12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Þórður Skúlason:

Virðulegi forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekkí átt þess kost frekar en aðrir hv.þm. stjórnarandstöðunnar í þessari deild að berja þetta frv. augum fyrr en nú þegar ég kem á þennan fund. Ég vil taka undir þá gagnrýni, sem hér hefur komið fram á málsmeðferð, að menn hafa ekki fengið meiri tíma til að átta sig betur á málinu.

Þannig er lítil von til þess að ég komi með miklar efnislegar athugasemdir við þetta annars stóra mál, en mig langar þó til að vekja hérna athygli á II. kafla frv., þar sem gert er ráð fyrir að skornir verði niður markaðir tekjustofnar til hinna margvíslegustu málaflokka — mála sem alþm. hafa fjallað um á undanförnum árum og af miklum áhuga. Þetta eru allt hin þörfustu mál og áhugi manna hefur verið það mikill fyrir þessum málaflokkum að það hefur þótt ástæða til að marka til þeirra sérstaka tekjustofna.

Það er gert ráð fyrir því í II. kafla að þessir tekjustofnar verði verulega skertir. Það vekur athygli mína, þegar ég renni augum yfir þennan lista, að þarna eru fjölmörg mál sem snerta sameiginleg útgjöld sveitarfélaganna og ríkisins og er alveg ljóst að þetta á.eftir að koma verulega illa niður á sveitarfélögunum og sameiginlegum verkefnum ríkisins og sveitarfélaganna, sem standa í mörgum tilfellum þannig, að þar er ríkissjóður með verulegan skuldahala og á eftir með sína greiðsluþátttöku í hlutfalli við greiðsluþátttöku sveitarfélagana.

Þarna er gert ráð fyrir að skerða framlag til Byggðasjóðs m.a. Byggðastefnan virðist með öðrum orðum vera komin hálfa leiðina út um gluggann. Í 15. gr. er gert ráð fyrir að framlag til Lánasjóðs sveitarfélaga sé algjörlega skorið niður — og í sambandi við erfðafjárskattinn og framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Þetta eru líka málefni sem eru sameiginleg verkefni sveitarfélaganna og ríkisins. Þarna er hlutur ríkissjóðs miðað við markaða tekjustofna verulega skertur.

Sama má segja um framlag til Hafnabótasjóðs og bitnar það auðvitað sárast og verst á þeim höfnum sem verst eru settar og þeim sveitarfélögum sem hafa úr minnstu að spila. Eins er með skemmtanaskattinn og framlag hans til Félagsheimilasjóðs. Hann er rýrður verulega. Er ástæða til að vekja athygli á að félagsheimilin vítt um land eru í ákaflega erfiðri fjárhagsstöðu og Félagsheimilasjóður hefur dregið langan skuldahala á undanförnum árum.

Þá er greint frá því í 26. gr. að framlag til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum eigi að nema ákveðinni upphæð og skerðast frá því sem gert er ráð fyrir í vegalögum. Ég vil vekja athygli á að þarna er um verulega skerðingu að ræða, sem kemur illa niður á þeim sveitarfélögum sem hyggjast nú gera verulegt átak í að færa sitt gatnakerfi frekar til samræmis við það sem gerist í stærri og öflugri sveitarfélögum. Þetta er í beinni andstöðu við nál. sem hefur verið birt núna nýlega og er frá nefnd sem starfað hefur um samskiptamál ríkis og sveitarfélaga, en þar var einmitt gert ráð fyrir að framlag til þjóðvega af vegafé yrði hækkað verulega frá því sem er í gildandi lögum. Hérna er sem sagt gert ráð fyrir að það skerðist enn frekar.

Þetta mál kemur að sjálfsögðu til fjh.- og viðskn. Nefndin mun fjalla um það og þar mun ég eiga þess kost að taka þátt í umfjöllun um málið. Síðan kemur í þá nefnd hv. fyrrv. fjmrh. og hann mun væntanlega gera ítarlegri grein fyrir þessu máli við síðari umr.