29. gr. frv. er leitað heimilda til lántöku vegna ársins 1983 og til þess að semja við Seðlabankann um fjármögnun á greiðsluhalla ríkissjóðs árið 1983. Fyrirsjáanlegt er eins og ég hef áður gert Alþingi grein fyrir að verulegur greiðsluhalli verði hjá ríkissjóði í árslok 1983. Svo sem fram kemur í aths. þessa frv. eru horfur á að greiðsluhalli verði ekki undir 1100 millj. kr. í árslok. Innheimta skatta síðustu vikur ársins skiptir miklu um endanlegar niðurstöður. Því er of snemmt að fullyrða neitt í þessu máli en vandinn er ærinn.

Í 30. og 31. gr. frv. er leitað heimildar fyrir ríkissjóð að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán á árinu 1984 sem tekin kunna að verða til smíði 5 fiskiskipa. i gildandi lögum er heimilað að í svonefndu raðsmíðaverkefni séu á árinu 1983 og 1984 ávallt 4 skip í smíðum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Nýmæli þessara greina er að takmarka heimildir til að veita ríkisábyrgðir vegna smíði fiskiskipa innanlands þannig að þær nái einungis til smíði fjögurra skipa. Þau skip, sem hér um ræðir, eru í smíðum hjá Slippstöðinni hf. á Akureyri, þ.e. tvö skip, Stálvík hf., eitt skip, og Þorgeir og Ellert á Akranesi, eitt skip. Fleiri skip verða því ekki smíðuð á árinu 1984 samkv. ákvæðum þessarar greinar. Í annan stað er hámarkslengd þessara skipa færð úr 35 metrum í 39 metra. Er þetta gert til þess að umrædd skip geti sinnt nýjum og breyttum verkefnum svo sem rækjuveiðum.

Ákvæði 31. gr. frv. er efnislega það að leitað er heimilda til ábyrgðar hliðstætt því, sem er í 30. gr., á smíði eins skips hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar. Kjölur hefur þegar verið lagður að smíði þessa skips en það á við hér eins og um smíði skipa í svokölluðu raðsmíðaverkefni að fjmrh. ákveður framkvæmd þess ákvæðis með reglugerð.

Ég hef vikið að veigamestu atriðum þessa frv. sem hér er talað fyrir. Ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka einstök efnisatriði sem þessu frv. tengjast. Í því sambandi nægir að vísa til aths. við þetta frv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar sem legið hefur frammi allmargar vikur og til 49. máls Ed. sem er frv. um heimild til fjölbreyttari útgáfu skuldaviðurkenninga innanlands en í boði hafa verið. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til aths. með frv. sjálfu.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari 1. umr. leyfi ég mér að gera það að minni till. að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar.